Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 18:46:55 (443)

2003-10-09 18:46:55# 130. lþ. 8.3 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv., ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[18:46]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Frú forseti. Það fór vel á því að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og hv. þm. Bjarni Benediktsson notuðu jómfrúrræður sínar hér á þingi til að verja skattahækkanir en berjast ekki fyrir skattalækkunum. Sjálfskipuðum talsmanni skattgreiðenda, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, kallaði sjálfan sig, líður afar vel í Sjálfstfl. enda hafa engin kosningaloforð verið svikin samkvæmt því sem hann sagði. Engin kosningaloforð svikin. Förum aðeins yfir þetta.

Sjálfstfl. lofaði að lækka skatta akkúrat núna, eins og það var orðað. Það var svikið. Sjálfstfl. lofaði að tímasetja skattalækkanir strax í upphafi þessa þings. Það var svikið. Sjálfstfl. lofaði að framlengja ekki hátekjuskattinn. Það var svikið. Í ofanálag hækkar ríkisstjórnin skatta um einn milljarð kr. á bensíni og þungaskatti og skerðir vaxtabætur um 600 millj. kr. þvert ofan í loforð um skattalækkanir og kjaraaukningu. Samt líður ,,talsmanni skattgreiðenda`` mjög vel við núverandi aðstæður og í núverandi flokki sínum. Ég held að skattgreiðendur eigi betri talsmenn skilið en þetta.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og hv. þm. Bjarni Benediktsson sáu einnig sérstaka ástæðu til að fagna lögfestingu á endalokum hátekjuskattsins svokallaða eins og fyrirliggjandi frv. ber með sér. Hv. þm. virðast þó ekki átta sig á einu grundvallaratriði í þessari umræðu, það var einfaldlega búið að lögfesta endalok hins svokallaða hátekjuskatts. Hann átti að renna sitt skeið í lok ársins.

Það sem þetta frv. hins vegar gerir, sem báðir umræddir þingmenn taka sérstaklega fram að þeir ætli að styðja, er einfaldlega að ákveða að leggja sérstakan skatt næstu tvö árin á millitekjufólkið í landinu sem síst þarf á því að halda. Það er verið að ákveða að leggja á 1.400 millj. kr. skatt á millitekjufólk sem annars hefði ekki verið gert.

Afstaða Samf. í málefnum hátekjuskattsins er skýr. Samf. hefur ekki talið vera neina sanngirni í því að millitekjufólk greiði sérstakan tekjuskatt af tekjum sem eru ekkert annað en meðaltekjur í dag. Þetta kom m.a. fram í ræðu formanns Samf. árið 2001 um stefnuræðu forsrh. og víðar. Ég kom einnig inn á þetta í andsvörum mínum við hv. þm. Halldór Blöndal. Með leyfi forseta, sagði ég orðrétt:

,,Samf. hefur sagt að hún er ekki talsmaður þess að við höfum sérstakan hátekjuskatt að því marki sem hann er núna.``

Þetta er afskaplega skýrt, þess vegna átta ég mig ekki alveg á athugasemd um að skattstefna Samf. hvað varðar hátekjuskattinn sé óskýr.

Samf. lofaði sömuleiðis skattalækkunum í kosningabaráttunni en nú er Samf. eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur sett fram tillögur um slíkar lækkanir í ár. Samf. hefur kynnt metnaðarfullar tillögur um stórfelldar skattalækkanir á matvælum sem mundu færa íslenskum heimilum og fjölskyldum allt að 5 milljörðum kr. Þessar tillögur vilja þingmenn Sjálfstfl. ekki styðja þar sem þær eru ekki á þeirra forsendum, eins og þeir orða það sjálfir. Ég vona svo sannarlega að skattgreiðendur muni einhvern tímann heyra þennan málflutning.

Að lokum langar mig gjarnan að vita einhvern tímann í framtíðinni eða hér á þingi þegar menn eru viðstaddir hvort hinn sjálfskipaði talsmaður skattgreiðenda á þingi, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, treysti sér til að styðja raunverulegar skattalækkanir á matvælum eins og Samf. hefur boðað.