Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 2003, kl. 20:59:54 (19)

2003-10-02 20:59:54# 130. lþ. 2.1 fundur 37#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 130. lþ.

[20:59]

Sigurjón Þórðarson:

Góðir landsmenn. Frjálslyndi flokkurinn styður eins og áður góð mál stjórnarandstöðu og stjórnar. Vissulega finnast ljósir punktar í stefnuræðu Davíðs Oddssonar. Dómsmálaráðherra ætlar t.d. að bretta upp ermar og efla Landhelgisgæsluna en hún hefur verið í skammarlegu fjársvelti í stjórnartíð Davíðs Oddssonar. Frjálslyndi flokkurinn mun heils hugar styðja eflingu Landhelgisgæslunnar enda er skipakostur hennar mun lakari en t.d. skipakostur Færeyinga, þrátt fyrir að lögsaga Færeyinga sé fjórum sinnum minni en lögsaga okkar Íslendinga. Ekki virðist samt sem áður að hugur fylgi máli um eflingu Gæslunnar sé litið til þess að ekki er að sjá nokkra hækkun á fjárframlögum til hennar í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir þinginu. Vonandi verður meira að marka forsætisráðherra í þessu máli en þegar hann lofaði línuívilnun.

Dómsmálaráðherra virðist stundum hafa metnað fyrir hönd löggæslunnar. En hann má ekki gleyma því að allir eiga að vera jafnir fyrir lögunum. Ráðherrann virðist mjög ánægður með störf ríkislögreglustjóra sem dregið hefur lappirnar í rannsókn á samráði olíufélaganna, samráði sem hafði það að markmiði að hlunnfara almenning. Ríkislögreglustjóri neitaði um skeið að taka við skýrslu Samkeppnisstofnunar og setti 25 millj. kr. fyrirframgreiðslu nánast sem skilyrði fyrir rannsókn á málinu.

Berum þessa framgöngu ríkislögreglustjóra saman við rannsóknina á Bónusfeðgum sem virðast í einhverri ónáð hjá forsætisráðherra. Minna má á ummæli hans á bolludaginn um vínber og mútuþægni. Ekki stóð á ríkislögreglustjóra í það skiptið. Hann sendi vaska sveit lögreglumanna til útlanda að rannsaka Bónusmálið sem frægt er. Ég hef aldrei heyrt minnst á að ríkislögreglustjóri hafi heimtað að fá fyrirframgreiðslu vegna rannsóknar á Bónusmálinu. Er nema von að farið sé að tala um að ríkislögreglustjóri sé í raun orðinn lögreglustjóri ríkisstjórnarinnar.

Ekki er minnst á byggðamál í stefnuræðu forsætisráðherra. Til að gæta allrar sanngirni þá minnist hann þó einu sinni á landsbyggðina. Það var þegar forsætisráðherra sagði að með byggingu menningarhúsa yrði lagður grunnur að öflugra og blómlegra menningarlífi á landsbyggðinni. Eru það menningarhús sem landsbyggðin þarfnast til að menningarlíf verði öflugra og blómlegra? Ég tel að þessi hús eigi ekki eftir að breyta einu né neinu um framtíð landsbyggðarinnar. Hverju er Bíldudalur, Seyðisfjörður eða Hvammstangi bættari með byggingu menningarhúsa? Menningarlíf á landsbyggðinni verður einungis blómlegra með öflugra atvinnulífi. Með viðreisn atvinnulífsins og tækifærum fyrir ungt fólk á landsbyggðinni verður menningarlíf þar blómlegt.

Við í Frjálslynda flokknum munum á komandi þingi beita okkur fyrir raunverulegum byggðaaðgerðum, svo sem að aflétt verði okri á rafmagni til fyrirtækja á landsbyggðinni en þau greiða 30% hærra verð fyrir orkuna. Við munum einnig beita okkur fyrir lækkun á flutningskostnaði, jöfnun námskostnaðar og síðast en ekki síst að auka atvinnufrelsi í höfuðatvinnuvegum landsbyggðarinnar, landbúnaði og fiskveiðum.

Miðað við vanda sauðfjárbænda og þá skerðingu sem varð á kjörum þeirra í haust, þrátt fyrir mikla kokhreysti Guðna Ágústssonar fyrr í kvöld, ætti landbúnaðarráðherra að sjá að hann hefur gert meira ógagn en gagn. Landbúnaðarráðherra neitar að bera nokkra ábyrgð á stöðu sauðfjárbænda og kennir um með óljósum hætti lélegri markaðssetningu á kjötinu.

Í nýjasta Bændablaðinu kemur meira að segja fram að hann hafi gert sínar eigin kannanir á markaðssetningu kindakjöts. Það gerði hann með því að spyrja kokka í skólaeldhúsum um matseld á kjötinu og hvort krakkarnir leifðu kjötinu. Það má öllum vera ljóst sem kynna sér landbúnaðarmál að landbúnaðarráðherra hefur lagt stein í götu minni sláturhúsa og þeirra sem hafa einbeitt sér að innanlandsmarkaði. Landbúnaðarráðherra jók útflutningsskylduna sem er í raun ekki annað en aðför að þeim sláturhúsum sem einblína á innanlandsmarkað. Útflutningsskyldan hefur hækkað verðið á kindakjöti innan lands þar sem kostnaðarverð í útflutningshúsunum við slátrun er hærri en eðlilegt getur talist. Úr landi eru gjarnan seldir minnstu og auðseljanlegustu skrokkarnir. Eftir stendur íslenskur markaður með hærra verð og illseljanlegra kjöt.

Við höfnum þessari stórsláturhúsastefnu ríkisstjórnarinnar og teljum hana ekki leiða til góðs, hvorki fyrir neytendur né bændur. Heyrst hefur að umrædd stefna sé framtíðin vegna reglugerða Evrópusambandsins. Það er af og frá. Reglur Evrópusambandsins um matvælaöryggi gera þvert á móti ráð fyrir minni sláturhúsum og jafnvel heimaslátrun.

Frjálslyndi flokkurinn mun kynna sér þessar reglur nánar og móta tillögur að reglum sem mundu lækka verð til neytenda. Ég er á þingi til að þjóna kjósendum. Ég hvet ykkur til að leita til mín og annarra þingmanna Frjálslynda flokksins um það sem þið teljið að við getum veitt ykkur liðsinni með. Við erum hér til að gæta hagsmuna almennings. Það er okkar hagsmunagæsla. --- Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir.