Lyfjalög

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 15:01:36 (9398)

2004-05-28 15:01:36# 130. lþ. 130.20 fundur 880. mál: #A lyfjalög# (lyfjaverð og greiðsluþátttaka almannatrygginga) frv. 83/2004, ÞBack (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[15:01]

Þuríður Backman:

Forseti. Með frv. á að sameina lyfjaverðsnefnd og greiðsluþátttökunefnd. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð telur að sameining nefndanna geti dregið úr faglegu trausti og að hægt verði að draga í efa réttmæti ákvarðana nefndarinnar um lyfjaverð í ljósi hagsmuna ríkissjóðs af ákvörðunum um greiðsluþátttöku almannatrygginga. Með frv. er sett lagastoð undir greiðsluþátttöku almannatrygginga í lyfjum með sambærileg meðferðaráhrif, svokölluð ,,analog lyf``. Þessi heimild hefur fram til þessa verið í reglugerð.

Fyrir utan fagleg sjónarmið má telja líklegt að umsýslukostnaður vegna lyfjakorta verði mikill og dragi úr þeim sparnaði sem sóst er eftir, lyfjaávísanir fari eftir efnahag sjúklinga og auk þess muni aukinn lyfjakostnaður leggjast á sjúklinga. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð greiddi atkvæði á móti því að taka inn í lögin ákvæðin um heimild til að flokka lyf til greiðsluþátttöku sem hafa sambærileg meðferðaráhrif.

Vegna þessara atriða mun Vinstri hreyfingin -- grænt framboð sitja hjá við afgreiðslu málsins.