Aðgangur þingmanna að upplýsingum

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 10:53:20 (727)

2003-10-17 10:53:20# 130. lþ. 14.91 fundur 91#B aðgangur þingmanna að upplýsingum# (aths. um störf þingsins), EOK
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[10:53]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Ég held að það sé rétt að menn átti sig aðeins betur á því hvernig þetta mál er vaxið. Að sjálfsögðu getur fjárln. Alþingis beðið um hvaða gögn sem hún vill. Auðvitað getur hún gert það og auðvitað fær hún þau. Ákvörðun fjárln. var einfaldlega sú að hún vildi ekki æskja eftir því. Það var niðurstaða meiri hlutans og hann hlýtur að ráða. Við erum að vinna fjárlagavinnuna sem við höfum takmarkaðan tíma til og það er enginn vandi að drekkja nefndinni í pappír. Það stóð aldrei til að fara að vinna fjárlögin upp á nýtt. Við erum að fara yfir þessi fjárlög og ætlum að klára þau á tilsettum tíma eins og dagskrá Alþingis segir til um.

Hv. þm. í fjárln. geta að sjálfsögðu æskt þess að yfirheyra hvaða embættismenn og hvaða forstöðumenn sem þeir vilja. En að hefja fjárlagagerðina upp á nýtt stóð aldrei til hér. Þetta eru rammafjárlög sem við erum að framkvæma, ekki einhver þarfafjárlög. Rammarnir eru búnir að vera í meðferð kannski í 200 daga áður en fjárlagafrv. er tilbúið. Ætla menn að fara í gegnum það pappírsflóð aftur? Þeir ættu þá að skila fjárlögunum eftir nokkur ár. Það stóð ekki til. Við ætlum að standast tímaáætlunina. Þess vegna er þetta vilji meiri hlutans og menn verða að hlíta vilja hans.