2004-05-28 02:12:50# 130. lþ. 129.27 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[26:12]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel mig hafa vissu fyrir því að úr þessu verði bætt. En hitt er rétt að BSRB og við sem tölum hér fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum verið gagnrýnin á þessa efnisþætti. Hins vegar hef ég ákveðnar efasemdir um að draga þjóðina í fylkingarflokka eins og hér er gert, annars vegar bændur og hins vegar neytendur. Við erum nú þegar allt kemur til alls bara íslensk þjóð og við viljum treysta hér í sessi góða byggðastefnu.

Ef ég á að segja alveg eins og er þá hef ég haft meiri áhyggjur af stöðu bænda og þeirra hag heldur en af stöðu neytenda. Staðreyndin er sú, eins og reyndar kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að bændum hefur fækkað stórlega á undanförnum árum. Árið 1991 voru 1.509 mjólkurbú í landinu en eru núna 893 talsins. Þeim hefur fækkað mjög ört á undanförnum árum. Ég hef haft áhyggjur af þessari þróun. Hins vegar hefur hún leitt til þess að búin hafa verið að styrkjast. Þau hafa getað ráðist í fjárfestingar og uppbyggingu. Það tel ég vera mjög gott.

Þar sem spurt var um stefnu BSRB í þessum efnum langar mig til að lesa þrjár, fjórar línur, með leyfi forseta:

,,Augljósasta leiðin til að ná niður framleiðslukostnaði er að stækka framleiðslueiningarnar svo að grunnkostnaður skiptist á fleiri lítra. BSRB leggur þó áherslu á að þegar stigin eru slík skref í hagræðingarátt þurfi jafnan að hafa bæði megin framangreind stefnumarkmið í huga, hagsmuni neytenda og bænda.``

Á það er lögð áhersla í stefnu BSRB að tryggja hag bænda ekki síður en hag neytenda. Við teljum þetta hvort tveggja vera samofið og samofið hag íslensku þjóðarinnar.