Framkvæmdaáætlanir til að ná fram launajafnrétti kynjanna

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 12:12:04 (665)

2003-10-16 12:12:04# 130. lþ. 12.13 fundur 15. mál: #A framkvæmdaáætlanir til að ná fram launajafnrétti kynjanna# þál., ISG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[12:12]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir innlegg hans og ég verð að segja að ég tel það virðingarvert að félmrh. skuli sitja hér og taka þátt í umræðunni. Það er meira en hægt er að segja um aðra ráðherra í þessari ríkisstjórn sem flestir hverjir virða ekki almenna þingmenn svars eða viðlits í umræðum um mál hér.

Ég verð hins vegar að segja að mér fannst skjóta dálítið skökku við að félmrh. væri farinn að eigna sér eða gera það að merki eða flaggi fyrir ríkisstjórnina að Samband íslenskra sveitarfélaga væri að vinna að bresku starfsmati, kynhlutlausu starfsmati. Ég vil nú segja ráðherra frá því hvernig það mál er til komið. Það var Reykjavíkurborg sem á árinu 2001 gerði kjarasamning við Eflingu--stéttarfélag, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og Tæknifræðingafélagið um að taka upp kynhlutlaust starfsmatskerfi frá 1. desember 2002, átti það að vera, og þetta breska kerfi var fundið og farið í að aðlaga það íslenskum aðstæðum. Það má segja að þetta sé róttækasta og umfangsmesta breyting á launamyndunarkerfi sem Reykjavíkurborg hefur nokkurn tíma samið um í því skyni að ná fram markmiðum um jöfn laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Og það nær til 63,4% starfsmanna Reykjavíkurborgar. Þetta hefur hins vegar reynst mjög umfangsmikil vinna og miklu tímafrekari og kostnaðarsamari en menn reiknuðu með og þess vegna hefur þetta ekki enn þá verið til lykta leitt og er núna verið að fá auknar fjárveitingar til þess að ljúka þessari vinnu. En þetta er sem sagt komið í gegnum kjarasamninga Reykjavíkurborgar við sína stærstu viðsemjendur sem eru annars vegar Efling og Starfsmannafélag Reykavíkurborgar og um þetta er góð sátt. Ég vil að Reykjavíkurborg eigi það sem hún á og síðan getur ríkisstjórnin státað sig af því sem er hennar og það er ekki þetta.