Lögmenn

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 18:35:11 (9260)

2004-05-27 18:35:11# 130. lþ. 129.18 fundur 463. mál: #A lögmenn# (lögmannsréttindi, EES-reglur o.fl.) frv. 93/2004, Frsm. BjarnB
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[18:35]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá allshn. um frv. til laga um breyting á lögum um lögmenn.

Nefndin hefur vegna málsins fengið til sín fjölmarga aðila eins og rakið er í nál. nefndarinnar og ég ætla ekki að lesa þá alla upp hér. Þá hefur nefndin jafnframt í störfum sínum haft hliðsjón af umsögnum frá ýmsum þessara sömu aðila og fleiri aðilum sem málið var sent til umsagnar.

Lagðar eru til nokkrar breytingar, eða reyndar eru í frv. lagðar til töluverðar breytingar á gildandi lögum um lögmenn og nefndin leggur síðan til nokkrar breytingar á frv.

Ég ætla ekki að rekja þær breytingar sem felast í frv. frá því sem gildir í dag. Farið er yfir það helsta í nál. allshn. og hefur að sjálfsögðu komið hér áður fram við 1. umr. um málið. Frekar ætla ég að fara yfir þau atriði sem nefndin telur ástæðu til að breyta.

Eins og ég gat um áðan hefur frv. fengið ítarlega umfjöllun á vettvangi nefndarinnar. Þau atriði sem helst voru til umfjöllunar lutu að skilyrðum fyrir öflun héraðsdóms- og hæstaréttarlögmannsréttinda og því hverjir mættu kalla sig lögmenn og við hvaða kringumstæður, eins og segir í nál.

Í frv. er gert ráð fyrir töluverðum breytingum á fyrirkomulagi þess að menn geti aflað sér héraðsdóms- og hæstaréttarlögmannsréttinda. Nefndin leggur til að ákvæðum frv. verði breytt á þann veg að starfsreynsluskilyrði b-liðar 4. gr. frv. verði fellt brott þannig að allir þeir lögfræðingar sem vilja afla sér héraðsdómslögmannsréttinda geti tekist á við það verkefni --- standi vilji þeirra til þess --- eins og núgildandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir, óháð því hvaða störf viðkomandi hafa lagt stund á fram að útgáfu réttindanna. Nefndin lítur svo á að skilyrði um starfsreynslu sé til þess fallið að takmarka aðgang að lögmannastéttinni og telur ekki rök standa til að festa slíkt skilyrði í lög.

Hér er um atriði að ræða sem í sjálfu sér má deila um. Sjónarmið komu fram frá Lögmannafélaginu og starfandi hæstaréttarlögmönnum í þessari stétt um að ástæða væri til þess að gera kröfu um starfsreynslu áður en héraðsdómslögmannsprófið væri þreytt. Þeir eru til sem vilja jafnframt gera það að skilyrði fyrir útgáfu réttinda að viðkomandi starfi jafnframt eftir að hann hefur þreytt prófraunina --- og það er hægt að takast á um þetta --- þar sem það sjónarmið varð ofan á í nefndinni að þegar öllu er á botninn hvolft væri erfitt að binda í lög skilyrði og tilgreina þar nákvæmlega hvaða störf væru heppileg til að tryggja að viðkomandi fengi þá reynslu sem lögunum væri ætlað að tryggja. Satt best að segja þróuðust störf nefndarinnar þannig að það stóð til að útvíkka þá grein frv. sem fjallaði um þetta atriði en á endanum varð niðurstaðan sú að fella ákvæðið hreinlega brott. Staðreyndin er sú eins og ég rakti áðan að það er afar erfitt í lagatexta að tryggja með ákvæðum af þessu tagi að viðkomandi öðlist þá starfsreynslu sem um er fjallað. Ég tel að þetta sé mjög ásættanleg niðurstaða, jafnframt að góð sátt hafi verið um þetta atriði í nefndinni og að með þessu sé ekki verið að fórna neinu öryggi um að þeir lögmenn sem útskrifast hér á landi eða koma frá Evrópska efnahagssvæðinu og hafa stundað umfangsmikið laganám og síðan þreytt prófraun til öflunar þeirra réttinda sem hér er verið að fjalla um séu til þess hæfir að gegna þeim störfum sem þeir taka að sér.

Í því sambandi má auðvitað hafa í huga það fyrirkomulag sem gilt hefur til skamms tíma. Í gegnum tíðina hefur starfsreynsla ekki verið skilyrði fyrir því að ná sér í þessi réttindi.

Næst er að nefna úr nál. að því er beint til dómsmrh. að tekið verði til skoðunar hvort ástæða sé til að láta reyna á almenna fagþekkingu þeirra lögfræðinga sem óska eftir að afla sér héraðsdómslögmannsréttinda og það yrði þá gert með reglugerð eða reglum um þá prófraun. Ég ætla ekki að fara dýpra ofan í þetta atriði, bara nefna það að þeim sjónarmiðum var teflt fram fyrir nefndinni að eftir að háskólum sem útskrifa lögfræðinga hefur fjölgað á undanförnum árum sé meiri ástæða til þess á einhverju stigi að kanna að þeir standist einhver almenn lágmarksviðmið. Nefndin var ekki reiðubúin til að stíga það skref en beinir því til ráðherra að huga að þessu atriði og að eftir atvikum þegar fram í sækir sé sá möguleiki til staðar að láta reyna á þá fagþekkingu í prófrauninni sem fer fram þegar sótt er um réttindi til héraðsdómslögmanns.

Nefndin leggur einnig til breytingar á ákvæðum varðandi öflun hæstaréttarlögmannsréttinda. Nefndin telur sanngjarnt að héraðsdómslögmenn sem vilja afla sér réttinda til málflutnings fyrir Hæstarétti hafi flutt töluverðan fjölda mála fyrir héraðsdómi. Nefndin telur þó engin efnisrök standa til þess að fjölga þeim málum frá því sem gilt hefur en frv. gerði ráð fyrir því að í stað 30 mála skyldu koma 40 mál. Samkvæmt gildandi lögum hefur reglan verið 30 mál og nefndin gerir tillögu um að sú regla standi óbreytt.

Nefndin leggur jafnframt til að fellt verði brott skilyrði 4. efnisgreinar 7. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir að þeir lögmenn sem starfa á svonefndri undanþágu frá því að hafa skrifstofu opna almenningi, sérstakan vörslufjárreikning í viðurkenndri bankastofnun og gilda starfsábyrgðartryggingu í eigin nafni megi eingöngu nefna sig lögmenn þegar þeir koma fram fyrir hönd vinnuveitanda síns og í málum sem varða hagsmuni þeirra.

Taka má fram að þetta atriði var töluvert mikið rætt á vettvangi Lögmannafélagsins og þær umræður skiluðu sér síðan fyrir allshn. Frv. gerði ráð fyrir því að setja nánari reglur um það í hvaða tilvikum lögmönnum sem störfuðu á hinni svonefndu undanþágu væri heimilt að nefna sig lögmenn og voru færð fyrir því þau rök fyrst og fremst að dæmi væru um að lögmenn sem störfuðu á undanþágunni tækju að sér verkefni fyrir aðra en þeim væri samkvæmt lögunum heimilt að starfa fyrir. Engu að síður telur nefndin að í lögum sé þegar að finna reglur um þetta efni og þó að einstaka lögmenn hafi gerst brotlegir við þær reglur sé ekki ástæða til að fara að þrengja þær enn frekar. Nefndin fellst á það sjónarmið þeirra sem á undanþágunni starfa og hafa komið fyrir nefndina að ekki sé ástæða til að þrengja rétt þeirra til að nota starfsheitið frekar en gilt hefur hingað til. Af þeirri ástæðu leggur allshn. til að skilyrði 4. efnisgreinar 7. gr. verði fellt brott.

Í 8. gr. frv. er gert ráð fyrir því að Lögmannafélagi Íslands sé heimilt að krefja lögmann um greiðslu kostnaðar við rannsókn á fjárreiðum hans sem stjórn félagsins hefur falið endurskoðanda að ráðast í. Í þessu sambandi bendir nefndin á að skylduaðild er að Lögmannafélagi Íslands og félagsmönnum er jafnframt skylt að greiða gjald til þess að standa straum af kostnaði við rekstur félagsins. Nefndin telur óeðlilegt að kostnaði við eftirlitið verði velt yfir á félagsmann, jafnvel þótt niðurstaða rannsóknar sýni að allt sé í stakasta lagi hjá honum. Nefndin telur rétt að þessi heimild verði þrengd þannig að hún taki einungis til þeirra tilvika þar sem um umfangsmikla rannsókn er að ræða sem leitt hefur í ljós misfellur í starfi. Sumir hafa nefnt það gjald sem fellur til með þessum hætti ,,sóðagjald`` og ég held að það standi ekki undir nafni nema það eigi þá einkum við um þá aðila sem hafa gerst brotlegir. Í því samhengi þarf annars vegar að hafa verið um umfangsmikla rannsókn að ræða og síðan verulegt brot. Það eru þau sjónarmið um að þarna er auðvitað skylda að taka þátt í greiðslu gjaldsins og ekkert óeðlilegt að það geti þá staðið undir einhverjum lágmarksrannsóknum. Ekki er í öllum tilvikum rétt að velta öllum kostnaði af þessu eftirliti yfir á viðkomandi, einkum þegar um minni háttar athugasemdir er að ræða.

Nefndin leggur næst til að ákvæði 4. efnisgreinar 8. gr. frv. varðandi sjálfkrafa niðurfall réttinda falli brott. Fyrir því eru færð þau rök helst að þessi regla fái tæplega staðist, enda ljóst að hún gæti leitt til þess að maður í starfi lögmanns væri búinn að missa réttindi til að gegna starfi sínu án þess að skjólstæðingar hans eða þeir sem eftirlit eiga að hafa með lögmönnum hefðu tök á að vita um það. Þessi breyting er gerð að tillögu réttarfarsnefndar og mikil samstaða var um þetta atriði í nefndinni.

Nefndin leggur til að bætt verði við bráðabirgðaákvæði frv. ákvæði varðandi skipun prófnefndar sem hefur umsjón með prófraun til að lögfræðingar geti öðlast héraðsdómslögmannsréttindi. Lagt er til að skipað verði í fyrsta skipti í prófnefnd samkvæmt hinu nýja ákvæði þegar skipunartími prófnefndar sem skipuð var samkvæmt eldra ákvæði rennur út. Einnig er lagt til að bætt verði við bráðabirgðaákvæði frv. ákvæðum um þá héraðsdómslögmenn sem hafa við gildistöku laganna fengið viðurkenningu á prófmáli til flutnings fyrir Hæstarétti þannig að þeir hafi frest til 1. desember 2005 til að ljúka prófrauninni, að því tilskildu að umsókn um síðara prófmál hafi borist prófnefnd fyrir 10. nóvember 2005.

Það er tengt þessu atriði að lagt er til að prófnefndin starfi til 30. nóvember 2005. Þarna er eingöngu um það að ræða að huga þarf að því þegar gerð er kerfisbreyting af því tagi sem hér er verið að fjalla um að einstaka lögmenn kunna að hafa hafið réttindaöflun til Hæstaréttar í núgildandi kerfi og það er engin ástæða til að koma í veg fyrir að þeir klári réttindaöflun sína í því kerfi þannig að ekki fari forgörðum þau prófmál sem þeir hafa þegar lokið við að flytja og fengið viðurkennd.

Ég tel að ég hafi farið yfir allt það helsta sem snertir þetta mál. Það má segja um öflun réttinda bæði fyrir héraði og í Hæstarétti að allir þeir aðilar sem málið snertir hafa mjög sterkar skoðanir á því. Teflt var fram mjög mörgum og ólíkum sjónarmiðum fyrir allshn. við vinnslu málsins og ég hygg að ég geti sagt alveg kinnroðalaust að nefndin sé að fara ákveðinn milliveg í þessu og að nefndinni hafi tekist ágætlega til við að sætta og taka tillit til allra sjónarmiða sem fram komu við vinnslu málsins.