Gjaldfrjáls leikskóli

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 19:09:51 (211)

2003-10-06 19:09:51# 130. lþ. 4.5 fundur 4. mál: #A gjaldfrjáls leikskóli# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[19:09]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gat þess að sá veruleiki sem við værum með í því þjóðfélagi sem við lifðum í væri að allt fólk ynni almennt úti, báðir foreldrar. Ég vil benda hv. þingmanni á að Alþingi mótar samfélagið sem við lifum í og t.d. hefur ákvörðun um fæðingarorlofið haft gífurleg áhrif á samfélagið. Nú taka karlmenn í síauknum mæli fæðingarorlof sem þeir gerðu ekki áður og það er mikil breyting sem hefur valdið t.d. því að launamisrétti er að minnka á landsvísu, ekki bara hjá VR, og það hefur sem sagt breytt þjóðfélaginu.

Auk þess er vaxandi skilningur hjá atvinnulífinu á fjölskylduhögum starfsmannanna þannig að fyrirtæki eru í síauknum mæli að taka tillit til fjölskylduhags starfsmanna. Ég get alveg séð fyrir mér að atvinnulífið í framtíðinni byði upp á það að fólk ynni meira hálfan daginn, faðirinn fyrir hádegi, móðirin eftir hádegi o.s.frv. Þetta kostaði auðvitað skipulagsbreytingu en þá gætu þau nefnilega tekið fæðingarorlofið saman, hálft fæðingarorlofið hvort. Það er nefnilega heimild fyrir því í lögunum. Líka fyrir foreldraorlofi og ef til kæmu greiðslur sem samsvara niðurgreiðslum á barnaheimilunum sem sveitarfélögin inna af hendi í dag, skattfrjálst, gerðist það að þau gætu verið fyrstu þrjú árin heima hjá barninu. Ég held að það yrði barninu mjög til góða. Það er ekkert sniðugt að vera 9 mánaða og vera sendur út í heim til dagmóður eða á leikskóla. Maður er ekki nógu gamall til þess.