Kostnaður sveitarfélaga vegna atvinnuleysis

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 15:15:31 (619)

2003-10-15 15:15:31# 130. lþ. 11.8 fundur 113. mál: #A kostnaður sveitarfélaga vegna atvinnuleysis# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[15:15]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir beinir til mín spurningum um kostnað sveitarfélaga vegna atvinnuleysis. Skemmst er frá því að segja að félmrh. hefur ekki tekið saman þær upplýsingar sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir spyr um. Ráðuneytið leitaði eftir því hvort slík samantekt hefði farið fram á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga en svo reyndist ekki vera. Hins vegar kom fram að af hálfu sambandsins er nú unnið að gerð könnunar á sérstökum úrræðum sveitarfélaga vegna atvinnuleysis ungs fólks á framhaldsskólaaldri. Niðurstöður úr þeirri könnun liggja hins vegar ekki fyrir.

Eins og kunnugt er eru veittir styrkir úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna sérstakra verkefna á vegum svæðisvinnumiðlana. Styrkir þessir eru ætlaðir fyrir tímabundin verkefni sem eru umfram venjuleg umsvif þess fyrirtækis eða sveitarfélags sem í hlut á. Vinnuveitandi greiðir mismuninn á milli styrks og útgreiddra launa þeirra einstaklinga sem ráðnir eru á þessum grundvelli. Töluverð ásókn er í þessa styrki og hafa mörg sveitarfélög verið þar fyrirferðarmikil. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun hafa sveitarfélög sótt um styrki vegna samtals 84 verkefna af þessum toga á tímabilinu janúar til ágúst á þessu ári. Flest verkefni voru samþykkt af hálfu stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, en með þeim voru um 470 einstaklingar virkjaðir á grundvelli ofangreinds átaks. Ljóst má því vera að þátttaka sveitarfélaga í aðgerðum til að sporna gegn atvinnuleysi er nokkur. Yfirlit yfir þessa þátttöku sveitarfélaganna liggur hins vegar ekki fyrir og full ástæða er til að greina hana frekar.

Skýr fylgni hefur verið milli fjölda á atvinnuleysisskrá og kostnaðar við fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna undanfarin ár. Það er í sjálfu sér eðlilegt að svo sé. Það er hlutverk sveitarfélaganna að reka grunnfélagsþjónustu í landinu samanber lög þar um. Samkvæmt þeim skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar sem félmn. leggur til grundvallar við ákvörðun um fjárhagsaðstoð til einstaklinga.

Virðulegi forseti. Það er því bæði hlutverk sveitarfélaga að veita slíka fjárhagsaðstoð og eins að meta þörf fyrir aðstoð hverju sinni. Félmrn. hefur unnið að því í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga að setja fyrirmyndir að slíkum reglum. En það er að sjálfsögðu sveitarfélaganna sjálfra að ákveða hvaða reglur og viðmiðanir eru í gildi varðandi fjárhagsaðstoð svo framarlega sem þær séu í samræmi við lögin sjálf, en í því felst að fólk geti séð fyrir sér og sínum.

Rétt er að geta þess að sveitarfélögunum ber jafnframt skylda til að veita alhliða félagslega ráðgjöf, en í henni felst m.a. að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál annars vegar og stuðning vegna félagslegs og persónulegs vanda hins vegar. Félagsleg ráðgjöf tekur m.a. til ráðgjafar á sviði fjármála og húsnæðismála og hún ætti eðli málsins samkvæmt að aukast í kjölfar atvinnuleysis.

Hér getur það því verið afar mismunandi hvernig sveitarfélög standa að málum. Eins gæti verið erfitt að greina hvað er vegna atvinnuleysis og hvað er aðstoð af öðrum toga. Upplýsingar um þessi útgjöld sveitarfélaganna liggja hins vegar ekki fyrir hjá félmrn.

Ég lýsi mig í ljósi spurningar hv. fyrirspyrjanda, Margrétar Frímannsdóttur, reiðubúinn til að fara í þessa vinnu, að greina kostnað sveitarfélaganna vegna atvinnuleysis ef það er vilji hins háa Alþingis. Það er afar brýnt að slíkt sé gert í nánu samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Rétt er þó að benda á þann möguleika í lokin að ekkert er því til fyrirstöðu að sveitarfélögin vinni sjálf slíka greiningu, t.d. á vettvangi sambandsins.