Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 2003, kl. 21:50:31 (27)

2003-10-02 21:50:31# 130. lþ. 2.1 fundur 37#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 130. lþ.

[21:50]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Það var einu sinni töframaður sem tíndi úr hatti sínum bæði dúfur og hvítar kanínur. Áhorfendurnir voru börn. Þegar töfraatriðinu lauk kallaði töframaðurinn sigri hrósandi út yfir barnahópinn: Á ég að segja ykkur hvernig ég fór að þessu? Börnin sátu sem bergnumin, svöruðu engu fyrst í stað en svo rétti lítil stúlka upp höndina og sagði: Mig langaði frekar að vita af hverju þú varst að þessu.

Ég hef oft hugsað til þessa þegar ég fylgist með umræðum um heilbrigðismálin, um útleggingar manna um rekstrarform og samkeppni um markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar og þann mikla peningalega sparnað sem slíkum breytingum yrði samfara. Það á að skera upp en ekki niður, segir einn. Menn eiga ekki að óttast markaðsvæðinguna, segir annar, og sá þriðji bætir við að menn skuli ekki vera feimnir við breytingar þó að þær gangi hugsanlega gegn ríkri jafnaðarhefð í heilbrigðisþjónustu okkar Íslendinga. Þegar við heyrum þessa röksemd eigum við að staldra við og segja við töframanninn: Mig langar til að vita af hverju þú heldur þessu fram.

Galdurinn liggur í að reyna að átta sig á bæði hugsjónum og hagsmunum í umræðum um heilbrigðismálin. Í fjárlagafrv. birtast áherslur ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum. Þar sést að málaflokkurinn er efst á forgangslista hennar. Það er vilji ríkisstjórnarinnar að allir landsmenn hafi greiðan og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu, óháð aldri, búsetu og efnahag. Framlögin til málaflokksins eru aukin og þannig vill ríkisstjórnin standa vörð um þá stefnu og þær áherslur sem lagðar hafa verið.

Virðulegur forseti. Hæstv. forsrh. drap á þann vilja ríkisstjórnarinnar að kanna hvort flytja eigi heilsugæsluna, smærri spítala og þjónustu við aldraða til sveitarfélaganna. Við erum hér að tala um dæmigerða nærþjónustu. Við erum að tala um að gera mikilvæga þjónustu við íbúana gegnsæja. Við erum að tala um að flytja ábyrgðina og eftirlitið með þjónustunni nær þeim sem nota hana. Þetta er grunnhugsunin í þessari kerfisbreytingu og ég vonast til að sveitarstjórnarmennirnir séu tilbúnir að kanna þetta með okkur.

Breytingin þýddi vitaskuld að endurskilgreina þyrfti marga veigamestu þætti heilbrigðisþjónustunnar. Ég nefni hlutverk, skyldur og verksvið Landspítalans og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri sem dæmi. Eðlilegt er að slík stefnumótun fari fram samfara hugsanlegri uppstokkun í heilbrigðisþjónustunni sem hér er hreyft. Endurskilgreining er raunar nauðsynleg, nú þegar sér fyrir endann á þeirri sameiningu sérgreina sem orðin er undir hatti Landspítalans. Landspítalinn geldur þess stundum og verður fyrir gagnrýni af því að hann er endastöðin í heilbrigðisþjónustunni, spítalinn sem tekur við því sem aðrir gera ekki, spítalinn sem ávallt tekur við því sem vísað er á hann, spítalinn sem við gerum kröfu til að sinni bæði kennslu og rannsóknum. Menn verða að meta þann góða faglega árangur sem við erum að ná í heilbrigðisþjónustu almennt með Landspítalann í broddi fylkingar. Biðlistar hafa styst, biðlistar eftir bæklunaraðgerðum eru styttri en þeir voru og skurðaðgerðum hefur fjölgað.

Með því að halda á lofti faglegum ávinningi af sameiningu sérgreina er ég ekki að drepa umræðum um fjárhagsvanda á dreif, fjarri því. Við verðum alltaf að hugsa um hvernig við verjum því fé sem við höfum til ráðstöfunar og hvernig við höldum okkur innan fjárheimilda. Þess vegna verðum við að spyrja okkur a.m.k. tveggja spurninga þegar við ræðum fjárhagsvandann. Í fyrsta lagi: Voru það mistök af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að hætta að miðstýra kjarasamningum við opinbera starfsmenn á sínum tíma? Í öðru lagi: Er mögulegt, og þá hvernig, að auka samkeppni og lækka lyfjaverð til spítalans? Þetta eru þeir tveir þættir sem erfiðlegast gengur að ná stjórn á í heilbrigðisþjónustunni.

Virðulegi forseti. Áherslur ríkisstjórnarinnar í heilbrigðis- og tryggingamálum sjást best á því að framlögin til heilbrigðismála aukast um rúmlega 9% í heild. Og hvað erum við að tala um? Við erum að tala um einn milljarð sem renni til öryrkja og einn milljarð til viðbótar í öldrunarþjónustunni, við erum að auka framlögin til stóru spítalanna um tæpar 900 millj. kr., 440 millj. kr. aukning fer í heilsugæsluna og heilbrigðisstofnanir. 64 millj. kr. renna til nýs hvíldarheimilis fyrir langveik börn. Það er rétt að taka fram að 230 milljóna viðbótarframlag á að renna til geðheilbrigðismálanna sérstaklega á næsta ári.

Hér eru aðeins nokkur dæmi tilfærð um aukin framlög til velferðarmálanna. Þau byggjast á því að ríkisstjórnin hefur skapað vaxtarskilyrði í efnahagslífinu. Í kosningabaráttunni lögðum við framsóknarmenn áherslu á vöxt, vinnu og velferð. Við sögðum: Við þurfum að búa til efnahagslegar forsendur fyrir því velferðarkerfi sem við viljum reka. Fjárlagafrumvarpið, framlögin til velferðarmála og stefnuræða forsætisráðherra í kvöld staðfestir að okkur er að takast ætlunarverk okkar. --- Góðar stundir.