Úthlutunarreglur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 14:01:54 (294)

2003-10-08 14:01:54# 130. lþ. 6.95 fundur 65#B úthlutunarreglur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), DrH
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 130. lþ.

[14:01]

Drífa Hjartardóttir:

Virðulegi forseti. Hlutverk jöfnunarsjóðs hefur aukist mikið síðustu ár. Hann er mjög mikilvægur fyrir sveitarfélögin. Á fjárlögum er núna ætlað að verja tæpum 6 milljörðum að ég tel sem munu fara í jöfnunarsjóðinn.

Herra forseti. Jöfnunarsjóði var síðast en ekki síst breytt vegna þess að hann hamlaði í rauninni gegn sameiningu sveitarfélaga eins og hann var upp byggður áður og í endurskoðuninni tóku sveitarstjórnarmenn fullan þátt. Aðalatriðið er, eins og hæstv. félmrh. greindi frá áðan, að gerðar voru breytingar á tilteknum reglum sjóðsins vegna breyttra forsendna, m.a. vegna fækkunar og stækkunar sveitarfélaga og breytinga á tekjustofnum þeirra og verkefnum og til að tryggja réttláta jöfnun meðal sveitarfélaganna að teknu tilliti til tekjumöguleika þeirra og útgjaldaþátta en þess gætt að þau njóti engu að síður ávinnings af hagkvæmni í rekstri og til að styrkja enn frekar hlutverk sjóðsins í tengslum við sameiningu sveitarfélaga. Niðurstaða nefndarinnar varð þó sú að gera ekki róttækar breytingar á reglum og gerð framlaga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Ef rétt reynist, eins og hv. þm. Jón Bjarnason heldur hér fram, að bráðavandi sé mikill þá er ég alveg sannfærð um að hæstv. félmrh. mun skoða það sérstaklega. En þetta er fyrsta árið sem unnið er eftir nýjum reglum. Við verðum að gefa sjóðnum tækifæri til að vinna úr sínum málum.

Það hefur líka komið í ljós að stærri sveitarfélög og meðalstór sveitarfélög koma hagstæðar út núna við útreikning útgjaldajöfnunarframlaga sem má rekja til þess að skerðing vegna stærðarhagkvæmni er ekki eins mikil og áður.

Herra forseti. Að lokum er rétt að benda á að hæstv. félmrh. hefur ákveðið í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga að hefja átak í sameiningarmálum sveitarfélaga þar sem samhliða verði verkaskipting ríkis og sveitarfélaga (Forseti hringir.) tekin til skoðunar ásamt tekjustofnum sveitarfélaganna.