2004-05-28 01:21:07# 130. lþ. 129.27 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, ÁF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[25:21]

Ásgeir Friðgeirsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. landbúnaðarráðherra sagði að ég væri með rangar fullyrðingar varðandi matvælaverð á Íslandi í samanburði við aðrar þjóðir. Ég vil bara vekja athygli á skýrslu forsætisráðherra um samanburð á matvælaverði á Íslandi, Norðurlöndum og í ríkjum Evrópusambandsins sem var dreift fyrr í kvöld. Þar kemur fram á blaðsíðu 2 að mjólk, ostar og egg á Íslandi eru, að mér sýnist, 40--50% dýrari hér á landi en í flestum nærliggjandi löndum að frátöldu Noregi þannig að ekki er hægt að bera upp á mig einhver ósannindi í þessum efnum. Þetta er skýrsla forsætisráðherra og að því ég veit best eru gagnvegir góðir milli stjórnarflokkanna þessa dagana þannig að hæstv. landbúnaðarráðherra getur þá borið þessar upplýsingar upp á forsætisráðherra.

En ég vil spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra hvort hann sé sammála því sem kemur fram í þessari skýrslu forsætisráðherra á blaðsíðu fimm. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Stjórnvöld geta hins vegar gripið til tvíþættra aðgerða til þess að halda matvælaverði eins lágu og unnt er. Í fyrsta lagi geta þau reynt að tryggja samkeppni með því að vera vel á verði og fylgja eftir samkeppnislögum innan lands og með því að opna fyrir viðskipti við útlönd eftir því sem heilbrigði og sóttvarnir leyfa.

Er hæstv. landbúnaðarráðherra sammála þeim tillögum sem fram koma í skýrslu hæstv. forsætisráðherra?