Búnaðarfræðsla

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 23:09:39 (9287)

2004-05-27 23:09:39# 130. lþ. 129.24 fundur 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[23:09]

Björgvin G. Sigurðsson:

Frú forseti. Hér hafa verið fluttar merkar og upplýsandi ræður um hið ágæta mál sem lýtur að sameiningu þessara stofnana, RALA, Garðyrkjuskólans að Reykjum í Ölfusi og skólans að Hvanneyri, og áttum við ágætisumræðu um það við 1. umr. um málið þar sem margvíslegar athugasemdir voru gerðar við frv. og bent á ýmislegt sem til betri vegar mætti færa svo að þessi sameining mundi heppnast sem skyldi. Allir sem til máls tóku voru mjög eindregið fylgjandi því að sameiningin væri mjög svo til góðs og til þess fallin að efla vísindi, rannsóknir og kennslu á sviði landbúnaðar og að hvers kyns efling búnaðarfræðslu mætti verða til þess að styrkja landbúnaðinn í landinu, verða honum bakland inn í nýja tíma og styðja við þá nýbreytni og eins þær greinar sem þar eru fyrir á næstu árum og áratugum.

Það sem við ræddum helst var það sem laut að hinum akademísku innviðum stofnunarinnar og áttum við heilmikið mál um það sem laut að skipan háskólaráðs, skipan rektors og ýmsu tilfallandi. Eins voru hér ágætar og málefnalegar umræður um það hvort skóli sem þessi ætti heima undir fagráðuneyti á borð við landbrn., eða undir menntmrn. eins og aðrir sambærilegir skólar, svo sem Tækniháskólinn, Sjómannaskólinn, þar sem Vélskólinn og Stýrimannaskólinn eru, iðnskólarnir, jafnvel deildir eins og lagadeild Háskólans. Hvernig umhverfi byggjum við við ef allir þessir skólar væru hver undir sínu fagráðuneytinu? Álit mitt er að það væri ekki fallið til neinna bóta heldur væri það menntamálum í þessum greinum til trafala. Ég tel að þessu sé best fyrir komið undir einu ráðuneyti, undir einni samræmdri stjórn þar sem fram færi heildstæð stefnumótun á öllum sviðum menntamála þó svo að enginn efist um að fagráðuneytin geri vel við sína skóla eins og landbrn. hefur vissulega gert við búnaðarskólana og sjútvrn. gerði á sínum tíma við Sjómannaskólann. Um það efast enginn en grundvöllur heilbrigðrar og heildstæðrar stjórnunar menntamála er að þessir skólar verði allir undir einu ráðuneyti, eins og kom fram í máli hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur sem mælti hér fyrir nál. og brtt. 1. minni hluta landbn.

Ég ítreka og tek undir að ég held að það væri mjög svo til bóta til framtíðar og við ættum að stefna að því á næstu missirum að færa þetta allt undir menntmrn. Það liggur svo sem ekkert á. Fyrst það er ekki lagt til hér má það bíða en í sjálfu sér hefði verið lag að gera það samhliða þessum annars prýðilegu breytingum á búnaðarfræðslu í landinu. Það er ekki á allt kosið og margar ágætar breytingar eru að fara hér inn sem lagðar hafa verið til, eins og að Garðyrkjuskólinn að Reykjum í Ölfusi verði hluti af hinum sameinaða landbúnaðarháskóla og ýmislegt annað sem ég ætla aðeins að koma inn á hérna.

Eins og við ræddum líka ítarlega við 1. umr. um málið fyrir nokkrum vikum var að við nokkur, úr a.m.k. tveimur eða þremur flokkum, lögðum á það áherslu að málið kæmi til kasta menntmn. enda um hámenntapólitískt mál að ræða. Þótt svo hátti til að búnaðarskólarnir heyri undir landbrn. en ekki menntmrn. lögðum við ríka áherslu á að málið kæmi til umsagnar menntmn. og undir það tóku fulltrúar Sjálfstfl., Framsfl., Vinstri grænna og sjálfsagt Frjálsl. líka þannig að þangað inn kom málið. Við ræddum það í ágætu tómi og nefndarmenn voru nokkuð einhuga um megináherslurnar í umsögninni þannig að við náðum saman um málið og töldum mjög mikilvægt að við gætum skilað fyrir hönd menntmn. einni umsögn til landbn. um málið. Gekk það eftir og held ég að það sé prýðilegt.

Ég ætla að fara í gegnum umsögnina. Auðvitað sneyðist um tímann enda skammt til áætlaðra þingloka og mörg mál sem bíða umræðu og afgreiðslu hér á eftir. Ég ætla ekki að tefja tímann heldur greiða fyrir þingstörfum með því að sleppa ýmsu sem ég ætlaði að koma inn á, en sem hefur verið tekið fyrir af öðrum. Ég ætla að fara hérna yfir umsögn menntmn. frá 5. maí 2004, með leyfi forseta.

,,Menntamálanefnd Alþingis hefur á fundi sínum fjallað um frumvarp til laga breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965, með síðari breytingum, og frumvarp til laga um breytingu á lögum um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, með síðari breytingum. Í frumvörpunum er gert ráð fyrir að stofnanirnar Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Rannsóknastofnun landbúnaðarins verði lagðar niður sem slíkar. Á grunni þeirra verði til Landbúnaðarháskóli Íslands sem taki við öllum verkefnum, eignum og skuldbindingum stofnananna tveggja.`` --- Við þetta bætist að sjálfsögðu núna Garðyrkjuskólinn að Reykjum í Ölfusi.

,,Nefndin bendir á að í háskólalögum er að finna almenn ákvæði um skipan háskólaráðs sem kveða m.a. á um að bæði kennarar og nemendur skuli eiga fulltrúa í ráði hvers háskóla.``

Þetta var eitt af því við skipan háskólaráðs sem kom fram í fyrstu drögum að frv. sem var mjög almenn andstaða við tel ég, að nemendur og kennarar eigi ekki hvorir tveggja fulltrúa í háskólaráðinu en t.d. var lagt til að háskólaráð Háskóla Íslands ætti þar fulltrúa. Mörgum þótti það mjög öfugsnúið og við bendum því sérstaklega á það hér.

,,Í ljósi samræmingar á löggjöf um háskóla telur nefndin að svipaðar reglur eigi að gilda um landbúnaðarháskólann. Nefndin beinir því einnig til landbúnaðarnefndar að taka til athugunar aðferðir við ráðningu rektors við háskólann.``

Það var annað atriði sem mörgum þótti mjög aðfinnsluvert, að rektor væri skipaður af ráðherra en ekki ráðinn af háskólaráði líkt og tíðkast í mörgum háskólum þó að ýmiss konar form séu viðhöfð, allt frá því sem er í Háskóla Íslands þar sem rektor er kosinn eftir nokkuð sérstökum reglum þar sem kennarar hafa ákveðið atkvæðavægi og nemendur miklu minna en þó atkvæðavægi líka. Það er lýðræðisleg kosning um rektor skólans og auðvitað er það langbesta formið ef hægt er að koma því við að þeir sem málinu eru skyldastir, nemendur og kennarar, kjósi rektor skólans í beinni kosningu. Að öðrum kosti ætti að ráða hann af viðkomandi háskólaráði en alls ekki skipa hann af ráðherra hverju sinni. Það tel ég vera mjög óheppilegt og skiptir þá engu hver er við stjórnvölinn. Þetta er almennt óheppilegt fyrirkomulag og stangast mjög á við akademískt frelsi og viðteknar venjur um það. Því bendum við sérstaklega á þetta.

Áfram segir, með leyfi forseta:

,,Nefndin telur það einkenni góðs háskóla að akademískt frelsi sé í rannsóknum og telur óheppilegt að tilgreina nákvæmlega í lögum að hverju rannsóknir háskóla skuli m.a. beinast. Jafnframt tekur nefndin fram að nauðsynlegt er að tryggt sé að yfirstandandi rannsóknir við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Rannsóknastofnun landbúnaðarins verði engin hætta búin við þá breytingu sem frumvörpin gera ráð fyrir.

Nefndin bendir jafnframt á að með breytingum sem fyrirhugaðar eru í frumvörpunum yrði stigið fyrsta skrefið í átt að sameiningu eða víðtæku samstarfi þeirra þriggja skóla sem starfa á sviði búnaðarfræðslu, þ.e. landbúnaðarháskólans, Hólaskóla og Garðyrkjuskóla ríkisins. Nefndin telur breytingarnar veganesti í að skoða framhald mála varðandi Hólaskóla og Garðyrkjuskóla ríkisins og skapa heildstæða framtíðarsýn fyrir skólana þrjá.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í nefndinni gera fyrirvara við þessa umsögn. Þar sem frumvarpið fjallar eingöngu um sameiningu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Rannsóknastofnun landbúnaðarins telja þeir vandkvæðum bundið að taka afstöðu til frekari sameiningar á grundvelli þess, enda hafi nefndinni sem undirbjó frumvarpið eingöngu verið fengið það hlutverk að líta til þessara tveggja stofnana. Þá telja þeir óeðlilegt að stofnun þeirri sem hér er að verða til skuli ætlað að starfa eftir tvennum lögum og telja að sameina ætti málefni hennar undir ein lög og eina reglugerð.``

Undir ritar nefndarritari.

Þetta var í megindráttum og samandregið þær tillögur sem við skutum til landbn. Þar var einnig rætt um sérstöðu Hólaskóla og nafnamál hans. Vorum við sammála um það og má færa fyrir því sterk rök að hann eigi að fá að vaxa og dafna sem slíkur áfram hvað sem síðar verður og hvort menn kjósa að breyta því eftir einhver ár. Við vorum sammála um að honum væri vel og best fyrir komið þar sem hann er staddur núna. Við ræddum það í nefndinni sérstaklega hvort verið væri að gera einhver mistök með því að undanskilja Hólaskóla. Það var ekki skoðun nefndarmanna að svo væri og fékk málið ágæta og málefnalega umræðu. Öll rök voru fyrir því, eins og segir ágætlega í fskj. 2 við greinargerð 2. minni hluta landbn., í grein eftir Skúla Skúlason, rektor Hólaskóla, þar sem hann færir prýðileg rök fyrir fyrirkomulagi skólans eins og hann er núna og reynslu Hólaskóla af samstarfi. Þeim málum er vel fyrir komið.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Ég lýsi aftur eindregnum stuðningi við þá sameiningu sem hér á sér stað og það að menn skuli vera að efla og styrkja búnaðarfræðsluna með þessum hætti, bæði kennslu, rannsóknir og vísindi. Ég benti einmitt einnig á við 1. umr. að það væri ýmislegt sem væri gott að fylgdi á eftir, t.d. á sviði vísinda og fræðslu á vettvangi landbúnaðar, eins og t.d. sameining Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins. Við ræddum við hæstv. landbrh. í fyrirspurnatíma á Alþingi fyrir skömmu þar sem ráðherrann tók nokkuð undir þær hugmyndir og ég nota þetta tækifæri til að skora á hann að beita sér í því máli. Ég held að það yrði mikið framfaramál fyrir landbúnaðinn í landinu, rannsóknir, vísindi og bakland landbúnaðarins, að sameina og efla frekar og fleiri stofnanir á sviði hans.