Matvælaverð á Íslandi og í nágrannalöndunum

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 15:09:58 (149)

2003-10-06 15:09:58# 130. lþ. 4.1 fundur 46#B matvælaverð á Íslandi og í nágrannalöndunum# (óundirbúin fsp.), RG
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[15:09]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það mál sem ég ætla að ræða við hæstv. forsrh. er auðveldlega hægt að tengja við Evrópusambandsaðild en vissulega er það mál sem við getum haft og eigum að hafa vald á heima hjá okkur. Fyrir síðustu jól samþykkti Alþingi að láta gera úttekt á hvað veldur mismunandi matarverði á Norðurlöndum og hvers vegna matarverð á Íslandi er svo miklu hærra en í nágrannalöndunum.

Í fréttatíma í sumar kom fram að Hagfræðistofnun Háskólans hefði fengið þetta verkefni og mundi skila skýrslu í desember sem bendir ekki beinlínis til að þetta brýna mál hafi verið sett í mikinn forgang. Mánuður til eða frá skiptir samt ekki öllu máli í svona úttekt ef niðurstöður leiða í ljós hvernig hægt verður að ná matarverðinu niður og stjórnvöld setja sér slíkt markmið. Það er stóra málið. Munu stjórnvöld ráðast að hinu háa matarverði á Íslandi?

Ísland og Noregur eru dýru löndin í matarverðssamanburði og ef við ætlum að ná matarverði niður í það sem gerist á hinum þremur Norðurlöndunum verðum við að vita hvaða þættir það eru í samsetningu matarverðsins sem eru svona miklu óhagstæðari hjá okkur en þeim. Þetta gildir bæði um innflutning og innlenda framleiðslu. Ekki síst þarf að koma fram á hvaða sviðum ríkisvaldið er orsakavaldur með ýmiss konar skattheimtu og gjaldtöku. Ég spyr hæstv. forsrh. hvort úttektinni verði lokið á þessu ári, hvort öðrum stofnunum eða aðilum en Hagfræðistofnun hafi verið falið að gera úttekt á tilteknum þáttum og þá hverjum.