Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 2003, kl. 20:27:00 (16)

2003-10-02 20:27:00# 130. lþ. 2.1 fundur 37#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 130. lþ.

[20:27]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar.

  • Starfið er margt, en eitt er bræðrabandið,
  • boðorðið, hvar sem þér í fylking standið,
  • hvernig sem stríðið þá og þá er blandið,
  • það er: Að elska, byggja og treysta á landið.
  • Þannig kvað fyrsti ráðherra Íslands, Hannes Hafstein. Hann var einn af eldhugunum miklu sem brýndi aldamóta\-kynslóðina til starfa. Íslendingar voru ein fátækasta þjóð veraldar fyrir eitt hundrað árum. Nú þjóð í fremstu röð sem býður þegnum sínum góð lífskjör, velmegun, menntun og gott öryggisnet fyrir þá sem minna mega sín. Lífbeltin eru tvö, hafið og landið sjálft. Orka fallvatna og hitinn í iðrum jarðar eru okkar olíuauðlindir. ,,Hve mætti bæta lands og lýðs vors kjör/að leggja á bogastreng þinn kraftsins ör, ---`` kvað Einar Benediktsson. Það er dugnaðar- og framkvæmdahugurinn sem sett hefur Ísland og Íslendinga í fremstu röð. Stjórnmálamennirnir hafa gefið vilja einstaklingsins frelsi. Við höfum ekki fest í ofstjórn margra þjóða sem deyða dugnað, drepa framtak og þurfa í dag hjálp vestrænna þjóða.

    Á Alþingi er nú að taka völd ný kynslóð þingmanna, kynslóð nýrrar aldar. Allt það fólk vill vel og mun eflaust setja mark sitt á Alþingi næstu áratugi. Megi þessum nýju þingmönnum vegna vel. Minnist þess að þið eruð hingað kvödd til þjónustu við fólkið í landinu. Standið vörð um frelsi landsins og þau góðu lífskjör sem hér hafa þróast. Óvægin umræða og persónulegar árásir skaða stjórnmálamennina sjálfa og vekja upp hatur og fjarlægir okkur frá fólkinu sem í landinu býr og rýrir í leiðinni traust manna á Alþingi.

    [20:30]

    Í ágætri ræðu hér áðan lét formaður Samfylkingarinnar að því liggja að enn væri hart deilt á Kárahnjúkasvæðinu. Þannig er staðan þar nú að tekist hefur samkomulag milli erlendu verktakanna og ASÍ. Árni Magnússon félmrh. hefur margsagt að eftir íslenskum lögum verði farið. Því hefur og verður fylgt eftir.

    Ágætu Íslendingar. Gefum þjóðinni og unga fólkinu bjartsýni og trú. Höldum vörð um frelsið og kristið siðgæði. Heimsendaumræðan er til þess fallin að fólkið okkar fer að trúa því að hér sé allt á hverfandi hveli og þá flytur það úr landi. Fyrir þúsund árum trúlofaðist Alþingi Íslendinga kristinni kirkju á Þingvöllum. Það var gæfuspor. Löggjafarþingið og þjóðkirkjan hafa síðan haldist í hendur. Þetta samstarf er partur af okkar þjóðskipulagi og menningu. Ég og minn flokkur, Framsóknarflokkurinn, viljum ekki höggva á þau bönd. Samstarf ríkis og kirkju hefur í þúsund ár mótað öfluga þjóð og sterkan þjóðarvilja. Siðfræðigildi kristinnar trúar á meira erindi til okkar en oft áður. Löggjafarþingið og þjóðkirkjan eiga að halda utan um sitt samstarf áfram.

    Kosningarnar í vor voru varnarsigur þeirra sem vildu áfram. Ríkisstjórnin hafði þó á átta árum lagt grunn að öflugra Íslandi. Lífskjör bötnuðu um 30%, lægstu laun og tryggingabætur til þeirra sem verst eru settir hækkuðu um 50%, atvinna mikil í landinu og þúsundir Íslendinga fluttu aftur heim. Þessi ríkisstjórn er ekki biðríkisstjórn. Hún hefur teflt sóknarskák.

    Mörg stærstu málin sem hagvöxtinn skapa og bætt lífskjör hafa kostað stjórnarflokkana svita og baráttu. Ríkisstjórnin hefur mætt ótrúlegri andstöðu af hálfu Samfylkingar og Vinstri grænna í mörgum brýnum framkvæmdamálum síðustu ára. Landið er enn að rísa og lífskjör halda áfram að batna, hagvöxtur fer hæst í 5--6%, skattar launafólksins verða lækkaðir um 20 milljarða og barnafjölskyldur eiga fyrirheit um þrjá milljarða til tiltekinna verkefna til viðbótar. Þjóðin kaus áframhaldandi hagvöxt og stöðugleika. Traust ríkir á milli ríkisstjórnarflokkanna og ég efast ekki um að það mun haldast út kjörtímabilið.

    Samstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks síðustu átta árin hefur skilað ótrúlegum árangri sem vakið hefur verðskuldaða athygli í hinum vestræna heimi: lág verðbólga, lítið atvinnuleysi, stöðugur hagvöxtur og lækkun skulda ríkissjóðs. Áframhaldandi samstarf okkar framsóknarmanna við Sjálfstæðisflokkinn var ekki sjálfgefið. En með tilliti til stefnu stjórnarandstöðuflokkanna og hvernig kosningabaráttunni var háttað af þeirra hálfu, varð okkar samstarf niðurstaða.

    Hæstv. forseti. Ísland hefur tekið vaxandi þátt í alþjóðlegu samstarfi. Við fögnum framboði í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna 2009--2010 sem sýnir vaxandi sjálfstraust okkar í samfélagi þjóðanna. Á Balkanskaga hefur Ísland tekið þátt í uppbyggingarstarfi eftir stríðið. Öryggismál og varnir gegn hryðjuverkum hafa verið fyrirferðarmikill málaflokkur í vestrænum samfélögum á síðustu árum. Mikilvægt er að Íslendingar hugi vel að öryggi borgaranna á viðsjárverðum tímum. Grundvöllur okkar í varnar- og öryggismálum er varnarsamningurinn við Bandaríkin, aðild að NATO og ekki síst aðild að Sameinuðu þjóðunum.

    Ríkisstjórnin hefur sýnt festu og ákveðni í samskiptum við Bandaríkin varðandi breytingar á tvíhliða varnarsamningi þjóðanna. Mikilvægt er að ekki verði dregið úr varnarmætti á Keflavíkurflugvelli.

    Sjávarútvegurinn hefur á síðustu árum stóraukið framlegð. Byggð hafa verið upp öflug fyrirtæki sem hafa verið þess megnug að greiða góð laun. Þetta er árangur festu og stöðugleika í stjórn fiskveiða. Markaðsaðstæður hafa verið hagstæðar og afkastageta fiskstofna hefur í heildina litið verið góð. Margt bendir til að markaðsaðstæður sjávarafurða verði óhagstæðari á næstu árum. Því er mikilvægt að ríki stöðugleiki í atvinnugreininni og í fiskveiðistjórnarþættinum svo greininni auðnist að keppa við vaxandi fiskiðnað frá ríkjum í Asíu sem búa við lágan kostnað, ekki síst launakostnað, sem í mörgum tilfellum er innan við 10% af þeim launum sem hér eru greidd.

    Staða landbúnaðarins á Íslandi hefur batnað í tíð núverandi ríkisstjórnar. Kjör kúabænda hafa batnað verulega og nú eru kúabændur ekki flokkaðir sem láglaunastétt. Þetta er góður árangur sem ber að verja með nýjum samningi.

    Verulegur vöxtur hefur verið í kornrækt og skógrækt er að festa sig í sessi sem ný atvinnugrein. Mikill vöxtur er í fiskeldi, bæði í lax og bleikju, sem skapar aukna atvinnu- og vaxandi útflutningstekjur.

    Því er ekki að neita að kjör sauðfjárbænda hafa versnað og eru með öllu óviðunandi. Erfiðleikar í sauðfjárframleiðslunni stafa fyrst og fremst af óeðlilegri samkeppnisstöðu á kjötmarkaði. Vonir standa til að jafnvægi komist á kjötmarkaðinn fyrir lok næsta árs. Óhjákvæmilegt er að ríkisvaldið bregðist við þessum tímabundna vanda sauðfjárbænda. Á næstu vikum á ég von á tillögum stjórnskipaðrar nefndar um hvernig við verði brugðist og í framhaldi af því mun ríkisstjórnin taka málið til umfjöllunar.

    Árangur í landbúnaði á Íslandi á síðustu tveimur áratugum hefur verið ótrúlegur. Útgjöld vísitölufjölskyldunnar til matarkaupa sem hlutfall heildarútgjalda hefur lækkað á því tímabili úr 25% í 15%, eða um 40%. Á sama tíma hafa útgjöld ríkissjóðs til landbúnaðarins sem hlutfall heildarútgjalda ríkissjóðs lækkað úr 12% í rúm 4%. Eða með öðrum orðum, útgjöldin eru aðeins hlutfall 1/3 þess sem var fyrir tveimur áratugum. Landbúnaðarvörur hafa hækkað minnst allra vara á Íslandi á síðustu árum. Íslendingar eru stoltir af sínum landbúnaði. Hann er í fremstu röð hvað gæðin varðar.

    Það ríkir mikill kraftur í íslensku viðskiptalífi. Bankar og fjármálafyrirtæki eru í útrás með starfsemi á erlendri grundu. Þetta er jákvætt. Hins vegar þarf að skoða það hvort bankar eigi samtímis að vera viðskiptabankar og fjárfestingabankar. Yfir það tel ég að þurfi að fara. Kannski er það sem nú gerist fyrst og fremst vaxtarverkir í þróttmiklum fyrirtækjum sem sjá útrás í dag.

    Ágætu Íslendingar. 100 ára afmæli fyrsta ráðherrans og heimastjórnar er 1. febrúar á næsta ári. Það eru merk tímamót. Samfelld sigurganga íslenskrar þjóðar á síðustu 100 árum er okkur mikilvæg. Þá leið eigum við að varða áfram, þá leið eigum við að fara og sú er stefna míns flokks, Framsóknarflokksins. --- Þakka þeim sem hlýddu.