Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 16:43:38 (246)

2003-10-07 16:43:38# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[16:43]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi inna hæstv. fjmrh. eftir því hver staðan væri með sölu Landsbankans. Ég kom því ekki að í fyrri ræðu minni að spyrja um stöðuna í sölu Landsbankans. Eins og málið var kynnt í sumar var skrifað undir eins konar bráðabirgðaútgáfu af sölu og síðan átti að fara fram endanlegt uppgjör þegar ljóst væri hvort bankinn væri þess virði sem hann var seldur á. Seinni part sumars var ýjað að því í fréttum að það gæti þurft að lækka söluverð Landsbankans um einhver hundruð milljóna króna, eða upp undir milljarð króna, vegna þess að hann hefði ekki reynst eins mikils virði og búist var við.

Landsbankinn er kannski löngu týndur í þessu ferli uppskipta á fjármála- og fyrirtækjamarkaði. Engu að síður er því uppgjöri væntanlega ólokið.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvar stendur þetta uppgjörsmál gagnvart sölu Landssímans? En andvirðið af sölu Landssímans er hluti af þeim tekjum sem kemur inn á þessu ári (Gripið fram í: Landsbankans.) ... já, sölu Landsbankans --- sölu Landsbankans. Landssíminn verður vonandi aldrei seldur.