Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 15:20:26 (241)

2003-10-07 15:20:26# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., JGunn
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Jón Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Nú hefur verið mælt fyrir frv. til fjáraukalaga hinum seinni fyrir yfirstandandi ár. Þrátt fyrir að í heildina litið sé kannski ekki um hlutfallslega miklar breytingar að ræða frá samþykktum fjárlögum þá eru tölurnar sem um ræðir ekki smáar og að mörgu leyti athyglisverðar.

Þrátt fyrir að talsverðar breytingar hafi orðið á efnahagsforsendum fjárlaganna vegna meiri efnahagsumsvifa hækka skatttekjur ríkissjóðs aðeins lítillega frá fjárlagaáætlun. Skýringin er sú að heildarlaunabreytingar sem hafa áhrif á tekjuskatt einstaklinga og tryggingagjald eru taldar svipaðar og jafnvel ívið minni en fyrri spár gáfu til kynna, en það má m.a. rekja til aukins atvinnuleysis. Á móti vegur að heildarumsvif í efnahagslífinu, einkum neyslugjöld heimilanna, hafa aukist, en það skilar sér í auknum veltusköttum. Hlutfall skatttekna af landsframleiðslu, eins og komið hefur fram hér, hækkar lítillega frá fjárlagaáætlun eða úr 29% í 29,2%. Ekki sjáum við neina skattalækkun þar fremur en í fjárlagafrv. fyrir árið 2004 og segja má að eyðslugleði íslenskra heimila bjargi þessari niðurstöðu núna fyrir árið 2003 fyrir horn þrátt fyrir minni hækkun launa en ráð var fyrir gert í forsendum fjárlaga.

Tekjurnar hafa aukist um 3 milljarða kr. rúmlega þrátt fyrir að tekjuskattur einstaklinganna skili væntanlega um 1 milljarði kr. minni tekjum en að var stefnt í fjárlögum ársins. Launaveltan er því nokkuð minni en búist var við, einkum vegna þess að atvinnuleysi var talsvert miklu meira en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.

Hvað ber þá uppi tekjuaukninguna upp á 3 milljarða kr.? Jú, það eru veltuskattarnir, virðisaukaskatturinn, hann virðist ætla að aukast um 1.700 millj., og vörugjöldin, t.d. af innflutningi ökutæka, um 800 millj.

Annað sem vekur athygli er að arður af ríkisfyrirtækjum eykst um rúma 1,5 milljarða kr. frá því sem ráð var fyrir gert og þannig myndast að mestu sá tekjuauki sem áður var nefndur.

Það vakti athygli mína einnig, herra forseti, að ríkissjóður fær um það bil 1.000 millj. kr. meira í dráttarvexti af skatttekjum en áður var áætlað og segir það kannski meira en margt annað til um greiðslugetu gjaldenda þar sem enginn leikur sér að því að greiða dráttarvexti sem hjá því getur komist með nokkru móti.

Þegar ég sá í forsendum frv. að dráttarvextir mundu væntanlega aukast um 1.000 millj. kr. ákvað ég að spyrja hver væri heildartala dráttarvaxta sem áætluð væri fyrir árið 2003. Okkur barst svar í morgun í fjárln. og þar kemur fram að dráttarvextir eru og verða í kringum 9 milljarðar kr. á þessu ári. Þá sjáum við að ef ekki væri fyrir greiðslu dráttarvaxta, þ.e. greiðslugeta gjaldenda væri ekki fyrir hendi og þeir yrðu að draga greiðslur, þá væri talsverður halli á ríkissjóði.

Ég nefndi áðan arðgreiðslur ríkisfyrirtækja og það vakti athygli að reiknað er með að Landssíminn greiði rúmar 2.000 millj., 2.087 millj. í arð til ríkissjóðs á yfirstandandi ári. Þarna er um verulega aukningu að ræða því að áður var gert ráð fyrir að hann mundi greiða rúmar 800 millj. í arð. Það sést einnig að gert er ráð fyrir því að Landssíminn muni greiða 2.100 millj. í arð á árinu 2004.

Í ljósi þess að búist er við svo stórauknum arðgreiðslum frá Landssímanum umfram það sem áður var áætlað er ekki óeðlilegt að spurt sé hvort tekin hafi verið sú stefnumarkandi ákvörðun að minnka eigið fé fyrirtækisins með útgreiðslu á arði í ríkissjóð sem undanfara þess að fyrirtækið verði selt.

Herra forseti. Á sama tíma og ríkisstjórnin ber sér á brjóst og talar um árangur í því að koma böndum á ríkisútgjöld og ríkisumsvif aukast útgjöld ríkisins um mun hærri upphæðir en tekjur þess og verða útgjöld um 8 milljörðum kr. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Í raun þýðir þetta að handbært fé frá rekstri ríkissjóðs fyrir árið 2003 er áætlað núna neikvætt upp á tæpa 14 milljarða kr. í fyrirliggjandi frv. til fjáraukalaga.

Ýmsar forsendur fyrir fyrri spá hafa breyst og breyst talsvert, eins og sjá má í töflu í frv. á bls. 53. Þar vekur athygli að nú er talið að samneyslan muni aukast um 3,5%. Þetta er um 1,25% meiri aukning en að var stefnt í fjárlögum ársins.

Í ljósi þess hve illa ríkisstjórninni gengur að hemja ríkisútgjöld og í ljósi þess að þau hafa aukist gríðarlega í tíð hennar er erfitt að sjá hvernig hún ætlar að standa við að samneyslan vaxi ekki umfram 2% á ári eins og við munum að er forsenda í nýframlögðu fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Megum við ekki búast við því að nauðsynleg fjáraukalög 2004 breyti þeirri mynd ef að líkum lætur?

Herra forseti. Annað sem vakti athygli mína í fyrirliggjandi frv. til fjáraukalaga er að gert er ráð fyrir að eignasala frá fyrra ári skili 2 milljarða kr. lækkun innborgana frá því sem áður var talið og er skýringin sögð í frv. vera styrking á gengi íslensku krónunnar og endurskoðun á söluverðmæti eigna. Ekki kemur fram í frv. skipting á þessari lækkun og mun þurfa að leita skýringa á henni í vinnunni fram undan. Getur verið að hér sé um einhvern afslátt af sölu Landsbanka eða Búnaðarbanka að ræða, og ef svo er, hve mikill er sá afsláttur og hvers vegna kemur hann til?

Á nokkrum stöðum í frv. bregður fyrir texta sem gefur til kynna að einstakir ráðherrar hafi gert samninga við þriðja aðila um þátttöku ríkisins í verkefnum og að þessir samningar hafi verið gerðir í aðdraganda kosninganna í vor. Ætla má að aðeins lítið brot af þessum kosningasamningum, sem ég kalla svo, hafi ratað inn í fjáraukalagafrv. yfirstandandi árs og frekar megum við vænta að þeir verði í einhverjum mæli í frv. til fjárlaga næsta árs. Ég held að flestir muni hve greiðlega virtist ganga sums staðar í aðdraganda kosninga með samninga um styrki til ýmissa verkefna eftir því sem þær nálguðust.

Eins og komið hefur fram hjá fyrri ræðumönnum þá skulu fjáraukalög taka tillit til nýrrar lagasetningar, ófyrirséðra útgjalda, breytinga á forsendum sem verða frá því að fjárlög verða samþykkt og ákvarðana ríkisstjórnar um ný útgjöld. Ég verð að taka undir með hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni um að þegar maður fer yfir frv. sem fyrir liggur þá virðast vera þar ansi mörg verkefni sem menn að hljóta að hafa séð fyrir þegar ákveðið var hvaða tölur voru settar í fjárlagafrv. fyrir árið 2003. Auðvitað kemur alltaf upp og mun alltaf koma upp að breyta þurfi tölum í fjáraukalagafrv. frá því sem gert var ráð fyrir. En við verðum að gera þá kröfu til fjmrn. og þeirra sem með fé ríkisins fara að reynt sé að áætla eins nákvæmlega og eins rétt og mögulegt er. Förum yfir nokkrar tölur í fyrirliggjandi frv.

Um framhaldsskólana segir þar, með leyfi forseta:

,,Í fyrsta lagi er sótt um 250 millj. kr. til þess að mæta kostnaði við nemendafjölda í framhaldsskólum umfram forsendur fjárlaga ársins 2003. Fjárhæðin svarar til framlags vegna um það bil 540 ársnemenda samkvæmt reglum menntamálaráðuneytisins. Niðurstaða vorannar 2003 og spá fyrir haustönn, sem byggð er á innritunum í haust, bendir til þess að nálægt 16.550 ársnemendur verði í skólunum í ár. Í forsendum fjárlaga 2003 er gert ráð fyrir um 15.833 ársnemendum á fjárlagaliðum skólanna og óskiptum lið. Að teknu tilliti til þeirrar hækkunar sem sótt er um er áætlað fyrir framlagi fyrir um það bil 16.373 ársnemendum í framhaldsskólum.``

[15:30]

Ég hélt að með fjáraukalögum væri verið að áætla fyrir því sem út af stæði. Það kemur fram í skýringum við þessa grein að gert er ráð fyrir að nemendur verði 16.550, svokallaðir ársnemendur. En það á ekki að áætla fyrir þeim öllum í fjáraukalögum, heldur er áætlað og gert ráð fyrir 16.373 nemendum. Er ekki í raun verið að fresta ákveðnum vanda þarna? Er ekki í raun verið að neita að viðurkenna kostnað sem menn telja að hljóti að falla til?

Í frumvarpi eins og hér liggur fyrir eru margar tölur sem stinga í augu, fyrir nýliða eins og mig. Ég fór að velta fyrir mér hvernig stæði á einni tölu sem varðar framhaldsskólana. Það er farið fram á 70 millj. kr. viðbótarfjárveitingu til að mæta auknum kostnaði við veikindaorlof framhaldsskólakennara. Þegar lesið var lengra kom skýring á þessu. Hún var sú að hækkandi meðalaldur kennara á framhaldsskólastigi er einn þeirra þátta sem skýra auknar greiðslur vegna veikindaorlofs. Þarna var hægt að sjá fyrir sér að framhaldsskólakennarar væru orðnir það hrumir að þeir væru meira veikir nú en áður. Auðvitað hlýtur þetta að þýða það að eftir því sem kennarar eru með lengri starfsaldur þeim mun dýrari hljóti þeir að vera og þar af leiðandi þurfi að greiða hærri laun í veikindaorlofi. En þegar lengra var lesið kom ákveðin skýring á þessu. Það er ekki bara aldur framhaldsskólakennara sem veldur því að það vanti 70 milljónir til viðbótar vegna veikindaforfallakennslu, heldur segir:

,,Einnig er talið að reglur menntamálaráðuneytisins um framlög til framhaldsskóla hafi leitt til þess að skólarnir skrái kostnað vegna veikinda nákvæmar en áður.``

Herra forseti. Mér finnst koma fram í þessum skýringum að það er það hart sótt að framhaldsskólum með fjárveitingar að farið er að skrá alla mögulega og ómögulega hluti inn í þetta reiknilíkan frá menntmrn. til þess að reyna að ná í þá fjármuni sem þarf til að reka framhaldsskólana á ári. En 70 millj. kr. viðbótarfjárveiting bara í þetta eina, stingur nýliða eins og mig í augun.

Við munum eftir því í fjárlagaumræðunni fyrir fjárlög árið 2004 að þar var boðaður niðurskurður á lyfjakostnaði, hjálpartækjum og kostnaði vegna sérfræðilækna. Þegar skoðað er hvernig þessir liðir, í því frv. sem hér liggur fyrir, líta út, hvort í raun hafi tekist að spara í þeim liðum sem á að spara verulega í á næsta ári, kemur í ljós að svo er alls ekki.

Það kemur í ljós, herra forseti, að það vantar 160 milljónir til viðbótar vegna lyfjakostnaðar. Það vantar 270 milljónir til viðbótar vegna hjálpartækja. Í lífeyristryggingar vantar 674 milljónir. Ég les þetta upp vegna þess að maður heldur, þegar fjárlagafrumvarp árið 2004 er lagt fram, og verulegur eða talsvert mikill niðurskurður á liðum sem ég var að nefna kemur fram á lyfjum, hjálpartækjum og læknisþjónustu, að það byggist á því að það hefði tekist að spara með einhverjum hætti í þessum þáttum. En svo er alls ekki, miðað við frumvarpið til fjáraukalaga sem hér liggur fyrir. Það vantar aukna fjármuni inn í þessa þætti. Samt sem áður telja þeir sem leggja fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2004 að þeir geti sparað þarna á næsta ári.

Ég tel, í fullri einlægni, að ef við horfum á söguna eins og hún hefur verið, hvað varðar þessi útgjöld sem ég var að nefna hér, þá hefur þetta á undanförnum árum verið eins. Það er aldrei áætlað nægilega mikið fyrir þessum liðum og síðan er verið að bæta á þá með fjáraukalögum, en samt sem áður ætla menn að spara verulega í næstu fjárlögum.

Herra forseti. Kollegi minn og samþingmaður, Einar Már Sigurðarson, vitnaði í skýrslu Ríkisendurskoðunar og fór þar með álit hennar á því með hvaða hætti ætti að fara að fjárlögum og hvað ætti heima í fjáraukalögum. Það vakti óneitanlega athygli mína þegar ég fór yfir fjáraukalögin að þar biður Ríkisendurskoðun um 7 millj. kr. aukið framlag vegna hækkunar á húsaleigu. Ég held að Ríkisendurskoðun hljóti að hafa verið ljóst, þegar gengið var í fjárlagavinnuna fyrir árið 2003, hver húsaleigan mundi verða á öllu árinu og lýsi vonbrigðum mínum yfir því að stofnun eins og Ríkisendurskoðun, sem er búin að fara yfir þetta vinnulag frá a--z og skrifa um það lærða skýrslu, skuli síðan dúkka upp í fjáraukalögum með beiðni um að það vanti 7 millj. kr. til viðbótar til að geta staðið undir rekstri stofnunarinnar.

Það má kannski segja að það sem standi upp úr vinnu eins og þeirri sem við erum að vinna í fjárln. séu þessar stóru, háu, miklu tölur sem við erum að fjalla um á hverjum degi. Ég verð að segja alveg eins og er að það hvarflaði aldrei að mér að ríkið væri í raun að innheimta dráttarvexti af gjaldendum sínum upp á u.þ.b. 9 milljarða króna á ári. Þetta virðist vera svipuð tala árið 2001, 2002 og áætluð fyrir árið 2003. Hér er um verulegar upphæðir að ræða, sama á hvaða mælikvarða við leggjum þær, því við munum öll eftir því hvað ríkið ætlaði að fá fyrir sölu á ríkisfyrirtækjum. Þegar farið er að tala um tölu eins og 9 milljarða króna, hátt í heilan tug milljarða króna, eru það ekki litlar upphæðir. Ég held að það segi okkur kannski, eins og ég sagði í upphafi máls mín, meira um ástand gjaldenda, heldur en við gerum okkur í raun grein fyrir í fljótu bragði.