Raforkulög

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 15:08:03 (9399)

2004-05-28 15:08:03# 130. lþ. 130.27 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv. 89/2004, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[15:08]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Nú hlær þingheimur. Eina ferðina enn á að gera mikilvægt fyrirtæki að hlutafélagi eða veita heimild til slíks. Ég held að okkur verði ekki hlátur í hug þegar fram líða stundir.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum þeirrar skoðunar að grunnþjónusta samfélagsins eigi að vera í eigu og á vegum samfélagsins. Það á að búa um rekstrarformið með þeim hætti að það stuðli að stöðugleika. Reynslan af því þegar samfélags- og stoðþjónustu er breytt í hlutafélög er sú að það er undanfari þess að þær séu markaðs- og einkavæddar.

Þegar slík fyrirtæki eru síðan sett á markað og þau verða háð afkomusveiflum og sveiflum á verðbréfamarkaði er niðurstaðan sú að stöðugleikinn í eignarhaldinu hverfur. Við erum andvíg lagasetningunni.