Skýrsla um matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 15:14:09 (9202)

2004-05-27 15:14:09# 130. lþ. 129.91 fundur 606#B skýrsla um matvælaverð á Íslandi# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Fyrir jólahlé 2002 samþykkti Alþingi þáltill. að frumkvæði þeirrar er hér stendur um athugun á orsökum fyrir háu matvælaverði á Íslandi samanborið við önnur Norðurlönd og ríki Evrópusambandsins. Mikil umræða varð um þetta mál á Alþingi og ekki síður manna á meðal. Það var því mjög mikið gleðiefni að Alþingi ályktaði um málið og ályktaði að fela ríkisstjórninni að kanna matvælaverð á Íslandi og gera grein fyrir hugsanlegum ástæðum mismunandi matvælaverðs, svo sem ólíkum verslunar- og framleiðsluháttum. Mjög mikilvægt er að fá þessa niðurstöðu til að skoða hvað hægt sé að gera til að hafa áhrif á og finna leiðir til úrbóta.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands var falið að vinna skýrslu og nú hefur verið búist við henni frá því í haust. Ég veit að hæstv. forsrh. átti von á skýrslunni fyrir 2--3 vikum en nú er komið að lokum vorþings, það er eitt og hálft ár síðan Alþingi ályktaði um þetta mál og það eru mikil vonbrigði að ná ekki að ræða skýrsluna og þær tillögur til úrbóta sem vænta má að komi fram í skýrslunni. Ég spyr því hæstv. forsrh. hvort hann hafi fréttir af málinu og hvenær sé von á skýrslunni.