Sala Landssímans

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 10:49:00 (359)

2003-10-09 10:49:00# 130. lþ. 8.91 fundur 71#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[10:49]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér er ljóst að ég hef auðvitað komið alveg heiftarlega við hv. þm. Össur Skarphéðinsson, ég fellst á það. Það eru gríðarlegar skammir um Samfylkinguna og það er mjög ljótt, en því miður satt, að segja að Samfylkingin hefur nú tekið upp stefnu Framsfl. í símamálinu. (Gripið fram í.)

Framsfl. var mikið að vandræðast með þetta mál eins og kunnugt er og kom sér upp þeirri línu, sem að vísu var fengin að láni frá öðrum, að mögulegt væri að standa þannig að breytingum á þessu sviði að hið opinbera héldi eftir grunnnetinu. Það var ekki ný hugmynd. Strax þegar núv. forseti Alþingis, þáv. samgrh., breytti Pósti og síma í hlutafélag tók ég það mál upp og spurði: Stendur til að hlutafélagavæða grunnnetið? Þá spurði þáv. samgrh.: Grunnnetið, hvað er það? Og síðan áttum við um þetta nokkur skoðanaskipti. Þannig að hugsunin var gömul en ekki ný.

En staðreyndin er engu að síður sú að Samfylkingin er svona hálfvolg í þessu máli. Hún er bæði með og á móti því að einkavæða Landssímann, eins og heyra mátti hér, vill gera það bara öðruvísi en ríkisstjórnin. Enda er það alveg í samræmi við hinar nýju áherslur að Samfylkingin er hætt í stjórnarandstöðu og hefur tekið hér upp aðra hætti, eins og kunnugt er. (ÖS: Er það þess vegna sem þú styður hækkun bensíngjalds ...?) Þetta er auðvitað alveg í fullkomnum takti við það.

En ég áttaði mig ekki á að málið væri svona ofboðslega viðkvæmt í herbúðum Samfylkingarinnar að formaðurinn má hér vart kyrru halda í salnum fyrir óróleika þegar þetta ber á góma.

Málið er auðvitað grafalvarlegt, herra forseti, og það er á íhaldinu sem þarf að berja í þessu máli og vonandi getum við sameinast um það. Það er auðvitað ofstæki og trúarbragðaaðferðir Sjálfstfl., frjálshyggjunnar, sem eru höfuðmeinsemdin og auðvitað aumingjaskapur Framsfl., þessi fullkomna niðurlæging Framsfl., sem leggst á kviðinn og lætur nýfrjálshyggjuliðið valta yfir sig í hverju málinu á fætur öðru. Það er auðvitað alveg hroðalegt að horfa upp á þetta.

En ég sé nú að hæstv. heilbrrh. líður þó ekki verr en það að hann brosir.