Hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 14:44:28 (311)

2003-10-08 14:44:28# 130. lþ. 7.3 fundur 72. mál: #A hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[14:44]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Það hefur verið stefna yfirvalda að draga úr vistun aldraðra á stofnunum og efla heimaþjónustu á næstu árum. Vissulega þarf að efla heimaþjónustu og gera öldruðum kleift að búa sem lengst heima en það er ekki tímabært að draga úr hjúkrunarrýmum, síður en svo, ef horft er til ástandsins í öldrunarþjónustunni á höfuðborgarsvæðinu. Hér er þörfin mest fyrir aukna þjónustu við aldraða og þörfin mest fyrir fleiri hjúkrunarrými.

Í Reykjavík einni --- og þá er ég ekki að taka allt höfuðborgarsvæðið --- bíða nú um 400 manns eftir hjúkrunarrýmum og þar af tæplega 300 í mjög brýnni þörf. Á Landspítalanum bíða á annað hundrað manns eftir úrræðum og það eftir að lækningu er lokið. Þeir eru þar í dýrum sjúkrarúmum þar sem þjónustan er alls ekki við þeirra hæfi. Þetta eru tæplega 150 manns og stór hluti þeirra er fólk sem bíður eftir að komast í hjúkrunarrými. Og þetta er 50% aukning frá því á undanförnum árum.

Þetta er bæði dýrt og óhagkvæmt fyrir alla, bæði sjúklinginn, sjúkrahúsið og samfélagið og gæti Landspítalinn eytt öllum biðlistum ef hann hefði þessi legupláss til ráðstöfunar samkvæmt lækningaforstjóranum þar í frétt nýverið. Hér á höfuðborgarsvæðinu hefur hjúkrunarrýmum ekki fjölgað sem skyldi og þó að hjúkrunarheimili hafi risið þá hefur þeim ekki fækkað sem bíða í mikilli þörf eftir plássi og er biðin allt upp í tvö ár og jafnvel lengur, sem er allsendis óviðunandi. Það verður að segjast að markmiðið um 90 daga bið í heilbrigðisáætluninni fyrir 2010 er því langt undan. Þó að rými bætist við þá fækkar þeim á eldri hjúkrunarheimilum, þeim stóru, vegna aukinna krafna um meiri gæði og betri aðstöðu. Sérherbergi með salernisaðstöðu eru nú talin sjálfsögð mannréttindi þó enn sé nokkuð um að aldraðir þurfi að búa við það að deila herbergi með öðrum með sameiginlega salernisaðstöðu. Á Grund hefur t.d. plássum fækkað úr 320 í 240 á undanförnum 15 árum, þó mest á síðustu fimm árum, og þar er gert ráð fyrir að fækka muni um 50 pláss til viðbótar á næstu árum. Eitthvað af þessum plássum eru reyndar dvalarheimilispláss.

Ég minni líka á að það eru ekki aðeins aldraðir sem bíða eftir hjúkrunarrýmum, það bíður líka ungt langveikt fólk sem þarf úrlausn. Því er ekki bjóðandi að dvelja á öldrunarstofnunum.

En þar sem vandinn er stærstur hér á höfuðborgarsvæðinu spyr ég hæstv. heilbrrh. hvað sé fram undan í uppbyggingu hjúkrunarrýma á höfuðborgarsvæðinu, hversu mörg hjúkrunarrúm bætist við á þessu ári og því næsta og hver verði raunfjölgunin þegar þau verða komin í gagnið. Hve mikið fjölgaði hjúkrunarrýmum í raun á síðasta kjörtímabili og hversu margir bíða nú eftir hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu?