Jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 12:17:07 (9361)

2004-05-28 12:17:07# 130. lþ. 130.29 fundur 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv. 98/2004, Frsm. KHG
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[12:17]

Frsm. iðnn. (Kristinn H. Gunnarsson):

Frú forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að eyða allri óvissu um skilning á þessu. Eins og fram kom í máli hv. þm. Kristjáns L. Möllers er í fylgiskjali með frv. umsögn frá fjmrn. þar sem fram kemur að kostnaðurinn af lögfestingu frv. verði að hámarki 230 millj. samkvæmt stefnumörkun ríkisstjórnarinnar.

Síðan segir, með leyfi forseta, í umsögn fjmrn.:

,,Veruleg óvissa er um ýmsar forsendur í þeirri áætlun vegna þeirra skipulags- og rekstrarbreytinga í raforkugeiranum sem áformaðar eru á næstu árum. Er því ekki unnt að segja fyrir um það með vissu hvort framlagið muni mæta að fullu mismuninum á verði í dreifbýli og dýrasta þéttbýli.``

Fjmrn. gengur því út frá því að talan sé föst og síðan verði að ráðast hvernig gangi að greiða niður kostnaðinn í gjaldskrá dýrasta þéttbýlis.

Með breytingartillögunni er forsendan fyrir þessari umsögn brostin vegna þess að með breytingartillögu iðnn. er ákveðið að greitt skuli niður samkvæmt því sem þar segir og þar með er það orðin hin almenna stefna en ekki fjárhæðin sem er ráðandi þáttur í málinu.