2004-05-28 16:00:37# 130. lþ. 131.92 fundur 616#B skýrsla um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands og svar við fyrirspurn um hrefnuveiðar# (aths. um störf þingsins), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[16:00]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég á svolítið erfitt með að átta mig á því hvert hv. þingmenn eru að fara með því að taka málið upp á þessum grundvelli, þ.e. á tveimur mjög ólíkum forsendum. Eru þeir að leggja til að engar hrefnuveiðar verði á þessu ári? Vilja hv. þingmenn að þeim vísindaveiðum sem hér eru stundaðar verði hætt?

Báðum hv. þingmönnum, kannski sérstaklega hv. þm. Merði Árnasyni, er mjög annt um virðingu þingsins, að vilji þingsins sé virtur og sérstaklega af framkvæmdarvaldinu. Hvalveiðimálin eru einfaldlega þeirrar tegundar að þar hefur Alþingi haft forustuna um stærstu ákvarðanirnar. Á þinginu 1982/1983 ákvað Alþingi, eftir að þáltill. hafði verið flutt um það að mótmæla hvalveiðibanninu, að mótmæla banninu ekki. Á þinginu 1998/1999, reyndar eftir að sama mál hafði verið flutt á þinginu á undan, ákvað Alþingi síðan að upphefja fyrri ályktun sína og ályktaði að hvalveiðar skyldu hafnar hið fyrsta. Á grundvelli þeirrar ályktunar hefur verið unnið síðan.

Á þinginu 1998/1999 var sem sagt tekin ákvörðun um að hvalveiðar skyldu hafnar. Þá gátum við ekki hafið löglegar hvalveiðar og þurftum að ganga í Alþjóðahvalveiðiráðið til að svo mætti verða. Okkur tókst það og meira að segja með fyrirvara. Upphafning þess að hafa ekki mótmælt stendur því enn. Það er hins vega rétt sem komið hefur fram, herra forseti, að fara þarf varlega í þessum efnum. Það verður gert hér eftir sem hingað til.