Frestun á fundum Alþingis

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 15:33:00 (9211)

2004-05-27 15:33:00# 130. lþ. 129.1 fundur 1005. mál: #A frestun á fundum Alþingis# þál. 27/130, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[15:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Ekki er mikið gert með þjóðarviljann. Þótt það væru eitthvað færri en 32 þúsund, þó að það væru 31.500 og þótt það sé nútímatækni sem er notuð og hæstv. forsrh. kunni að vera tortrygginn í hennar garð, eigum við þá ekki að reikna með því að á bak við standi umtalsverður almannavilji úr því að á fáeinum sólarhringum koma saman svona mörg nöfn eða kennitölur? Varla eru þær allar falsaðar eða er hæstv. forsrh. að láta að því liggja?

Auk þess er það reyndar þannig, hæstv. forsrh., að talsverður hluti þessa fjölda mun vera á undirrituðum blöðum sem safnað var í verslunum, í stórmörkuðum í eigu ýmissa aðila, á þessum dögum.

Ég verð að segja alveg eins og er, frú forseti, að ég er að verða meira og meira gáttaður á því hvernig hæstv. forsrh. bregst við umræðum um öll þessi mál. Erum við ekki að tala um alvörumál, um mikilvæg grundvallarmál? Erum við ekki kannski að sumu leyti að tala um örlagaríkan tíma í stjórnmála- og stjórnskipunarsögu landsins? Svo gæti verið. Er enginn hugsi annar en ég og við stjórnarandstæðingar yfir því hvernig hæstv. forsrh. hefur farið fyrir liði sínu undanfarna daga með ögrandi ummælum um embætti forseta Íslands og um ákvæði stjórnarskrárinnar? Hann hefur jafnvel vefengt að málskotsrétturinn, sem menn hafa gengið út frá að væri þar til staðar, sé þar og lætur þar með auðvitað að því liggja að það komi til greina að hafa hann að engu. Það er nýtt. Þetta er í fyrsta skipti sem ábyrgir aðilar í stöðu hæstv. forsrh. og annarra slíkra taka málin upp á þetta stig. Fræðimenn hafa vissulega rökrætt um þetta, hvort rétturinn sem slíkur væri þarna ótvíræður. En það er munur á því og láta að því liggja að pólitískt komi til greina að hafa hann að engu.