Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 14:47:48 (236)

2003-10-07 14:47:48# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[14:47]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Frv. til fjáraukalaga er lagt fram á ábyrgð hæstv. fjmrh. og því verður að beina spurningum til hans hvað varðar einstök atriði þess frv. eins og a.m.k. hér er. Því leyfi ég mér að ítreka þetta við hæstv. fjmrh.: Eru þær 170 millj. sem ætlaðar eru til úreldingar sláturhúsa byggðar á þeim grunni að þær komi til þess að styrkja fjárhag sauðfjárbænda, einstakra sauðfjárbænda annars vegar, og hins vegar til þess að koma á réttu eða æskilegasta skipulagi í uppbyggingu sláturhúsa sem henti best? Ég leyfi mér að draga það í efa, en vil inna hæstv. fjmrh. eftir því hvort það sé hans mat.

Varðandi heilbrrh. þá er það alveg rétt að þetta verk er unnið á ábyrgð ríkissjóðs, en þegar við lítum svo á heildartölur heilbr.- og trmrn. og hverju hafi verið varið til heilbrigðismála og berum þær saman við önnur ráðuneyti, við aðra málaflokka o.s.frv., ég tala nú ekki um í samanburði við önnur lönd, þá stendur þar einn liður á útgjöldum til heilbrigðismála, 15 millj. kr., vegna úrskurðar um Norðlingaölduveitu vegna þess að viðkomandi var settur umhvrh. Mér er alveg ómögulegt að fallast á þessa röksemd hæstv. ráðherra. Ég tel afdráttarlaust að þennan kostnað hefði átt að millifæra yfir á umhvrn. en ekki að gera hann að hluta af heilsugæslukostnaði í landinu sem hann kannski var fyrir suma þó.