Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 16:50:20 (249)

2003-10-07 16:50:20# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[16:50]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því hversu orðbragð hv. þm. er óviðurkvæmilegt þegar hann viðhefur það orðbragð að tala um að menn hafi verið að sölsa undir sig eignir þjóðarinnar. Það var bara gerður frjáls samningur um að selja þessa eign. Ég man ekki nákvæmlega hvert gengið eða gengisvísitalan var á þeim degi, gamlársdegi, þegar sá samningur var undirritaður. (Gripið fram í.) Hitt er alveg ljóst að greiðslan mun verða innt af hendi í erlendum gjaldmiðli og þá er ákveðinn vafi á því hvort sú upphæð sem þá fæst í íslenskum krónum verður nákvæmlega sú sama og hún hefði orðið á gamlársdag. Svoleiðis að þetta segir sig nokkuð sjálft held ég að þarna er nokkur óvissa. Og við girðum fyrir hana með því að reikna þetta kannski ríflega, 2.000 milljónir, þ.e. þetta atriði og svo óvissan varðandi fyrirvarann sem var í kaupsamningnum.

Ef þetta er fullvel í lagt þá kemur það í ljós og ég vona að svo sé reyndar og þá munum við eiga mismuninn til góða þegar lokafjárlög fyrir þetta ár verða lögð fram, þá verður þetta allt skýrt. (JBjarn: Gengið er fljótandi.) Já, það er nú þannig þegar við ráðum ekki alveg yfir gengi gjaldmiðla, herra forseti. Þegar selt er í einum gjaldmiðli þá geta orðið gengisbreytingar þegar greiðslan er innt af hendi síðar meir.