Framkvæmdaáætlanir til að ná fram launajafnrétti kynjanna

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 12:15:52 (669)

2003-10-16 12:15:52# 130. lþ. 12.13 fundur 15. mál: #A framkvæmdaáætlanir til að ná fram launajafnrétti kynjanna# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[12:15]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ljóst er af orðum hæstv. ráðherra áðan að vilji hans stendur til þess að gera vel í jafnréttismálunum og fagna ég því og óska honum góðs gengis í því mikilvæga starfi hans.

Ég fagna því líka sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að hann telur að til álita komi að fella þá framkvæmdaáætlun sem lögð er til í tillögunni inn í áætlun um jafnréttismál, ef ég skil ráðherrann rétt. Ég fagna því mjög að ráðherrann tekur það vel undir tillöguna að hann telur rétt að íhuga það alvarlega að fella þessa tillögu um framkvæmdaáætlanir til að ná fram launajafnrétti kynjanna inn í áætlun um jafnréttismál. Þetta er mikilvægt innlegg í umræðuna hjá okkur í félmn. vegna þess að ekki er hægt að líta á þetta öðruvísi en stuðning hæstv. ráðherra við þetta mál og gefur því góðar vonir um að tillagan verði samþykkt. Samþykkt hennar mundi styðja hæstv. ráðherra mjög vel ef hann hyggst, sem ég vona, fella þessa tillögu inn í sína framkvæmdaáætlun. Hann hefur þá stuðning þingsins við það þegar hann leggur málið fyrir ríkisstjórn að þetta verði gert á þann hátt. Ég fagna þessu mjög.

Ég fagna því líka að hæstv. ráðherra ráðgerir launakönnun sem fjmrn. lofaði að gera í tengslum við kjarasamninga 1997. Ég fagna því að sú könnun fari fram.

En ég vil spyrja ráðherrann: Er það ekki skýrt að skoðun hans er sú að grípa eigi til aðgerða sem jafnréttislögin heimila, þ.e. 2. mgr. 22. gr. jafnréttislaganna sem heimilar að grípa til aðgerða sem fela í sér jákvæða mismunun og að sérstakar tímabundnar aðgerðir geti komið til sem ætlaðar eru til að bæta stöðu kvenna eða karla til að koma á jafnrétti, að það gangi ekki gegn lögunum? Og við erum að tala um í þessu tilviki til að ná fram launajafnrétti.