Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 20:55:35 (9042)

2004-05-26 20:55:35# 130. lþ. 127.31 fundur 652. mál: #A Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða# (stjórn) frv. 102/2004, Frsm. meiri hluta SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[20:55]

Frsm. meiri hluta umhvn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta umhvn um frv. til laga um breytingu á lögum um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða, nr. 81/1997.

Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði laganna um stjórn Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar verði felld brott. Til samræmis eru lagðar til breytingar á ákvæði laganna um hlutverk forstöðumanns stofnunarinnar.

Við umfjöllunina kom fram að stjórn stofnunarinnar hefði m.a. haft það hlutverk að vera tengiliður milli stofnunarinnar og samvinnunefndar um málefni norðurslóða sem lögin fjalla einnig um. Að mati meiri hlutans er mikilvægt að þessi tengsl haldist áfram og telur hann að svo geti orðið ef forstöðumaður stofnunarinnar á sæti í samvinnunefndinni en í henni eiga sæti fulltrúar stofnana og samtaka sem sinna norðurslóðarannsóknum á Íslandi. Um fjölda nefndarmanna og samsetningu þeirra fer samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 506/1997, um samvinnunefnd um málefni norðurslóða. Fram kom hjá fulltrúa umhverfisráðuneytisins að það telji rétt að forstöðumaðurinn eigi sæti í samvinnunefndinni og til standi að breyta umræddri reglugerð á þá leið verði frumvarpið samþykkt.

Meiri hluti nefndarinnar mælir með því að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.