Sjókvíaeldi

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 15:36:55 (169)

2003-10-06 15:36:55# 130. lþ. 4.1 fundur 49#B sjókvíaeldi# (óundirbúin fsp.), KolH
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[15:36]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Eldislaxinn fer nákvæmlega þangað sem honum dettur í hug. Hann veit ekki að ráðherra hefur sett reglugerð um að einhverjir firðir eigi að vera honum lokaðir. Það er bara þannig. Og ég verð að segja við hæstv. landbrh.: Það er eitt ráð til að sleppa við að norskur eldislax sleppi úr kvíum hér við land og eyðileggi klak náttúrulegra laxastofna í ánum okkar, það er að setja laxeldið upp á land. Það er öruggt ráð. Hefur hæstv. ráðherra ekki hugleitt það? Sannleikurinn er þessi og hann hefur verið leiddur í ljós víða og sannleikurinn er líka sá að okkur hefur skort upplýsingar frá eldismönnum hér á Íslandi. Við höfum ekki fengið að vita hversu mikið er sett út af seiðum. Við fáum ekki að vita hversu mikið af þeim skilar sér til baka. Við fáum ekki einu sinni að vita hversu mikið af þeim er merkt, þannig að ég gagnrýni það og mótmæli því sem hæstv. ráðherra segir að reglurnar hér séu mjög strangar og að þeim sé framfylgt. Þær eiga að vera strangari þegar slys af því tagi sem átti sér stað í Norðfirði verða og í sannleika sagt er vitað mál að slysin verða fleiri.