Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 16:40:43 (9416)

2004-05-28 16:40:43# 130. lþ. 131.4 fundur 875. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (landanir erlendis, undirmálsfiskur) frv. 65/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[16:40]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hann stóð stutt friðurinn, enda er af nógu að taka, ef taka skal upp gagnrýni á embættisfærslur hæstv. sjútvrh. Ég kaupi ekki þá skýringu að ráðherra geti skotið sér á bak við einhverja reglugerð sem ég hef ekki séð, vegna þess að lögin eru svo skýr. Í 5. gr. laganna segir svo, með leyfi forseta:

,,Öllum afla,`` --- öllum afla --- ,,sem íslensk skip veiða úr stofnum sem að hluta eða öllu leyti halda sig í efnahagslögsögu Íslands, skal landað innan lands og hann veginn í innlendri höfn.`` --- Svo stendur: --- ,,Ráðherra getur með reglugerð heimilað að ísfiski sé landað í erlendum höfnum, enda sé hann seldur á opinberum fiskmörkuðum þar sem vigtunaraðferðir og eftirlit er viðurkennt af Fiskistofu. Þá getur ráðherra heimilað með reglugerð að bræðslufiski sé landað í fiskimjölsverksmiðjur erlendis, enda sé eftirlit með löndun og vigtun afla talið fullnægjandi.``

Hér stendur ekkert um að ráðherra megi heimila löndun á frystum fiski erlendis. Það er einfaldlega bannað með lögum. Það má vel vera og ég tel að það hafi átt að gera það fyrir löngu, fyrir nokkrum árum síðan, að breyta þessum lögum með þeim hætti að útgerðir gætu landað þessum afla erlendis ef þeim hentaði svo. En á meðan lögunum er ekki breytt, þá hlýtur þetta að vera lögbrot. Okkur er tjáð að sjávarútvegsráðuneytið og Fiskistofa fylgist grannt með öllum hér á Íslandi, að fylgst sé mjög náið með afla, aflasamsetningu, afladagbókunum, löndunum o.s.frv. hér á Íslandi og mönnum refsað miskunnarlaust ef þeim verður eitthvað á. Það hlýtur þá að vera mjög alvarlegt mál að þessi lögbrot skuli viðgangast árum saman einmitt með leyfi þessara sömu stofnana. Maður hlýtur að kalla einhvern til ábyrgðar í þessu máli. Ég vil kalla hæstv. sjávarútvegsráðherra.