Raforkulög

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 10:16:53 (9343)

2004-05-28 10:16:53# 130. lþ. 130.27 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv. 89/2004, BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[10:16]

Björgvin G. Sigurðsson:

Frú forseti. Hér hefur verið flutt ágætt mál um ýmsa fyrirvara sem eðlilegt er hafa við málið og innleiðingu þeirrar tilskipunar sem er drifkrafturinn og gerandinn á bak við þetta frv. Ég ætla ekki að eyða tíma frekar í það, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði ágæta grein fyrir því enda margir til að taka undir það að stjórnvöld hefðu átt að vera á verðinum gagnvart því að fá því frestað. En svo varð ekki og þetta lagafrumvarp er nú veruleikinn.

Í vetur fór fram í nefndinni mjög ítarleg og vönduð vinna í kringum það og mikill fjöldi gesta kom á fund nefndarinnar og gerði grein fyrir afstöðu hinna ýmsu aðila til málsins. Eins og hv. frsm. nál., Kristinn H. Gunnarsson, kom inn á hér áðan þá sátum við nefndarmenn á löngum fundum og hlustuðum á ýmis sjónarmið frá orkufyrirtækjum og öllum þeim sem málið snertir beint og óbeint, fulltrúum neytenda, verkalýðshreyfinga og fleiri og fleiri. Frumvarpið tók mörgum mjög góðum og jákvæðum breytingum í meðförum nefndarinnar og er til muna betra. T.d. sú meginbreyting að lögin, ef þau verða samþykkt, munu koma til endurskoðunar og umræðu í þinginu á tveggja ára fresti í stað fjögurra áður, sem var mjög mikilvæg breyting og kom fljótlega í ljós þegar var farið að bera þessa markaðsvæðingu raforkukerfisins saman við markaðsvæðingu raforkukerfa annarra landa og þeirra landa sem er kannski skást að bera okkur saman við, hinna Norðurlandanna, þó svo að sérstaða okkar sem eylands sé þess eðlis að það er erfitt að finna raunhæfan og góðan samanburð við íslenskar aðstæður. En það var gert og tók frv. mörgum ágætum breytingum.

Sérstaklega er mér minnisstætt þegar Egill B. Hreinsson kom fyrir nefndina og gerði okkur býsna góða grein fyrir afstöðu sinni til þessara mála og dró fram mjög margt sem vert er að taka inn í umræðuna og gera grein fyrir hérna á þeim mjög svo knappa tíma sem við höfum til þessarar umræðu þar sem við höfum fallist á að takmarka ræðutíma okkar verulega til að greiða fyrir þingstörfum þannig að fyrirhuguð þinglok megi nást í dag. Egill Hreinsson kom inn á mörg góð atriði sem vert er að hafa í huga við þessa stóru meginbreytingu á raforkukerfi okkar þar sem hann benti sérstaklega á að slík markaðsvæðing er flókinn ferill sem tekur í rauninni mjög langan tíma áður en lokamarkmiðinu er náð enda þarf, eins og hann sagði, að hanna markaðinn þar sem hann hannar sig ekki sjálfur í þessu tilfelli og hlutur hins opinbera svona afgerandi stór. Svo dró hann fram ýmsar fyrirmyndir sem mögulegar væru en Ísland hefði fáar eða engar nema kannski helst Noreg.

Sérkennin við íslenska markaðskerfið, sem gerir það að verkum að það er svo erfitt að finna því samanburð til að vinna eftir, er að við erum með lítið kerfi sem byggir á breytilegum, endurnýjanlegum orkulindum og engin bein tenging við stærri raforkumarkað. Þar er komin meginröksemdin fyrir því að við hefðum átt að fá undanþágu frá þessari tilskipun af því að við tengjumst ekki með neinum hætti hinum stóra raforkumarkaði í Evrópusambandinu heldur erum með okkar örlitla eylandsmarkað. Þess utan dró hann fram að hér væru engar eldsneytisstöðvar, engin tenging við beinan kostnað á hverja kílóvattstund orkugjafa, og þar fyrir utan væru hinir föstu stóriðjusamningar svo gríðarlega stór hluti af allri raforkuneyslu í landinu þar sem stóriðjan fær 90% af allri raforkuframleiðslu en hinn almenni notandi einungis 10%. Sú markaðsvæðing sem við erum að lögfesta hér vegna þessarar tilskipunar frá Evrópusambandinu tekur því einungis til um 10% af allri raforkuframleiðslu í landinu þannig að lítið stendur nú eftir.

Helstu áhyggjuefni sem komu fram vörðuðu markaðsvæðingu kerfisins, þar var sérstaklega dregið fram eftirlit Orkustofnunar og Samkeppnisstofnunar við samkeppnisþátt orkuvinnslunnar vegna þeirrar drottnandi stöðu sem Landsvirkjun er með, og svo þessi spurning: Hversu eðlilegt er að framleiðendur eigi ráðandi hlut í flutningsfyrirtæki? Það er kannski eitt meginmálið sem eftir stendur þegar við höfum afgreitt þessi lög frá Alþingi með þeim breytingum sem nefndin leggur til, verulega til bóta, það er eignarhaldið á bæði raforkuframleiðslunni og flutningsfyrirtækinu Landsneti hf.

Í aðdraganda nefndarvinnunnar og í nefndarvinnunni var það að sjálfsögðu eitt af þeim atriðum sem menn höfðu kannski mestan áhuga á, hver framtíðarsýnin væri er varðaði eignarhald á þessum peningavélum sem svo má kalla. Þetta eru nokkurs konar eilífðarmaskínur sem framleiða mikil verðmæti og mjög brýnt að hin samfélagslegu sjónarmið séu þar ráðandi aðilar og raforkuframleiðslan, flutningur verði ekki hagnaðarsjónarmiðunum að bráð, en verði augljóslega og nokkuð örugglega til hagræðingar fyrir neytendur. Vonandi kemst þessi samkeppnismarkaður á, ef samkeppnismarkað skyldi kalla. Það má samt nálgast málið út frá ýmsu hvað þetta varðar að það mun og á að geta skilað sér í lægra verði fyrir neytendur og betri þjónustu við þá, og ég tek ekki undir það sem fram hefur komið, að þetta muni örugglega leiða til minna öryggis í kerfinu og hærra verðs fyrir neytendur. Ég held þvert á móti að þegar fram líða stundir, og menn munu að sjálfsögðu endurskoða lögin hérna reglulega, þá á þetta að geta leitt til þess að verð til neytenda geti lækkað. Eins og mér var bent á í samtali við hv. þm. Lúðvík Bergvinsson þá opnast t.d. sá möguleiki fyrir sveitarfélög að láta orkufyrirtækin hreinlega bjóða í pakkann, bjóða í sveitarfélagið, bjóða í þá notkun sem er innan sveitarfélagsins, og þar með væri möguleiki fyrir hin einstöku sveitarfélög að ná niður raforkuverði til íbúa sinna. Það eru því ýmsir fletir á þessu máli sem geta og eiga að vera til þess að verð til neytenda lækki. Ef rétt er haldið á og menn endurskoða lögin reglulega þá verði um einhvers konar samkeppni að ræða. Það má því í rauninni draga upp skopmynd af því, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði áðan, að um eiginlega og raunverulega samkeppni verði kannski seint að ræða á þessum örlitla markaði, en þó er að sjálfsögðu einhver samkeppni og fer vaxandi þar sem t.d. hlutur Orkuveitu Reykjavíkur verður sífellt stærri við raforkuframleiðslu svo og Hitaveitu Suðurnesja. Á okkar mælikvarða eru þetta að verða nokkuð stórir framleiðendur og verða það sjálfsagt í auknum mæli á næstu árum þegar þessum fyrirtækjum vex fiskur um hrygg.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson kom inn á í andsvari við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson hérna í morgun og hefur haldið því mjög á lofti bæði í ræðu og riti í sambandi við eignarhaldið á bæði Landsneti og Landsvirkjun að heppilegast væri til framtíðar að Reykjavíkurborg og Akureyrarbær væru losuð út úr fyrirtækinu og ég tek undir þau sjónarmið og forustumenn Reykjavíkurborgar hafa sjálfir haldið þessu á lofti. Hvað varðar framtíðareignarhald á Landsnetinu, þegar menn opna fyrir það að aðrir en þeir sem eiga það núna geti keypt það, þá held ég að menn ættu sérstaklega að líta til þess að lífeyrissjóðirnir í landinu, sem við viljum hvað best, fengju aðkomu að því og gætu fjárfest í þessum mjög svo góða fjárfestingarkosti. Þarna værum við áfram að tryggja að slíkir aðilar ættu fyrirtækið og að áfram verði um samfélagslega þjónustu að ræða.

Eins með eignarhaldið á Landsvirkjun, þegar þau skref verða stigin og næsta umræða verður tekin um þau mál, þá skoði menn það að losa Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ út úr Landsvirkjun, kaupa þá aðila út og þá líti menn sérstaklega til lífeyrissjóðanna sem fjárfesta í þessum fyrirtækjum.

Það má alveg taka undir það að óeðlilegt sé að tvö bæjarfélög eigi til framtíðar svo stóra hluti í þessu sameiginlega fyrirtæki okkar landsmanna þar sem Landsvirkjun hefur fengið ókeypis úthlutað flestum bestu raforkukostunum í gegnum tíðina á ákveðum forsendum og því mjög eðlilegt að þau viðhorf komi fram sem hér hefur verið haldið á lofti, og öll hin sveitarfélögin í landinu komi einhvern veginn að þessum málum líka.

En umræðan um eignarhaldið á Landsvirkjun og Landsneti til framtíðar, eftir 2011, þegar það verður endurskoðað 2010, kemur sjálfsagt til kasta Alþingis síðar og eru engar efnislegar forsendur til að fara að eyða tímanum í það hér enda lítill tími til þessara umræðna. En við fulltrúar Samf. í iðnn. styðjum þetta mál svo fram komið og erum á því án fyrirvara enda tók málið gagngerum breytingum í meðförum iðnn., þeim breytingum sem við vildum sjá þar, t.d. sem lyti að endurskoðun laganna hér á hinu háa Alþingi og því meginatriði sem við settum fram, sem var eignarhaldið á flutningsfyrirtækinu, Landsneti hf. Það náðist inn í góðri sátt við aðra nefndarmenn og að þessum meginkröfum okkar fram fengnum þá styðjum við að sjálfsögðu frv. og fögnum því sérstaklega að þessar breytingar náðust á því. Það var mjög gott vinnulag í nefndinni og það var alltaf markmið formanns nefndarinnar og annarra nefndarmanna að lenda þessu máli þannig að um það ríkti nokkur sátt og samstaða þannig að þetta stóra mál, þessi meginbreyting á raforkumarkaði okkar Íslendinga mætti verða þannig til komin að um hana ríkti sæmileg sátt. Fyrst þetta væri uppi á borðum, fyrst menn fengu ekki undanþágu frá tilskipuninni og þetta væri að veruleika komið þá fagna ég því vinnulagi og ég fagna því að það er tryggt að Landsnet hf. flutningsfyrirtækið, verði í eigu opinberra aðila og þar með tryggt að samfélagsleg sjónarmið liggi áfram til grundvallar þessum málum.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra en að endingu ætla ég að vitna hér í litla klausu í séráliti fulltrúa ASÍ og BSRB þar sem margar mjög gagnrýnar og góðar athugasemdir komu fram og höfðu að sjálfsögðu áhrif á viðhorf okkar og vinnu inni í nefndinni.

Þar segir, með leyfi forseta:

,,Flutningsfyrirtækið verði í eigu opinberra aðila, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, enda er því ætlað að vera hluti af almennri grunngerð og þjóna almenningi og fyrirtækjum sem þjónustuaðili og er auk þess með einokunaraðstöðu. Því er mikilvægt að tryggja að slíkt félag verði ekki selt einkaaðilum í framtíðinni, né að rekstur þess og arðsemiskröfur verði sett undir markaðslegar forsendur um skammtímahagnað. Tryggja verður að bæði neytendur og orkuframleiðendur hafi opinn aðgang að öllum upplýsingum varðandi flutningsfyrirtækið sjálft og starfsemi þess.

Til þess að stuðla að sátt um bæði flutningsjöfnunina og rekstraröryggi flutningskerfisins föllumst við á tillögur um að flutningskerfið nái til 66 kV. Með þessu er jöfnun á flutningskostnaði sem best tryggð.``

Að lokum ætla ég að grípa hér niður á öðrum stað þar sem fram kemur athyglisverð athugasemd um arðsemiskröfuna, með leyfi forseta:

,,Við höfnum því að sett verði markaðsleg arðsemiskrafa á samfélagslegar fjárfestingar eins og flutningsfyrirtækið og dreifiveitur eru. Það mun valda hækkun á raforkuverði alls staðar á landinu ...`` Við tókum það sérstaklega til greina og höfðum til grundvallar og vildum tryggja að svo yrði að sjálfsögðu alls ekki, heldur að arðsemiskrafan mætti frekar verða til þess að neytendur ættu kost á rafmagni á hagstæðara verði.

Við teljum því að margar athugasemdir sem komu fram í álitum, t.d. frá ASÍ og BSRB, hafi haft veruleg áhrif og orðið til þess að við náðum fram í nefndinni góðum breytingum, réttlætisbreytingum á raforkulögunum. Öll þau ítarlegu og vönduðu álit sem komu fram hafa orðið til þess að málið lítur miklu betur út hér fram komið. En það sem eftir og upp úr stóð var í rauninni það sem kom fram hjá Agli B. Hreinssyni og fleirum, að það væri eiginlega engin leið að segja nákvæmlega til um það hvernig þessi mál mundu þróast á næstu árum, þess vegna var það sett inn að þau kæmu til endurskoðunar á tveggja ára fresti, menn yrðu einfaldlega að læra af reynslunni og reyna að búa svo um hnúta hverju sinni að agnúar yrðu sniðnir af eftir því sem kostur er og eftir því sem þeir kæmu í ljós.

Við munum því örugglega áður en langt um líður ræða þetta mál aftur og vonandi í betra tómi. Það má taka undir það að málið bar brátt að og hefði þurft að vinnast miklu betur og á lengri tíma þannig að við hefðum getað eytt meiri tíma í að ræða það hér á hinu háa Alþingi, en það vatn er löngu farið undir brúna og óþarfi að eyða tíma í það. En ég vil taka það fram að ég fagna þeim breytingum sem urðu á frv. og fagna aftur vinnulagi nefndarinnar þar sem meginmarkmið formanns nefndar og nefndarmanna var að við mundum lenda þessu máli í sátt og þeir sem kæmu fram með kröfur um réttlátar breytingar á frv. fengju þeim framgengt ef nokkur kostur væri og fyrir það vinnulag vil ég þakka. Þetta eru lýðræðisleg og góð vinnubrögð, byggð á því að frv. verði sem best og megi verða íslenskum neytendum og íslenskum raforkuframleiðendum og öllum þeim sem málinu tengjast til verulegra hagsbóta og framdráttar. Það markmið tel ég að hafi náðst með því frv. sem liggur hér fyrir Alþingi og því styð ég frv. ásamt félögum mínum í Samf. fyrirvaralaust.