Flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 10:47:41 (9149)

2004-05-27 10:47:41# 130. lþ. 128.18 fundur 947. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (flugvallaskattur) frv. 95/2004, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[10:47]

Þuríður Backman:

Forseti. Hér er verið að bregðast við dómi EFTA-dómstólsins frá því í desember 2003 þar sem dæmt var að óheimilt væri að hafa mismunandi farþegaskatta eftir því hvort flogið væri með loftfari innan lands eða frá Íslandi til aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Áður var gjaldið látið dekka bæði Keflavíkurflugvöll og varaflugvellina en nú er með nokkrum klókindum komið á sérstökum varaflugvallaskatti og það verður svo að vera ef við ætlum að hafa þetta rekstrargjald alveg sjálfstætt gjald. Það er lagt á hvern farþega sem flýgur, bæði innan lands og milli landa. Þessi skattur er viðbótarkostnaður vegna rekstrar og viðhalds alþjóðlegra flugvalla á Íslandi og varaflugvallagjaldið er 598 kr. fyrir hvern farþega. Er þá sama hvort það er innanlandsflug eða millilandaflug en undanþegin eru börn innan tveggja ára aldurs.

Auk þess er lagður sérstakur skattur, flugvallaskattur, á þá sem ferðast með loftfari og flutningaflugi innan lands eða frá Íslandi til annarra landa og hann er 382 kr.

Þessi gjöld eru alveg sjálfstæð, eru alveg aðgreind í farseðlinum og eiga að standa undir þessum ákveðna rekstri en hér vildi ég koma að þeirri ábendingu að þetta varaflugvallagjald og flugvallaskattur er ekki tekið af fragtfluginu heldur eingöngu lagt á farþega. Ég tel að það sé nokkuð sem eigi að skoðast sérstaklega, hvort t.d. rekstur varaflugvallanna eigi eingöngu að vera borinn uppi með gjöldum á farþega, hvort það eigi ekki að dreifa kostnaðinum og skoða hvort hann eigi að leggjast á fragtflugið líka.

Þetta hefur ekki verið sérstaklega skoðað. Ég er í sjálfu sér ekki að leggja til að það verði þannig en mér finnst rétt að það verði skoðað alveg sérstaklega hvort ástæða sé til að dreifa þessum rekstrarkostnaði bæði á farþega og fragt.