Réttarstaða íslenskrar tungu

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 20:39:16 (9037)

2004-05-26 20:39:16# 130. lþ. 127.30 fundur 387. mál: #A réttarstaða íslenskrar tungu# þál., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[20:39]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að setja á langt mál um efnisinnihaldið enda hafa því verið gerð ágæt skil. Ég ætla fyrst og fremst að þakka menntmn. fyrir að hleypa þessu mjög svo góða máli í gegn og veita því brautargengi á hinu háa Alþingi með því að vísa því til ríkisstjórnarinnar þannig að afdrif þess verða ekki þau sömu og allt of margra góðra þingmannamála sem sofna svefninum langa í nefnd eftir 1. umr. og líta aldrei dagsins ljós í neinni mynd. Þess vegna studdi ég þá hugmynd mjög að málinu yrði vísað til ríkisstjórnar af því að það framlengir líf málsins, veitir því byr og undirstrikar hve mikilvæg og góð tillaga er á ferðinni. Flutningsmenn þáltill., hv. þm. Mörður Árnason, Guðmundur Hallvarðsson, Hjálmar Árnason, Kolbrún Halldórsdóttir og Sigurjón Þórðarson eiga þakkir skildar, sérstaklega hv. 1. flm. Mörður Árnason, og er tilefni til að óska þeim til hamingju.

Í sambandi við flutning málsins og framgang þess þykir mér mikilvægt að auk þess sem tekin er til athugunar réttarstaða íslenskrar tungu með öllum þeim augljósa rökstuðningi sem fyrir því er, þá er í greinargerðinni og þáltill. talað sérstaklega um táknmálið. Við höfum haft það til umfjöllunar fyrr í vetur og stutt mjög eindregið þau merku mál sem hv. þm. frjálslyndra, Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, flutti. Þessi mál tengjast mjög og segja má að samþykkt þáltill. í þessu formi sé einnig ákveðinn og merkur áfangasigur fyrir réttarstöðu táknmálsins og því mjög mikilvæg í því samhengi. Bréf frá Hafdísi Gísladóttur fyrir hönd Félags heyrnarlausa til þingflokkanna, hér þingflokks Samfylkingarinnar, frá 11. nóvember 2003 er fskj. II með þáltill. og þar segir, með leyfi forseta:

,,Í rúman áratug hefur Félag heyrnarlausra unnið að því að styrkja stöðu íslenska táknmálsins og þar með talið bættri réttarstöðu þeirra sem eiga íslenskt táknmál að móðurmáli. Á vegum ráðuneyta eða Alþingis hafa a.m.k. fjórar nefndir verið settar á laggirnar til að álykta um þessi mál en niðurstaða þeirra litlu skilað er lýtur að bættri stöðu íslenska táknmálsins.``

Þess vegna er tillagan um réttarstöðu íslenskrar tungu sérstakt ánægjuefni í ljósi afdrifa fyrri ályktana um réttarstöðu táknmálsins. Tillagan tekur til réttarstöðu íslenska táknmálsins jafnhliða íslensku þjóðtungunni. Því vil ég fagna sérstaklega og tek undir með forustumönnum heyrnarlausra um málið sem þeir styðja mjög eindregið. Í bréfinu segir einnig, með leyfi forseta:

,,Afstaða til móðurmáls Íslendinga hefur aldrei verið tekin í stjórnarskrá Íslands. Í ljósi þessa beinir Félag heyrnarlausra því til þingflokks Samfylkingarinnar að tekin verði afstaða til móðurmálsins í stjórnarskrá Íslands og blasir þá við að einnig verði tekin afstaða til íslenska táknmálsins sem er hluti af móðurmáli Íslendinga.

Félag heyrnarlausra lýsir sig reiðubúið til samstarfs um framgang þessa mikilvæga máls.``

Hér er því á ferðinni tímamótatillaga þar sem hreyft er verulega við réttarstöðu táknmálsins sem og íslensku tungunnar, enda er íslenska táknmálið móðurmál heyrnarlausra á Íslandi. Ástæða er til að lýsa sérstakri ánægju með það og undirstrika að um leið og tillagan nær fram að ganga í þessu formi, henni er vísað til ríkisstjórnarinnar, þá er í leiðinni unninn merkur áfangasigur í baráttunni fyrir því að íslenska táknmálið verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra. Að mínu mati er sjálfsagt mannréttindamál að móðurmál heyrnarlausra sé viðurkennt sem slíkt og ekki farið í hring í kringum það. Eins og sagt er í greinargerðinni með þáltill. um réttarstöðu íslenskrar tungu, þá skiptir miklu máli að allur ramminn í kringum íslenska tungu og táknmál sé sem skýrastur, enda þarf í sambandi við bæði innflytjendur og heyrnarlausa að vera skýrt og augljóst afmarkað hvaða rétt þeir hafa til hvers konar túlkaþjónustu. Nú er sá réttur mjög fyrir borð borinn og því fer fjarri að málum sé eins vel fyrir komið og nauðsynlegt er. Oft er mikill skortur á túlkum og við þekkjum þá dæmalausu stöðu sem kom upp þegar átti að hætta að kenna fagið uppi í háskóla. Þetta er mikið réttlætismál og tekur á mörgum merkilegum þáttum. Ég óska flutningsmönnum aftur til hamingju með að málið nái fram að ganga í þessari mynd og þakka öllum hv. nefndarmönnum menntmn. fyrir að taka þátt í að vinna málinu brautargengi og að sjálfsögðu formanninum og varaformanninum fyrir að hafa beitt sér af harðfylgi fyrir því í þingflokkum sínum að málið liti dagsins ljós í þessari mynd.