Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 14:18:38 (9188)

2004-05-27 14:18:38# 130. lþ. 128.7 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv. 97/2004, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 130. lþ.

[14:18]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Ég greiði þessari brtt. atkvæði með alveg sérstakri ánægju og ég vil leyfa mér að segja að hæstv. umhvrh. og Landsvirkjun mega þakka sínum sæla fyrir það hversu skynsamlega heimamenn tóku á málum þegar þeim var ögrað með því fráleita frv. sem birtist, innihaldandi þetta ákvæði til bráðabirgða III sem var auðvitað ekkert annað en stríðsyfirlýsing og rof á þeim griðum sem gerð voru í lok Laxárdeilunnar svonefndu.

Sem betur fer höfðu skynsemisrök yfirhöndina og viðkomandi aðilar reyndust þá þrátt fyrir allt ekki alls ónæmir fyrir þeim. Er gott til þess að vita að meira að segja Landsvirkjun og umhvrh. geta tekið skynsemisrökum einstöku sinnum. Vegsemdin er auðvitað öll heimamanna sem buðu þrátt fyrir þetta upp á sáttaleið út úr málinu sem vonandi leiðir síðan til farsællar niðurstöðu í góðu samkomulagi allra aðila. Ég lýsi sérstakri ánægju minni með að þessi óbilgjarna ætlan var á bak brotin hér í meðförum þingsins og af hálfu heimamanna.