Umferðarlög

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 11:00:51 (9151)

2004-05-27 11:00:51# 130. lþ. 128.19 fundur 464. mál: #A umferðarlög# (öryggi barna, gjöld, EES-reglur o.fl.) frv. 84/2004, KolH
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[11:00]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Mig langar til að gera eina athugasemd við það mál sem við ræðum hér. Athugasemd mín lýtur að 1. gr. frv. sem varðar breytingar á 2. gr., þ.e. orðskýringu reiðhjóls. Verið er að breyta þessum orðskýringum og bæta inn skilgreiningu um lítil vél- eða rafknúin ökutæki sem hönnuð eru til aksturs á hraða frá 8 km og upp í 15 km á klst. Undir þessa skilgreiningu fellur m.a. vélknúið hlaupahjól sem búið er stigbretti, er á hjólum og með stöng að framan sem á er stýri. Slíkum farartækjum má ekki aka á akbraut.

Á þennan hátt er c-liðnum lýst í brtt. samgn. sem hv. formaður nefndarinnar hefur nú gert grein fyrir.

Virðulegi forseti. Hér er ákveðin hætta á ferðum. Í fyrsta lagi eru þessi litlu rafknúnu hlaupahjól þess eðlis, mörg hver, að þau eru knúin með sprengihreyfli sem heyrist mikið í, sem mengar mikið og er þar af leiðandi kannski til ama á hjólabrautunum sem eru, eins og við vitum öll, bara til sem útivistarstígar. Erfiðleikarnir sem við komum til með að horfa á núna verði þetta að veruleika --- við vitum jú að Íslendingar eru óðir í farartæki og við getum alveg ímyndað okkur að nú bíði tollafgreiðslu fjöldinn allur af hjólum af þessu tagi og það má kannski sjá fyrir sér að fjöldinn allur af svona hjólum ryðjist fram á útivistarstígana --- koma til með að þrengja að hinni litlu ræmu sem annars er hugsuð fyrir hjólreiðafólk að hjóla á. Þessi hjól eiga örugglega að vera þar.

Nú er spurning: Hvernig sjáum við fyrir okkur skokkara og útivistarfólk innan um litlu vélknúnu skellinöðrurnar sem hafa jafnhátt og margar garðsláttuvélar? Ég vil meina að hér sé ákveðin umhverfismengun á ferðinni. Þá spyrja menn: Hvernig getum við þá leyst það mál? Þessi hjól yrðu ekki heimiluð á akbrautunum.

Vandamálið er auðvitað það að hjólreiðafólk á Íslandi hefur enga aðstöðu í umferðinni. Erfiðleikarnir eru fólgnir í því að þeim sem fara um á reiðhjólum er ætlað að nota útivistarstígana af því að við höfum ekki byggt umferðarmannvirkin okkar þannig að það sé pláss fyrir reiðhjól í umferðinni.

Þetta er að mínu mati mjög miður. Ég hefði sannarlega viljað sjá að breytingarnar til batnaðar í þessum efnum yrðu teknar í þeirri röð að fyrst útbyggjum við stofnbrautir hjólreiðakerfis á þéttbýlisstöðum og tengingar á milli þéttbýlisstaða og síðan mundum við heimila hin litlu vélknúnu ökutæki inn á þessar hjólreiðabrautir.

Ég held að við sjáum hér í hnotskurn það vandamál sem er fólgið í því að engar almennilegar hjólreiðabrautir eru til sem hluti af umferðarmannvirkjum okkar Íslendinga.

Nú langar mig því til að brýna hv. formann samgn. í þessum efnum til að horfa með jákvæðu hugarfari til tillögu sem þingmenn úr öllum flokkum, og allir eiga það sameiginlegt að sitja í umhvn., hafa flutt hér á þessu þingi. Tillagan er nú í samgn. og ég geri ráð fyrir að hún hafi verið send út til umsagnar. Þetta er tillaga sem fjallar um hjólreiðabrautir og það hvernig við getum komið þeim fyrir í vegalögum þannig að það verði skilgreind ábyrgð ríkisins annars vegar og hins vegar sveitarfélaga á þessu hjólreiðabrautakerfi. Ég held að með því að samþykkja slíka tillögu, segjum á næsta hausti, værum við búin að leysa þau vandamál sem þessi breyting hér skapar.

Ég legg áherslu á að það verður að koma til ákveðin breyting á aðstöðu hjólandi fólks í umferðinni til að þessi litlu skellinöðruhlaupahjól geti yfir höfuð rúmast inni í umferðarkerfinu okkar.

Síðan má einnig geta þess að auðvitað eru til rafknúin reiðhjól sem eru að ryðja sér mjög til rúms í nágrannalöndum okkar, og ég tala nú ekki um í löndum eins og Kína þar sem ekki er fræðilegur möguleiki á því að allir eignist bíla. Fólk fjárfestir þar í reiðhjólum sem eru með lítinn rafmótor sem kemur þeim upp í 20--25, í hæsta lagi 30, km á klst. Ég veit til þess að Íslendingar eiga svona hjól og vilja fá að fara með þau út á stígana en þessi grein sem hér um ræðir mundi ekki heimila það vegna þess að hér má mótorinn að hámarki vera gerður fyrir 15 km.

Nú er rétt að spyrja: Hvað eiga þeir hjólreiðamenn að gera sem eiga rafknúna mótora á reiðhjólin sín, mótora sem fara í 20 km á klst.? Eru þeir enn útilokaðir frá því að nýta og nota þau hjól?

Í framhaldi af því mætti kannski hugsa sér, úr því að verið er að gera þessa breytingu, að kílómetraþakinu yrði lyft, það sett upp í 20 km en ekki 15. Það mundi þá ekki útiloka eigendur slíkra reiðhjóla frá útivist, fólk sem af einhverjum ástæðum, segjum bara af heilsufarslegum ástæðum, getur kannski ekki stigið hjólin sín upp á móti brekku en vill engu að síður njóta útivistar og hreyfingar. Það er mjög handhægt og lipurt fyrir fólk að vera á slíku hjóli sem getur hjálpað því upp brekkurnar. Ég held að það þurfi að búa til rými fyrir það fólk hérna líka.

Það er sem sagt spurning um það hvernig svona vélknúin, lítil hjól rúmist í kerfi okkar. Ég tel þau ekki gera það svo vel sé fyrr en við erum búin að ganga frá samþykkt þeirrar tillögu sem ég gat um áðan. Ég hvet til þess að hv. samgn. taki það til alvarlegrar skoðunar, ég segi ekki lúri yfir því í sumar en hugleiði það a.m.k. í sumar og sjái hvort ekki verði flötur á því að við finnum samkomulag í þeim efnum næsta haust.