Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 12:34:42 (9363)

2004-05-28 12:34:42# 130. lþ. 130.30 fundur 305. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (stofnstyrkir, jarðhitaleit) frv. 58/2004, KLM
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[12:34]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Af því að við teljum okkur vera alveg á tímaáætlun ætla ég að gefa mér örlítinn tíma til að ræða þetta mál vegna þess að það er mér mikið hjartans mál og hefur verið alla tíð. Ég hef oft rætt það á mínum stutta þingferli. Ég minnist þess og fer aftur til þess þegar ég sat í svokallaðri byggðanefnd forsrh. sem var nokkurs konar hliðarnefnd, skipuð til þess að liðka til fyrir ýmsum málum og koma fram með ýmsar góðar tillögur þegar verið var að fara í kjördæmabreytinguna. Ég hef stundum kallað það gulrótartillögur sem því miður hafa ekki allar gengið eftir, en það verður að segja alveg eins og er að það gekk dálítið eftir hvað varðar niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði. Þær 850 millj. sem ég hef stundum gert að umtalsefni voru hækkun og skal það nefnt sem vel er gert.

Það sem frv. fjallar um, eins og hér hefur komið fram, er að hækka hámark stofnstyrkja til hitaveitna í átta ár í stað fimm. Það er auðvitað mjög gott mál vegna þess að það leiðir vonandi til þess að fleiri fara af stað við að reyna að finna heitt vatn og byggja sér hitaveitu og nýta þar með innlenda, umhverfisvæna orku til að hita hús og híbýli sín í stað þess að flytja inn olíu eða vera með dýra rafhitun. Þetta er auðvitað mjög gott skref í þá átt. Við skulum hafa í huga að það er að nást miklu meiri árangur um þessar mundir við borun á köldum svæðum en áður hefur verið. Með þeirri tækni sem þar er notuð og öllum okkar miklu vísindamönnum og snillingum, vil ég segja, í þeim efnum, er alveg ótrúlegt hvar næst heitt vatn núna úr iðrum jarðar þar sem við höfðum ekki gert okkur grein fyrir eða vonir um að gerðist fyrir nokkrum árum síðan.

Það er sem sagt verið að hækka þennan styrk sem er af hinu góða jafnframt því sem verið að binda hann við olíuhitun, sem á samt ekki við um mjög marga staði en á t.d. við um Grímsey sem tók hana inn fyrir nokkrum árum en samt eru eins og komið hefur fram vangaveltur um að fara í einhverjar lagfæringar hvað þetta varðar.

Þetta á að fjármagna með því að taka 5% af árlegri fjárveitingu til niðurgreiðslna á húshitunarkostnaði og til nýrra hitaveitna, 850 millj. Ég gerði athugasemdir við það við 1. umr. og fannst ekki mikill myndarbragur á því hjá hæstv. iðnrh. að geta ekki komið með nýtt fé inn í þessar aðgerðir sem við erum sammála um að gera, heldur að klípa það af þessum 850 millj. Ég stend við það enn þá þó svo að okkur í iðnn. hafi tekist og verið ásáttir um að setja hér inn nokkur atriði, sem ég kem að síðar, sem eiga að tryggja að þetta muni ekki lækka niðurgreiðslur til almennings. Ég hef stundum sagt það í sömu andránni að mér fannst það jafnlélegt, að koma ekki með nýtt fé inn í þetta, og hinn frægi sjóður ,,Átak til atvinnusköpunar`` sem lækkaði töluvert á þessu ári vegna þess að verið var að búa til eitt nýtt starf í iðnrn., Átak til atvinnusköpunar í Reykjavík, nánar tiltekið í ráðuneyti byggðamála. Það er náttúrlega alveg ótrúlegt að fara þessa leið og sýnir bara að hæstv. iðnrh. tekst ekki að fá pening innan ríkisstjórnarinnar til síns ráðuneytis í þann málaflokk sem þarna er verið að tala um og að það skuli vera fjármagnað á þann hátt að taka það úr eins og ég kalla það ,,Átaki til atvinnusköpunar í Reykjavík`` í iðnrn.

Hins vegar er sá galli með niðurgreiðslu húshitunar að hún er enn þá bundin við rafhitun og olíuhitun. Það kom fram í fyrirspurn minni til iðnrn. og kom fram í iðnn. að það eru þrjár hitaveitur sem búa við það háan upphitunarkostnað að undir öllum venjulegum kringumstæðum, ef það væri heimilt með lögum og ef ekki væri talað um rafhitun eða olíuhitun eða bara upphitun húsnæðis fyrir ofan einhver ákveðin mörk, ættu þær að falla undir niðurgreiðslu húshitunar. Það eru hitaveitur sem byggðar voru fyrir nokkrum árum síðan í mikilli verðbólgu og lentu í hremmingum, fundu ekki nægjanlega mikið vatn og annað slíkt. Þær eru enn þá með of dýrt vatn og ættu auðvitað að falla undir þetta. Ekki náðist samstaða um að setja það inn, því miður, þrátt fyrir að iðnn. hafi bent á þetta atriði fyrir nokkrum árum og lagt það til við afgreiðslu á fjárlögum fyrir tveimur, þremur árum síðan. Mér finnst miður að það skuli ekki vera sett inn og hef stundum sagt og ætla að segja það einu sinni enn, ég efast um að það standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, þ.e. að dýr upphitun á húsnæði sé niðurgreidd ef hún með rafmagni eða olíu en ekki með heitu vatni þó að hún sé jafndýr.

En nóg um það. Hér er tekið gott skref af hálfu nefndarinnar, að taka inn fleiri aðila sem njóta þessara niðurgreiðslna, eins og kirkjur og bænahús, söfn, félagsheimili og húsnæði björgunarsveita. Mér finnst það mjög gott en segi það þó með fyrirvara um að það verði ekki til þess að lækka það sem almenningur fær, að tekið verði tillit til þess og að það verði sameiginlegt verkefni okkar í iðnn. að berjast fyrir því að þessi niðurgreiðslupottur hækki á næstu fjárlögum ef í ljós kemur að niðurgreiðslur til almennings lækki, annars vegar út af breytingunni í átta ár og hins vegar við það að fleiri komi inn. Það verður þá verkefni okkar að gera það.

Einn þáttur sem nefndin tók upp og sýnir hve gott vinnulag var í nefndinni --- og nú gengur iðnrh. í salinn þar sem við erum að ræða iðnaðarnefndarmálin --- og er mjög til bóta er að sett var inn að fyrir 1. október skuli semja skýrslu og gera grein fyrir ráðstöfun þessa fjár samkvæmt þeim lögum sem við erum að setja næstliðið ár á undan og endurskoða það þannig. Við sjáum því í byrjun október hvað gerst hefur á árinu áður og þá sjáum við hvort við þurfum að hvetja hæstv. iðnrh. til dáða til að sækja um meiri pening til hæstv. fjmrh. ef þetta fer á þann veg sem ég gerði að umtalsefni rétt áðan. Það er mikilvægt atriði og hlutur sem er mjög mikilvægt að fá inn í nefndarálitið og þær breytingartilögur sem iðnn. flytur.

Það er líka áréttað hér eins og segir í nál., með leyfi forseta:

,,Loks leggur nefndin áherslu á að styrkveitingar til jarðhitaleitarátaks og til nýrra hitaveitna leiði ekki til lækkunar á raungildi niðurgreiðslna á húshitunarkostnaði.``

Ákvæðið um 1. október er það sem ég er að fjalla um og er ákaflega mikilvægt og auðvitað hluti af því að við fulltrúar Samf. styðjum málið.

Ég vil rétt í lokin, virðulegi forseti, geta þess sem líka var rætt í nefndinni og ég ræddi við 1. umr. Það voru ákvæðin um að veita stofnstyrki til nýrra hitaveitna en ég tók hér dæmi úr Búðardal sem var ekki nógu gott þar sem niðurgreiðslur til rafhitunar voru felldar niður hjá aðila sem neitaði að taka inn hitaveitu á því svæði vegna þess að það var margfalt dýrara fyrir hann að taka hana inn, að breyta hitakerfi hússins, hann var með þilofna, að breyta því í hitaveitukerfi eða vatnshitakerfi var þessum aðila margfalt dýrara. En refsingin sem viðkomandi aðili fékk þá var sú að niðurgreiðslurnar til hans vegna rafhitunar voru felldar niður.

Ég gerði þetta að umtalsefni við 1. umr. Ég tók þetta dæmi sem er í raun og veru sorgardæmi um hvað einn einstaklingur þarf að ganga langt í því að sækja rétt sinn. --- Virðulegi forseti. Gæti ég fengið aðeins hljóð í þingsal meðan ég fer í gegnum þetta. --- Ég var að segja að mér fyndist mjög bagalegt hvað einstaklingar þurfa að leggja á sig mikla vinnu við að sækja þann sjálfsagða rétt að mótmæla því að niðurgreiðslur til rafhitunar eru felldar niður þegar hann sýnir fram á með rökum að upptaka hitaveitu á svæði þar sem ákveðið var að byggja hitaveitu, í þessu tilviki í Búðardal, var það dýr fyrir viðkomandi að hann gat ekki hugsað sér það. Það var margra ára óhagræði og hlutur sem borgaði sig ekki upp. Ég hef hér alla þá göngu sem viðkomandi einstaklingur hefur þurft að fara, allt til umboðsmanns Alþingis, til að ná fram þeim sjálfsagða rétti sínum.

Ég gerði þetta að umtalsefni og þetta var rætt við fulltrúa iðnrn. á fundi iðnn. þegar við ræddum málið. Því er mér það mikil ánægja að geta þess líka úr sama ræðustóli að þessu hefur verið kippt í liðinn og þeir aðilar sem voru beittir þessum órétti eru farnir að fá niðurgreiðslur sínar vegna rafhitunar. Það er ákaflega gott að það skuli sjást fyrir endann á því að þetta sé komið í lag vegna þess að lögunum var sannarlega breytt til að gera það, vegna þess að við megum auðvitað ekki vera svo blinduð af þeim sjálfsagða hlut að ná í heitt vatn úr iðrum jarðar til að hita hús okkar að ætla að skikka alla aðila til að gera það á viðkomandi svæði ef það verður til þess að að það verður margfalt dýrara fyrir viðkomandi aðila vegna fyrri hitunarkerfis hússins eða fjarlægðar frá aðalæð.

Mér finnst líka gott að geta sagt frá því að mér skilst að á þessu umrædda svæði, Búðardal, eftir að Rarik eignaðist hitaveituna þar, hefur t.d. fastagjald eða heimtaugargjald hjá býlum sem liggja langt frá veitu, frá aðalæð, verið lækkað stórkostlega miðað við það sem áður var og það verður þá kannski til þess að hagkvæmara verður fyrir viðkomandi einstaklinga að taka heita vatnið inn og þá er þetta í raun og veru hið besta mál.

Ég vildi aðeins geta þessa í lokin, virðulegi forseti, um leið og ég árétta stuðning minn við málið og okkar fulltrúa þingflokks Samf. sem styðjum málið með þeim fyrirvörum sem ég hef gert hér að umtalsefni.