2004-05-28 16:04:59# 130. lþ. 131.92 fundur 616#B skýrsla um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands og svar við fyrirspurn um hrefnuveiðar# (aths. um störf þingsins), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[16:04]

Mörður Árnason:

Forseti. Ég vil óska hæstv. sjútvrh. sérstaklega til hamingju með það að hafa liðsstyrk Frjálslynda flokksins í þessu máli. Það er ljóst að hann hefur hann. Annað er ekki alveg ljóst í málinu þótt sá stuðningur sé auðvitað mikilvægur. Það er sem sagt ljóst að hæstv. ráðherra getur vísað til þess að fimm þingmenn, sjútvrh. og Frjálsl., styðji það ákveði hann að hefja hvalveiðar að nýju.

Það sem ég var að vekja athygli hæstv. sjútvrh. á, sem hann þarf ekki að snúa út úr, er að farið hefur verið með þinglegum hætti fram á skýrslu um hluta áhrifanna af málinu á íslenskan málstað og íslenska hagsmuni. Spurningin snýst um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands. Hæstv. sjútvrh. ætti að vera það kunnugt, það gæti a.m.k. hæstv. samgrh. sagt honum ef þeir einhvern tíma hittast á fjölmörgum ferðalögum sínum um heiminn, að í ferðaþjónustunni er sterkur grunur um að áhrif hvalveiða á ímynd Íslands séu mjög neikvæð.

Það sem ég fer fram á við ráðherra er að hann taki ekki ákvörðun um að hefja slíkar veiðar að nýju fyrr en þessi skýrsla eða önnur ámóta liggur fyrir og menn geta rætt hana í samfélaginu. Hann gæti notað hana til að vega það og meta hvort þetta á að gerast eða ekki.

Ég er ekki að lýsa persónulegum skoðunum mínum á þessu máli í umræðum mínum um störf þingsins, enda ekki ætlast til þess. Hins vegar er klárt að ég tel að sjútvrh. eigi ekki að taka ákvörðun um málið fyrr en slík skýrsla liggur fyrir. Ég vil að gefnu tilefni segja að ég tel að sjútvrh. geti við þessa ákvörðun ekki vísað til þess að hann hafi umboð frá Alþingi, annars vegar vegna þess að það er ekki það Alþingi sem nú situr sem samþykkti þá ályktun sem hann er að tala um en hins vegar vegna þess að Alþingi hefur ekki fengið tækifæri til að ræða þá skýrslu sem beðið var um.