Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 13:05:33 (9368)

2004-05-28 13:05:33# 130. lþ. 130.31 fundur 690. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (afnám laganna) frv. 63/2004, KLM
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[13:05]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Hvað varðar frv. sem verið er að ræða, þ.e. að leggja niður jöfnun flutningskostnaðar á sementi, þá get ég sagt að eftir umfjöllun í nefndinni var ég mjög efins um að það ætti að samþykkja það og gerði mig kláran til að vera á móti því af skiljanlegum ástæðum. Ég ætla ekki að fara í umræðu um röksemdina sem var fyrir því frá iðnrn., ég hef gert það annars staðar, heldur fara aðeins inn á þá breytingu sem gerði það að verkum við fulltrúar Samf. styðjum það að flutningsjöfnunarsjóður verði lagður niður, svo furðulegt sem það er að sá sem hér stendur skuli stuðla að því. En það er auðvitað gert í trausti þess að áform ríkisstjórnarinnar um að aðrar jöfnunaraðgerðir til lækkunar á flutningskostnaði til og frá landsbyggðinni komi einhvern tíma fram. Það er grundvallaratriði.

En aðalatriðið er að vegna hins sérstaka sjóðs um sementið þá er það svo að margar reglur hans og framkvæmdin hafa í raun og veru komið óorði á flutningsjöfnun, því miður, og skal ég færa fyrir því smárök. Þannig má leiða líkur að því að það sé betra og ódýrara fyrir Aalborg Portland, sem er staðsett í Keflavík, að selja sement til Steypustöðvarinnar á Akranesi en ekki Sementsverksmiðjuna að selja þar innan sama bæjar. Á sama hátt er auðveldara fyrir Sementsverksmiðjuna að selja sement til Keflavíkur þar sem fyrirtækið Aalborg Portland er vegna þeirrar flutningsjöfnunar sem þar er sett. Það er því auðvitað mjög bagalegt að svona vitlausar reglur og vitlaust kerfi sé í gangi og hafi ekki verið leiðrétt fyrir lifandis löngu af hendi iðnrn. Það vil ég gagnrýna. Þess vegna er það svo að við neyðumst til að gera þetta núna.

Aðalatriðið fyrir stuðningi mínum er hins vegar bréf sem iðnn. Alþingis barst frá Sementsverksmiðjunni, dags. 18. maí 2004. Það er ákaflega mikilvægt, virðulegi forseti, að lesið sé örstutt úr því bréfi hér vegna þess að það er ástæðan fyrir því að við fulltrúar Samf. styðjum málið. Með leyfi forseta:

,,Í tengslum við umræðu um áhrif afnáms flutningsjöfnunar á sement á verðlag sements á landsbyggðinni vill stjórn Sementsverksmiðjunnar árétta eftirfarandi:

Gjald það sem lagt hefur verið á sement til jöfnunar á flutningskostnaði til þessa mun standa straum af öllum dreifingarkostnaði verksmiðjunnar á alla helstu sölustaði félagsins á landinu í dag.`` --- Ég vek athygli á þessu. --- ,,Ekki mun því verða um neina hækkun að ræða á sementsverði á Akranesi, Borgarnesi, Ísafirði, Akureyri, Reyðarfirði, Egilsstöðum, Selfossi og í Reykjanesbæ. Á Akureyri verður áfram starfrækt dreifingarstöð fyrir sement og tryggir hún að verð á sementi í nálægum byggðum, svo og Siglufirði,`` --- ég veit ekki af hverju það er sagt, í nálægum byggðum, vegna þess að Siglufjörður er í nálægð við Akureyri --- ,,hækkar ekki vegna þessa.``

Þetta er grundvallaratriði, virðulegi forseti, og mjög mikilvæg yfirlýsing frá Sementsverksmiðjunni sem hér kemur fram og algjör forsenda fyrir stuðningi mínum.

Áfram skal haldið, með leyfi forseta, að lesa úr þessu bréfi:

,,Stjórn verksmiðjunnar telur jafnframt fjölmörg tækifæri til hagræðingar í núverandi dreifikerfi, nokkuð sem núverandi niðurgreiðslukerfi gerir ekkert til að laða fram. Jafnframt áréttum við þá skoðun okkar að núverandi flutningsjöfnunarkerfi skekki samkeppnisstöðu dreifingaraðila af tveimur ástæðum.

Í fyrsta lagi er í núverandi kerfi mismunað hvað varðar niðurgreiðslur á mismunandi flutningsaðferðum, sjór eða land.

Í öðru lagi er það mat okkar að sjóðurinn greiði of mikið fyrir flutning sements sem veldur verulega skekktri samkeppnisstöðu eftir því hversu langt dreifingar- og söluaðili þarf að flytja vöruna til endanlegs kaupanda.``

Síðan er örlítið meira í þessu bréfi sem skiptir kannski ekki eins miklu máli, virðulegi forseti, en þau atriði sem hér eru nefnd í yfirlýsingu Sementsverksmiðjunnar eru grundvallaratriði sem gera það að verkum að verð á sementi, eins og ég tók dæmi um á einum iðnaðarnefndarfundi þar sem sjá mátti allt að 20--25% hækkun á flutningi á sementi út frá Akureyri, mun ekki hækka vegna þessara þátta.

Virðulegi forseti. Það var nauðsynlegt að þetta kæmi fram og skráist inn í þingtíðindi vegna þess að við náðum ekki að setja það inn í nefndarálitið en þetta er algjör forsenda fyrir stuðningi mínum og annarra þingmanna Samf. við málið.

Ég vil svo segja það til að hafa sagt það, virðulegi forseti, að ég vænti þess þegar ég mun eiga viðræður við hæstv. iðnrh. um áframhaldandi umræður um að ganga eftir loforðum um jöfnun á flutningskostnaði á einn eða annan hátt, hvort sem það verður með flutningsjöfnunarsjóði eða á annan hátt sem ég hef mikla skoðun á, að það verði auðvitað ákaflega gaman þegar iðnrh. í röksemdafátækt sinni geti þess að sá hv. þm. sem hér stendur hafi staðið að því og samþykkt að leggja niður flutningsjöfnunarsjóð sements. Ég vil því hafa það inni í þingtíðindum þannig að ef hæstv. ráðherra vill nota það í framtíðinni geti ég vitnað til þessa dags, klukkan tíu mínútur yfir eitt 28. maí, á lokadegi þingsins.