Jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 11:58:19 (9358)

2004-05-28 11:58:19# 130. lþ. 130.29 fundur 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv. 98/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[11:58]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Þessi þáttur þessara mála, jöfnun á kostnaði við dreifingu raforku, var einn af mörgum sem skilinn var eftir í algerlega lausu lofti þegar raforkulög voru sett vorið 2003. Nú hefur litið dagsins ljós og fyrir nokkru síðan á þingi frv. hæstv. iðn.- og viðskrh. úr Framsfl., Valgerðar Sverrisdóttur, sem ég hygg að muni lengi verða á spjöldum þingsögunnar. Ég ætla a.m.k. að geyma eitt eintak vel til síðari tíma. Það er frv. til laga um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku á þskj. 1117 þar sem hið nafntogaða upphaf 3. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Ef ákveðið er í fjárlögum að ráðstafa fé til að lækka kostnað almennra notenda vegna dreifingar raforku skal hann einungis greiddur niður á svæðum þar sem Orkustofnun hefur`` o.s.frv.

Þetta var allur skörungsskapurinn þegar ráðherra Framsfl. loksins kom frá sér einhverju um það hvernig jafna ætti dreifingarkostnað raforku í landinu í hinu nýja markaðseinkavædda fyrirkomulagi. Þá var það haft í þáskildagatíð, ef það skyldi nú verða ákveðið þá er rétt að gera það svona. Sterkara var ekki að orði kveðið. Þetta var auðvitað með miklum endemum, frú forseti, og mun lengi uppi haft, hygg ég.

Vissulega er nokkur bót að þeirri breytingartillögu meiri hlutans sem breytir orðalaginu í þá átt að greiða skuli niður kostnað almennra notenda vegna dreifingar raforku á þessum dreifbýlisgjaldskrársvæðum. Og ég segi að mönnum er nú varla þakkandi þó að þeir reyndu að klóra aðeins yfir skömmina og laga upphafið á þessu lítillega eins og þarna er gert.

[12:00]

Engu að síður er frágangurinn á þessu máli, frú forseti, algerlega ófullnægjandi að okkar mati. Við viljum fara í grundvallaratriðum aðrar leiðir, leiðir sem menn vissu reyndar ekki betur en að stóri starfshópurinn um þessi raforkumál væri nokkurn veginn einhuga um að leggja til, þ.e. að jöfnunin yrði innan kerfisins en ekki ofurseld duttlungum manna við afgreiðslu fjárlaga hvert einasta ár á þinginu.

Hvernig hafa slíkir hlutir reynst og enst, frú forseti? Jú, ætli það hafi ekki ærið oft verið svo að menn hafi notað sér annaðhvort raunverulega eða ímyndaða þrengingartíma í ríkisbúskapnum til þess að skera slíkt niður. Og það á að verða hlutskipti þeirra sem bera þarna þyngstan kostnaðinn að öll hugsun um jöfnun innan kerfisins hverfi og menn eigi að færast yfir á einhverjar niðurgreiðslur eða styrki á fjárlögum hverju sinni. Þetta er óskaútkoma frjálshyggjunnar. Það er takmark frjálshyggjumanna á öllum sviðum að ýta jöfnuninni út úr samfélaginu með þessum hætti og menn fallast gjarnan á það svona tímabundið að það komi þá einhverjir styrkir til jöfnunar af fjárlögum í byrjun sem menn vita síðan að er lafhægt að skera niður og láta hverfa þegar fram líða stundir. Þá er ekkert eftir nema spurningin um hvort menn hafi pólitískt bolmagn til þess að verja slíka hluti á hverju einasta ári.

Við leggjum til í grundvallaratriðum aðra leið. Við viljum að orkuframleiðendur í landinu greiði grunngjald sem fjármagni þessa jöfnun og eftirlitið sem þessu kerfi er samfara þannig að raforkumálin í heild sinni séu ein eining og landsmenn allir búi þar af leiðandi við nokkurt jafnræði í þeim efnum. Það er ekki erfitt að réttlæta það að afnot orkufyrirtækjanna af þeirri sameiginlegu auðlind þjóðarinnar sem orkulindirnar auðvitað eru, séu háð því skilyrði að þau leggi sitt af mörkum hvert og eitt til þess að tryggja jafnræði landsmanna. Það er enginn vafi á því, frú forseti, að það var rétt sem starfshópurinn stóri lagði til að með slíkum hætti er jöfnunin varanlega innbyggð í kerfið. Hún stendur traustum fótum og er til frambúðar en ekki með þessum aumingjalega frágangi sem stjórnarflokkarnir og aðrir stuðningsmenn frv. hér ætla að leggja til í þessum efnum.

Breytingartillögur mínar, sem ég því miður hef ekki tekið með mér, það er spurning hvort ég má víkja mér augnablik úr ræðustólnum eða forseti getur lánað mér skjalið eða einhver greiðvikinn maður skutlað þeim til mín til að greiða fyrir þingstörfum eins og það heitir á góðu máli, eru á þskj. 1757 og þær ganga út á í fyrsta lagi, frú forseti, að endurskilgreina markmið þessara laga um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku. Markmiðsgreinin er ákaflega aumingjaleg eins og hún er í frv. sjálfu og því miður er ekki lögð til breyting á henni í breytingartillögu iðnn. en hún hljóðar svo í frv., með leyfi forseta:

,,Markmið laga þessara er að stuðla að jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til almennra notenda.``

Meira er nú ekki um það sagt og síðan var frv. með þeim endemum eins og ég áður vék að hvað varðaði upphaf 3. gr.

Ég legg til að greinin orðist svo:

,,Markmið laga þessara er að jafna kostnað við dreifingu raforku til almennra notenda svo að munur á orkuverði haldist ætíð innan hóflegra marka og landsmenn allir fái notið góðs af sameiginlegum orkulindum þjóðarinnar.``

Það væri manndómsbragur að því að menn styddu þessa breytingartillögu hvað sem öllu öðru líður og settu afdráttarlausari og skýrari markmið inn í upphafsgrein laganna.

Í öðru lagi leggjum við til að 3. gr. endurskrifist í heild sinni og þar komi inn ákvæði um grunngjald orkuframleiðenda sem verði miðað við það að duga fyrir kostnaðinum við jöfnun og eftirlit með kerfinu hjá flutningsfyrirtækinu.

Nú er það auðvitað svo að hluti orkuframleiðendanna framleiðir og selur raforku á grundvelli fyrirliggjandi samninga til langs tíma, ekki síst við stórnotendur, og þess vegna er ljóst að það tekur sinn tíma að koma þessu kerfi á.

Fyrir því er séð í breytingartillögum okkar einfaldlega þannig að í ákvæði til bráðabirgða, sem ég legg til skv. 4. tölul. brtt., segir svo, með leyfi forseta:

,,Í framhaldi af setningu laga þessara skal iðnaðarráðherra leita eftir samkomulagi við alla orkuframleiðendur í landinu sem framleiða orku sem flutt er og seld utanaðkomandi aðila og skyldir eru til greiðslu grunngjalds skv. 3. gr. Heimilt er að taka tillit til þess ef orkuframleiðandi er bundinn af samningum um afhendingu orku á föstu verði og ekki næst samkomulag um breytingar á samningnum til hækkunar í samræmi við grunngjaldið innan gildistíma samningsins. Skal ráðherra þá meta hvort afkoma viðkomandi orkufyrirtækis leyfi að það beri grunngjald af þessum hluta framleiðslunnar engu að síður. Nú hefur einörð viðleitni orkufyrirtækis til að fá gildandi samningum breytt til hækkunar vegna greiðslu grunngjalds ekki borið árangur og ráðherra metur það svo að afkoma fyrirtækisins leyfi ekki að það beri gjaldið, og er honum þá heimilt að lækka gjaldið eða fella það niður þar til samningar hafa verið endurnýjaðir en við endurnýjun allra samninga er fyrirtækjum skylt að gera ráð fyrir greiðslu grunngjalds. Það sem vantar upp á að tekjur af innheimtu grunngjalds samsvari heildarfjárhæð jöfnunargjalds, sbr. 2. mgr. 3. gr., skal greiða úr ríkissjóði uns allir orkuframleiðendur greiða sitt grunngjald að fullu.``

Með öðrum orðum, þetta er skýrt samkvæmt orðanna hljóðan og á ekki að þurfa útskýringa við. Það á að leita eftir því að allir orkuframleiðendur taki þátt í þessu. Náist það fram verður um mjög óverulegar upphæðir að ræða, einhverja fáein aura á kílóvattstund þannig að það verður nánast hverfandi í heildarsamhenginu. Þeim sem ekki geta eða vilja taka þátt í þessu í byrjun ber að taka þetta inn í sínar áætlanir og ná þessu fram við endurnýjun samninga þannig að í fyllingu tímans verða allir orðnir þátttakendur í þessu. Raforkuframleiðsla til stóriðju tekur að sínu leyti þátt í þessari heildarjöfnun innan kerfisins, enda nýtur hún að ýmsu leyti góðs af í gegnum aukið afhendingaröryggi, í gegnum aðgang að varaafli o.fl. sem tenging hennar við Landsnetið hefur í för með sér. Þetta er fullkomlega raunhæf og fær leið og mjög sanngjörn en hefur vissulega það í för með sér að ríkissjóður gæti þurft að brúa þarna tímabundið bil sem vonandi yrði hvorki stórt í upphæðum né til mjög langs tíma.

Með þessum hætti, frú forseti, væri gengið með skýrum og varanlegum hætti frá því að Íslendingar sætu allir við sama borð í þessum efnum, að menn byggju þarna við jafnræði og þeir væru ekki ofurseldir pólitískum sviptivindum og duttlungum við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni. En það er kannski tímanna tákn ef svo er komið á Alþingi að slík hugsun eigi sér nánast enga fylgjendur aðra en þá sem ganga fram undir merkjum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs.