Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 15:22:55 (704)

2003-10-16 15:22:55# 130. lþ. 13.2 fundur 20. mál: #A kosningar til Alþingis# þál., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[15:22]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ekki þarf að koma á óvart að hv. þm. Samf. styðji heils hugar efni þeirrar tillögu sem hér er flutt. Má til þess vitna að á þessu þingi hafa allir þingmenn Samf. flutt till. til þál. um breytingu á stjórnarskrá í tilefni aldarafmælis heimastjórnar og einn liður í þeirri þáltill. er að gera tillögur um að landið verði allt að einu kjördæmi. Einnig hafa þingmenn Samf. flutt t.d. á 128. löggjafarþingi frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands þar sem beinlínis er kveðið á um í því frv. að landið verði eitt kjördæmi.

Rökin fyrir því hafa komið hér fram og ég tek heils hugar undir öll rök sem fram komu hjá hv. síðasta ræðumanni. Ljóst er að það fæst fullkominn jöfnuður milli kjósenda og misvægi atkvæða er ekki lengur til staðar. Stjórnmálaflokkar fá þann þingmannafjölda sem atkvæði þeim greidd segja til um og þingmenn hafa heildarhagsmuni að leiðarljósi í störfum sínum en ekki þröng kjördæmasjónarmið. Það held ég að sé ákaflega mikilvægt. Kosningakerfið verður líka gert einfalt og auðskilið.

Ég vil þó vekja athygli á þeim tillögum sem ég get ekki fellt mig við en fram kemur í tillögugreininni að fela eigi forsrh. að skipa fulltrúa allra þingflokka er eiga sæti á Alþingi í nefnd sem endurskoði kjördæmaskipan og tilhögun kosninga til Alþingis. Ég sé ekki af hverju og ég spyr hv. flm. af hverju forsrh. á að hafa slíka nefndaskipan með höndum. Ég vitna til þess að í þeirri tillögu sem flutt er af þingmönnum Samf. nú undir forustu Össurar Skarphéðinssonar er lagt til að Alþingi álykti að kjósa níu manna nefnd með fulltrúum allra þingflokka til að endurskoða stjórnarskrána þar sem eitt markmiðið er að gera tillögur um að landið allt verði eitt kjördæmi.

Mér finnst því fráleitt að það eigi að vera á hendi forsrh. að skipa slíka nefnd og hafa verkstjórn með henni. Ég held að ef þingmenn eiga á annað borð að endurskoða stjórnarskrána að því er varðar kjördæmaskipanina, þá eigi það að vera þingið sjálft sem hafi það með höndum og Alþingi skipi slíka nefnd.

Ég vil þó nefna við þessa umræðu að ég hef verið andsnúin því að þingmenn væru sjálfir í því að endurskoða kjördæmaskipanina og rifja það upp af því tilefni að ég flutti á árinu 1995 tillögu um frv. til stjórnarskipunarlaga um það að efna skuli til sérstaks stjórnlagaþings til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Samhliða því var flutt annað frv. um stjórnlagaþing og hvernig það yrði skipað.

Í þeim frv. um stjórnlagaþing sem hefði það hlutverk að endurskoða stjórnarskrána, ekki bara kjördæmaskipanina, heldur stjórnarskrána í heild sinni, var lagt til að þingið, stjórnlagaþingið, væri skipað þjóðkjörnum fulltrúum sem væru kjörgengir samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis, öðrum en alþingismönnum. Með slíku þingi væri komið í veg fyrir að alþingismenn fjölluðu um mál sem vörðuðu þá sjálfa, t.d. ákvæði stjórnarskrárinnar um kosningaskipan og ráðherraábyrgð. En tillaga mín á þeim tíma var að hlutverk slíks stjórnlagaþings yrði að endurskoða stjórnarskrána í heild sinni og skoða sérstaklega kosningareglur og mannréttindaákvæði hennar og síðan átti að fela því stjórnlagaþingi að skoða æskilegar breytingar á stjórnkerfinu, svo sem skýrari skil milli framkvæmdar- og löggjafarvalds og eins hvort ráðherrar ættu jafnframt að vera þingmenn. Og þingrofsheimildina átti einnig að skoða, svo og ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég held að sú tillaga eigi í sjálfu sér fullan rétt á sér enn þann dag í dag. Ég sé ekki af hverju það ætti að vera í hlutverki þingmannanna sjálfra sem hagsmuna hafa að gæta að því hvernig kjördæmaskipanin er, að þeir eigi að hafa sjálfir með höndum slíka endurskoðun.

Við tölum stundum um hagsmunaárekstra hér í þinginu. Þetta er auðvitað ekkert annað en hagsmunaárekstrar að þingmennirnir sjálfir séu að endurskoða kjördæmaskipanina. Þeir og flokkar þeirra geta haft hugmyndir og tillögur um hvernig það á að gera en þeir eiga ekki sjálfir að koma að því verki. Það er skoðun mín.

Við sem höfum kannski setið um langan tíma í þessum þingsölum munum hvernig það hefur verið þegar kjördæmaskipan hefur verið breytt og gerðar tillögur þar að lútandi, þá hafa reiknimeistarar verið fengnir í það verk að gera breytingar með tilliti til einstakra þingmanna hvort þeir væru inni eða úti miðað við þessa eða hina breytingu á kjördæmaskipaninni. Það finnst mér ekki rétt leið.

Ég vil halda því til haga að það er enn í fullu gildi að sérstakt stjórnlagaþing væri sem hefði þetta verkefni með höndum. Ég styð efni þessarar tillögu að landið verði gert að einu kjördæmi, en ekki að hæstv. forsrh. verði falið þetta verkefni.

Ég vil í lokin segja, herra forseti, að þó vissulega hafi verið stigið rétt skref í ákveðna átt með síðustu kjördæmabreytingu, þá var það skref stigið í þá átt að við færðum okkur nær því sem hér er til umfjöllunar, þ.e. að landið verði gert að einu kjördæmi og mín spá er sú að ekki líði mörg kjörtímabil áður en við förum alveg yfir í það sem hér er verið að fjalla um, að gera landið að einu kjördæmi.