Raforkulög

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 11:35:39 (9352)

2004-05-28 11:35:39# 130. lþ. 130.27 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv. 89/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[11:35]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Það væri nú ákaflega gaman að vera hérna næstu viku og ræða þessi mál svolítið við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, sem kemur nú í ræðustól og gerir það sem er ekki hefðbundið þegar menn eru með samkomulag um tilhögun þingstarfa, að ráðast með aðdróttunum og ummælum af því tagi sem hv. þm. hafði hér uppi í minn garð í ræðu sinni áðan og núna aftur í andsvari. Það er ekki hefðbundið en það lýsir kannski hv. þm. ágætlega. Þegar hann telur sig vera í stöðu til þess að hafa síðasta orðið þá kemur einkunnagjöf af þessu tagi.

Ætli það geti nú ekki verið einmitt það að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson skammast sín auðvitað fyrir þá ömurlegu nauðhyggju í málflutningi sem hann stendur fyrir hér, að það séu bara örlög manna að láta þetta yfir sig ganga og sé illa gert að vera að gefa í skyn að menn geti nokkru um slíkt ráðið? Þetta sé bara eins og forlögin sem komi ofan að yfir menn og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er svona sæll og sáttur við þetta. Það er sennilega þannig að hann sé í reynd orðinn slíkur markaðs- og einkavæðingarsinni í hjarta sínu að hann ætli að fara stoltur vestur á firði og út um kjördæmi sitt og reyna að sannfæra íbúana og kjósendurna þar um að þetta sé þeim til góðs.

En, frú forseti, það trúi ég að geti orðið erfiður leiðangur. Ég hef þá trú á skynsemi manna úti um landið að þeir sjái ekki endilega ljósið og birtuna í því að markaðsvæða og einkavæða þessa almannaþjónustu, hafandi reynsluna af því hvernig það hefur gefist á ýmsum öðrum sviðum þar sem ríkisstjórnin sem hv. þm. styður hefur markaðsvætt hvert almannaþjónustufyrirtækið á fætur öðru með þeim afleiðingum að menn hafa lokað og skellt í lás.

Mér finnst hv. þm. vera algerlega lekinn niður í þessum efnum. Það er þá í fleiru en smábátamálum sem hv. þm. lekur niður og snýr við blaðinu, svo mikið er víst.