Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 17:58:39 (433)

2003-10-09 17:58:39# 130. lþ. 8.4 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[17:58]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Slík ummæli að menn leggist á hnén eru auðvitað skemmtileg karlmennska úr ræðustól Alþingis. Ég hygg nú að ríkisstjórnin hafi ekki lagst á hnén. Hún stóð fyrst og fremst frammi fyrir því að hún varð að grípa til nauðvarnar út frá íslenskum hagsmunum og þess vegna voru bráðabirgðalögin sett, ekki bara einhverra örfárra fyrirtækja heldur íslenskum hagsmunum vegna skuldbindingar sem við höfðum undirgengist að innleiða í íslensk lög og margt í kringum það var í uppnámi. Þetta veit hv. þm.

Ég hef svo margfarið yfir það í dag að ég trúði auðvitað á undanþágu áfram og hef rakið hvernig við reyndum að ná því fram að undanþága yrði áfram frá þessu ákvæði. En þegar þannig stóð þá var ekki annað að gera en að þetta frv. kæmi fram. Það er viðurkennt af minni hálfu að það kom seint fram til þingsins. Ég trúði því þá að það mundi lægja þær öldur út af EES-samningnum að við hefðum frið til þessa þings til þess að vinna málið. Svo varð ekki. Þannig stendur málið og þess vegna er ég í þessum sporum.