Landsnet hf.

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 11:51:15 (9356)

2004-05-28 11:51:15# 130. lþ. 130.28 fundur 737. mál: #A Landsnet hf.# frv. 75/2004, KLM
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[11:51]

Kristján L. Möller:

Frú forseti. Bara örstutt. Ég vil nefna það sem ég gerði reyndar áðan í umræðu um raforkulagafrumvarpið. Það var rætt vel í okkar hópi, fulltrúa Samf. í iðnn., eftir nokkrar heimsóknir sem við fengum í nefndinni út af Landsnetinu þar sem því var lýst hvernig Norðmenn og Svíar hafa þetta þar sem ríkið á flutningskerfið og flutningsfyrirtækið. Eins og ég sagði áðan var okkur líka sagt frá því hvernig Danir eru að taka þetta til baka til ríkisins, en þrátt fyrir það sem hér er gert, sem mér finnst kannski ekkert óeðlilegt sem fyrstu skref með tilliti til þeirra miklu framkvæmda sem eru á vegum Landsvirkjunar, þá er ekki hægt að stíga þetta skref strax. En ég vil árétta það sem ég sagði áðan að innan Samf. er mikill hljómgrunnur og talsvert mikill skilningur og áhugi fyrir því að árið 2011 eða hvenær sem það verður að ríkið komi til með að eiga flutningskerfið í náinni framtíð. Við teljum með öðrum orðum, virðulegi forseti, ekki eðlilegt að framleiðendur raforku eigi þetta einokunarfyrirtæki, sem má orða svo að það sannarlega verði, heldur eigi það að vera ríkiseign. Ég vildi, virðulegi forseti, aðeins láta það koma fram við umræðu um þetta sérstaka frv.