Gjaldfrjáls leikskóli

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 18:15:11 (204)

2003-10-06 18:15:11# 130. lþ. 4.5 fundur 4. mál: #A gjaldfrjáls leikskóli# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[18:15]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga um gjaldsfrjálsan leikskóla. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson. Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að skipa nefnd sem fái það verkefni að undirbúa og annast viðræður við sveitarfélögin um sameiginlegt átak þeirra og ríkisins um að gera leikskóladvöl gjaldfrjálsa í áföngum. Nefndin skal skipuð fulltrúum allra þingflokka og fulltrúa frá fjármálaráðuneyti, menntamálaráðuneyti og Félagi leikskólakennara auk formanns sem félagsmálaráðherra skipar án tilnefningar.``

Félmrh. er falið forræði málsins þar sem leikskólarekstur er á vegum sveitarfélaga og eðlilegt að líta svo til að hið faglega forræði falli þar af leiðandi félmrn. í skaut.

Einnig er rétt að undirstrika, herra forseti, að hér er um að ræða að skipa nefnd til að undirbúa og annast viðræður af hálfu Alþingis, af hálfu löggjafans og framkvæmdarvaldsins í viðræðum við sveitarfélögin um þetta átaksverkefni. Þar af leiðandi eiga sveitarfélögin ekki aðild að nefndinni þar sem þau koma að málinu frá hinni hliðinni, eru viðsemjandi eða gagnaðili á móti fulltrúum löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins og þá eftir atvikum hinum faglega þætti sem Félag leikskólakennara mundi standa fyrir.

Kannski má skipta röksemdunum fyrir tillögunni í grófum dráttum í þrennt, herra forseti. Þær fyrstu eru þá þær sem snúa að uppeldis- og menntastefnu, átakinu sem lið í aðgerðum af því tagi. Í öðru lagi því sem lýtur að kjarabótum til handa þeim fjölskyldum sem hér eiga hlut að máli, þ.e. ungum barnafjölskyldum í landinu, og í þriðja lagi eru þá rök sem snúa að jafnaðar- og jafnréttissjónarmiðum og þessari tillögu sem lið í því að gera samfélagið fjölskylduvænna og búa betur að þeim sem hlut eiga að máli í þessu tilviki.

Í fyrsta lagi þau rök sem snúa að málinu sem uppeldis- og menntamáli. Það er nokkuð um liðið síðan viðurkennt var að leikskólinn væri fyrsta skólastigið, væri þar með í rauninni hluti af menntakerfinu í landinu og menn tóku upp starfsheitið leikskólakennari o.s.frv. í stað fóstra eða annarra slíkra heita sem fyrir voru. Má segja, herra forseti, að þegar af þeirri ástæðu sé mjög veigamikil röksemd komin fram fyrir því að hverfa frá þeirri gjaldtöku sem einkennt hefur leikskólavistun og gerir enn þann dag í dag, þ.e. hér er um að ræða skólakerfið sjálft, hið opinbera almenna skólakerfi, fyrsta skólastigið. Það hlýtur því að teljast ankannalegt að foreldrar barna greiði dýrum dómum fyrir dvöl þeirra á fyrsta skólastiginu en hætti því síðan skyndilega þegar kemur upp á annað skólastigið, þ.e. í grunnskóla sem því miður gildir ekki að öllu leyti, herra forseti, því að margs konar gjaldtaka hefur haldið þar innreið sína einnig.

Það er mat Félags leikskólakennara að leikskólinn eigi að vera hluti af menntakerfi samfélagsþjónustunnar eins og önnur skólastig og jafnframt er það faglegt mat að til þess að sinna með viðunandi hætti, fullnægja og framfylgja ákvæðum aðalnámskrár leikskóla þurfi um sex tíma leikskólagöngu á dag. Með öðrum orðum, menn hafa sett leikskólanum mjög metnaðarfulla námskrá þar sem verið er að undirbúa börnin undir frekara nám og þroska þau hvað varðar hreyfingu, málrækt, myndsköpun, tónlist, náttúru og umhverfi, menningu, samfélag og síðast en ekki síst almenna lífsleikniþjálfun, en hins vegar er foreldrunum þá ætlað að greiða fyrir þessa dvöl sem aftur getur leitt til þess að sum börn verða þessa aðnjótandi en önnur ekki. Það eru því, herra forseti, mjög veigamikil rök sem lúta að því að gera þessar breytingar ef málið er nálgast frá sjónarhóli uppeldis- og menntamála.

Í öðru lagi það sem snýr að kjörum þeirra fjölskyldna sem hér eiga hlut að máli. Ekki þarf að fjölyrða um hversu gríðarleg kjarabót það yrði fyrir ungbarnafjölskyldurnar í landinu ef breytingar yrðu gerðar af þessu tagi. Sú kjarabót skilar sér beint til þeirra fjölskyldna sem ég hygg að flestir séu sammála um að þurfi á betri aðbúnaði að halda í nútímanum, þ.e. til yngstu foreldranna sem jafnframt eru á sömu árum og þeir eru með börn sín í leikskóla að koma sér fyrir í lífinu, eru að leysa húsnæðismál sín og koma undir sig fótunum, hefja búskap, oft með umtalsverðar greiðslubyrðar af námslánum á bakinu. Mánaðarleg leikskólagjöld eru núna víðast um 30 þúsund á mánuði fyrir fulla dvöl, þ.e. níu stunda dvöl og síðan eru veittir víðast hvar nokkrir afslættir þegar systkini númer tvö eða þrjú eiga í hlut. Til skýringa er birt sem fylgiskjal með tillögunni gjaldskrá Leikskóla Reykjavíkur en rétt er að menn hafi í huga þegar þeir skoða þá gjaldskrá að þarna er talsverður munur á milli sveitarfélaga allt frá því að tekið er verulegt tillit til félagslegra aðstæðna foreldra eins og er í tilviki Leikskóla Reykjavíkur þar sem um er að ræða mikla systkinaafslætti þar sem námsmenn og öryrkjar og aðrir slíkir sem og ekki síst einstæðir foreldrar njóta talsverðs afsláttar. Í öðrum sveitarfélögum er þetta minna og þess eru jafnvel dæmi að enginn greinarmunur sé gerður á félagslegri stöðu foreldra, þ.e. allir borgi sömu gjöld.

Ef við tökum áfram dæmið af foreldrum í Reykjavík sem eru flestir innan eins sveitarfélags, þá er níu tíma vistun hjá ef við segjum venjulegri kjarnafjölskyldu samkvæmt gjaldflokki I 29.900 kr. á mánuði, rétt tæpar 30 þús. kr. Systkinaafsláttur fyrir annað systkini eru 33% samkvæmt gjaldskrá Leikskóla Reykjavíkur sem þýðir þá að um 20 þúsund bætast við fyrir barn númer tvö og síðan er 75% systkinaafsláttur með þriðja barni þannig að fjölskyldur með þrjú börn í leikskóla borga þá rétt tæp 60 þús. kr. á mánuði í leikskólagjöld. Til að standa undir þeim útgjöldum þarf tekjur upp á um 100 þús. kr. ef við gefum okkur að slík tekjuöflun fari öll fram ofan skattleysismarka. Það er augljóst mál að þar er orðið um að ræða upphæðir sem hafa gríðarleg áhrif á afkomu slíkra fjölskyldna.

Í þriðja lagi, herra forseti, er alveg ljóst að það er mikilvægt jafnaðar- og jafnréttismál í nútímasamfélagi að allir eigi kost á leikskóladvöl fyrir börn sín án tillits til efnahags. Enginn vafi er á því, og á það leggjum við flutningsmenn áherslu, að breytingar í þá átt sem tillagan gengur út á væri stór liður í því að gera samfélagið fjölskylduvænna en það er í dag og styrkja þar með undirstöður velferðar í landinu. Við vekjum sérstaka athygli á stöðu fjölskyldna nýrra Íslendinga í þessu sambandi. Það eru vísbendingar við að styðjast um að í þeim tilvikum nýti menn sér miklu síður úrræði leikskóladvalar heldur en önnur og það er ástæða til að hafa af því sérstakar áhyggjur ef börn fjölskyldna sem eru nýlega fluttar til landsins njóta ekki þessarar þjónustu og verða þá af þeim tækifærum að kynnast öðrum börnum, blanda geði við þau og njóta þeirrar menntunar sem leikskóladvölin hefur upp á að bjóða.

Ljóst er, herra forseti, að sú nefnd sem tillagan gerir ráð fyrir að verði skipuð þarf að huga að ýmsu, þar á meðal og ekki síst því hvernig réttindi foreldra til leikskóladvalar barna sinna án þess að greiða gjöld fyrir yrðu látin haldast í hendur við og þurfa að haldast í hendur við skyldur sveitarfélaganna á hina hliðina til að fullnægja eftirspurn. Auðvitað er ljóst að um leið og menn feta sig inn á þessa braut þarf að breyta þeirri hugsun sem að baki liggur, að í rauninni sé um að ræða réttindi annars vegar foreldranna til að eiga kost á gjaldfrjálsri leikskóladvöl og hins vegar skyldur sveitarfélaga til að fullnægja eftirspurn. Slíkt mun a.m.k. í tilviki þeirra sveitarfélaga þar sem um biðlista er að ræða taka nokkurn tíma. Þess vegna verður m.a. að hyggja að því hvaða áfangaskipting er nauðsynleg til þess að hrinda málinu í framkvæmd og hvaða aðlögun þurfa þau sveitarfélög að fá sem þurfa að fara í umtalsverðar aðgerðir til þess að vera í færum til að fullnægja eftirspurn. Enda er það að mörgu leyti, herra forseti, farsælt og skynsamlegt að innleiða þessa breytingu í þrepum eða áföngum. Þar koma kannski tvær leiðir aðallega til greina. Annars vegar að taka hvert ár fyrir sig og væntanlega byrja þá ofan frá þannig að síðasta árið í leikskóla yrði gjaldfrjálst fyrst og síðan koll af kolli eða hins vegar að fara blandaða leið sem gæti t.d. falið í sér að rétturinn kæmi í gegnum nokkurra klukkustunda gjaldfrjálsa dvöl sem síðan lengdist þangað til um fulla vistun yrði að ræða. Það er sú leið sem Svíar eru að fara, en fyrsta áfangann í því að efna loforð um að gera leikskólann gjaldfrjálsan, sem var sérstakt baráttumál í kosningum þar í landi, er verið að taka núna með því, hygg ég, að þriggja tíma gjaldfrjáls dvöl tveggja elstu árganganna er að koma til framkvæmda.

Tekjuáhrifin eða afkoma sveitarfélaganna, herra forseti, tekjur og kostnaður í þessu sambandi, fyrir því er gerð allítarleg grein í greinargerð tillögunnar þannig að ég vísa til þess. Í grófum dráttum er kostnaður sveitarfélaganna vegna dagvistarmála um 8,5 milljarðar kr. á árinu. Hér er stuðst við tölur frá árinu 2001. Upp í þann kostnað koma leikskólagjöld sem tekin eru upp á um 2,4 milljarða eða tæp 30%. En það er algengt að sveitarfélögin miði við um það bil það hlutfall kostnaðar, þ.e. stemmi leikskólagjöldin af þannig að foreldrarnir greiði kannski um 30% af áætluðum kostnaði.

Það er alveg ljóst að sveitarfélögin eru ekki aflögufær um fjármuni af þessu tagi, þ.e. að verða af 2,4 milljarða leikskólagjöldum ef ekkert annað kæmi á móti. Þess vegna leggjum við að sjálfsögðu til að hluti af nefndarstarfinu verði að skoða hinar kostnaðarlegu forsendur málsins og ganga til samninga við sveitarfélögin um hvernig þau mál verði leyst og þá fyrst og fremst með því að tekjustofnar komi á móti eða útgjöldum verði létt af sveitarfélögunum sem nemur niðurfellingu leikskólagjalda. Við bendum sérstaklega á í greinargerð með tillögunni að liður í slíkri endurskoðun á tekjulegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga gæti verið að ríkið yfirtæki greiðslur húsaleigubóta og létti þar með kostnaði upp á kannski 850--900 millj. kr. af sveitarfélögunum eins og sá kostnaður var áætlaður fyrir árið 2002. Þá stæðu eftir um 1.500 millj. kr. sem þyrfti að bæta sveitarfélögunum þegar leikskólagjöld hafa verið felld niður í heild sinni, þ.e. þegar áætlunin væri öll komin til framkvæmda. En fyrstu áfangar, ef við gefum okkur að tekið yrði fyrir ár í senn, eða hver áfangi um sig gæti þá kostað eitthvað af stærðargráðunni 500--700 millj. kr. Hér yrði sem sagt um að ræða tilfærslu á kostnaði sem fyrst og fremst kæmi fram sem kjarabót til handa þeim sem njóta þessarar þjónustu en kostnaðurinn yrði borinn uppi af sameiginlegum sjóði landsmanna og/eða sveitarfélaganna.

Ljóst er, herra forseti, að hreyfing í þessa veru er víða komin af stað og hún er í raun og veru óumflýjanleg að okkar mati sem liður í því að viðurkenna í reynd þá grundvallar\-ákvörðun sem þegar hefur verið tekin að líta á leikskóladvöl eða leikskólanám sem fyrsta hluta hins skipulagða menntakerfis í landinu.

Þess má geta að lokum, herra forseti, að í málefnasamningi núverandi meiri hluta í Reykjavík, Reykjavíkurlistans, er að finna umfjöllun um þetta efni þar sem vísað er í áttina að niðurfellingu leikskólagjalda.

Ég vil, herra forseti, að lokinni umræðu leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna þingmenn um að ávarpa forseta rétt og minna á að nokkrar breytingar hafa orðið á skipan forseta og hér sitja bæði karlar og konur. Forseti vill áminna þingmenn um að taka eftir hvort það er herra eða frú forseti sem situr í forsetastóli.)