Aðgangur þingmanna að upplýsingum

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 10:55:06 (728)

2003-10-17 10:55:06# 130. lþ. 14.91 fundur 91#B aðgangur þingmanna að upplýsingum# (aths. um störf þingsins), HHj
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[10:55]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Það er rétt að vekja athygli hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar á því að í landinu er stjórnarskrá eins og Hæstiréttur Íslands hefur síðast í gær minnt þingmanninn á. Eftir þeirri stjórnarskrá starfar þetta þing. Þeir þingmenn sem hér sitja hafa stjórnarskrárbundnar skyldur um aðhald og eftirlit gagnvart ríkisfjármálum og að sjálfsögðu sérstaklega þeir sem Alþingi hefur kjörið til þess að sitja í fjárln. þingsins. Það eru brýnir almannahagsmunir, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, að þeir þingmenn, hvort sem þeir eru í minni eða meiri hluta, eigi fullan og óskoraðan aðgang að gögnum sem varða almannahag.

Við höfum í störfum nefndarinnar bara ósköp einfalt nýlegt dæmi um slíkt eftirlit. Þó að við fáum ekki þessar umræddu fjárlagabeiðnir fékk ég þó a.m.k. ósk Íþróttasambands fatlaðra til mín vegna þess að þar er um félagasamtök að ræða. Í umfjöllun í fjárln. kom í ljós að það hafði bara gleymst í fjárlagagerðinni að á næsta ári væru Ólympíuleikar fatlaðra. Það er hlutverk okkar í fjárln. að rýna þannig í fjárlagafrv. að slík mistök, sem ég held að séu ekki flokkspólitísk, alls ekki flokkspólitísk eða pólitískur vilji, verði ekki við fjárlagagerðina. Þess vegna er brýnt að þær óskir sem hafa verið lagðar fram komi fram þannig að það megi leiðrétta mistök og líka að það megi færa fram hér í þinginu þær brýnu þarfir sem við teljum að þingið þurfi að taka afstöðu til.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Ég vona svo sannarlega að forseti Alþingis muni beita sér fyrir virðingu þingsins hér og ganga eftir því að við eigum þennan rétt, enda greina þingsköp til um hann. Ég lít svo á að þar sem segir að fjárln. eigi rétt til þeirra upplýsinga eigi það við bæði um mig og hv. þm. Einar Odd Kristjánsson en ekki bara um þingmenn meiri hlutans. Við, þingmenn minni hlutans, erum líka þingmenn, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson.