2004-05-28 02:10:36# 130. lþ. 129.27 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[26:10]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson er mín trygging sem launamanns og neytanda fyrir því að verðþróun í þessari grein sé ásættanleg. Hann gat áður í gegnum fulltrúa samtaka sinna haft mikil áhrif og ef um koll keyrði beitt þeim þrýstingi að draga sína fulltrúa út úr verðlagsnefnd og leggja þannig áherslu á sínar kröfur. Verðlagsnefnd hefði þá við slíkar aðstæður meira og minna verið lítt starfhæf og alla vega starfað í fullum ófriði við neytendur og launamenn í landinu. En þessi vefur sem verið er að spinna er með þeim hætti að innan tíðar kann sú staða að vera uppi að fulltrúi hans sé fyrst og fremst í verðlagsnefnd til upplýsingar og til þess að skoða hluti og getur þá sagt hv. þm. og formanni BSRB frá því hvað þar er að gerast. En hann hefur ekki lengur afl til þess að greiða atkvæði gegn ákveðinni þróun. Það er afturförin og það er sú afturför sem hv. þm. á að neita. Hann á að hafna þessu. Hann á a.m.k. að vera gagnrýninn á það.

Hv. þm. segir hins vegar að hann sé vinur bænda. Gott og vel. Það er ég líka. Ég hef sagt að við eigum að sameinast um tvenns konar sjónarmið, þ.e. annars vegar eru hagsmunir bænda og ég hef rakið hvernig ég vil taka tillit til þeirra. Hins vegar eru það hagsmunir neytenda. Hagsmunir bænda eru tryggðir algerlega í þessum frv. mjög svo. En hagsmunir neytenda eru veikari en áður og í því liggur gagnrýni mín á hv. þm. Ögmund Jónasson. Hann fellst á að á meðan hagsmunir bænda eru tryggðir þá eru hagsmunir neytenda veikari en áður, þ.e. varnir fyrir þeim eru veikari en áður. Ég dreg mjög í efa að það sé í þágu umbjóðenda hv. þingmanns á þeim öðrum vettvangi sem hann starfar eða á þeim báðum að fallast á það. Mér finnst a.m.k. að hv. þm. þurfi að vera gagnrýninn. Hann getur ekki leyft sér að koma hér í þeirri stöðu sem hann er og segjast hafa trú á því að úr þessu verði bætt. Hvað veldur trú þinni? Hv. þm. á að vera eins og Tómas. Hann á ekki að trúa fyrr en hann getur lagt hönd í sárið.