Synjunarvald forseta Íslands og staðfesting laga um fjölmiðla

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 10:10:08 (9138)

2004-05-27 10:10:08# 130. lþ. 128.91 fundur 601#B synjunarvald forseta Íslands og staðfesting laga um fjölmiðla# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[10:10]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim hv. þm. sem hafa hvatt hæstv. forsrh. til að svara þeim spurningum sem fyrir hann hafa verið bornar. Þetta eru einfaldar og skýrar spurningar sem ætti ekki að vera mikill vandi að svara.

Hins vegar er talsverður vandi að taka þátt í þessum umræðum um ummæli hæstv. forsrh. um það hvað hann kunni hugsanlega að gera í einhverri tiltekinni framtíð ef eitthvað kemur upp. Hæstv. forsrh. hefur reyndar sagt --- ég ætla að leyfa mér að túlka það sem hann hafi verið að gera eitthvert grín --- að hann muni hugsanlega koma til með að úrskurða eða skoða eða dæma eitthvað um gjörðir forsetans ef hann ekki ritar undir þau lög sem hér hafa verið samþykkt. Það er vitaskuld alveg fráleit hugmynd. Alþingi og forseti fara saman með löggjafarvaldið og ef forseti ritar ekki undir lög sem eru samþykkt á Alþingi fara þau einfaldlega í þjóðaratkvæðagreiðslu. Svo einfalt er það. Forsrh. hefur hugsanlega eitthvað um það að segja hvenær sú atkvæðagreiðsla fer þá fram en þó er eðlilegt að þingið afgreiði það. Ég lít svo á að hæstv. forsrh. sé meira að hrekkja þing og þjóð með þessum ummælum en að hann meini nokkuð með þessu. Þetta er svo fráleit hugmynd að engu tali tekur. Ekki aðeins það, ef hæstv. forsrh. meinar svo eitthvað með þessu er hann í reynd að segja að hann hafi komið í stað danska kóngsins sem hafði þá stöðu á árum áður að geta haft eitthvað um lög þingsins að segja.

Það er ekki þannig lengur. Framkvæmdarvald, löggjafarvald og dómsvald er þrískiptingin á ríkisvaldinu. Greinarnar eru jafnsettar og hafa eftirlit hver með annarri. Framkvæmdarvald eða forsrh. er ekki yfir þessa valdhafa settur.