Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 14:38:24 (9390)

2004-05-28 14:38:24# 130. lþ. 130.10 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, ÖJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[14:38]

Ögmundur Jónasson (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við styðjum þetta frv. Við teljum það horfa til framfara fyrir íslenskan landbúnað.

Að tvennu hefur einkum verið fundið að í þessu frv. og reyndar báðum þeim frumvörpum sem hér eru lögð fram í einni spyrðu. Annars vegar að verðlagsaðhald verði ekki sem skyldi fari svo að heimild til að gefa framleiðendaverð frjálst verði nýtt. Hins vegar að upplýsingar séu ekki nægilegar um rekstrarafkomu og hagstærðir í mjólkurframleiðslunni.

Hæstv. landbrh. gaf yfirlýsingu í gær sem ég treysti á að verði framfylgt. Varðandi verðlagsaðhaldið sagði hann að fari svo að fyrrgreind heimild verði nýtt þá verði það gert í fullu samráði við aðila vinnumarkaðar og verðlagsnefnd. Að hinu leytinu gaf hann yfirlýsingu um að sérstakt átak verði gert í að bæta upplýsingaöflun varðandi afkomu og stöðu mjólkurframleiðslu og mjólkurvinnslu. Þetta er í samræmi við tillögur sem áður höfðu komið fram frá fjölskipaðri nefnd um stefnumótun í mjólkurframleiðslu sem aðilar vinnumarkaðar eiga aðild að.