Tónlistarnám á framhaldsskólastigi

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 14:15:38 (774)

2003-10-17 14:15:38# 130. lþ. 14.95 fundur 95#B tónlistarnám á framhaldsskólastigi# (umræður utan dagskrár), GÓJ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[14:15]

Guðjón Ólafur Jónsson:

Hæstv. forseti. Hvort tónlistarkennsla á framhaldsskólastigi eigi að vera á vegum ríkis eða sveitarfélaga er sjálfstætt úrlausnarefni. Ég vek athygli á að nú er starfandi á vegum hæstv. félmrh. verkefnisstjórn sem sérstaklega á að fjalla um verkaskiptingu og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Sú verkefnisstjórn hlýtur að taka þetta mál til umfjöllunar í störfum sínum.

Eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson gat um áðan hafa deilur ríkis og sveitarfélaga um þessi mál fyrst og fremst bitnað á nemendum. Það er auðvitað miður. Það er mikilvægt fyrir menntun og þroska barna og ungmenna að þau fái að stunda sitt tónlistarnám, þroska hæfileika sína og auðga líf sitt og annarra.

Ef sú krafa er gerð til Reykjavíkurborgar að borgin standi undir kostnaði við tónlistarnám nemenda úr öðrum sveitarfélögum þá er jafnframt verið að skerða möguleika borgarinnar til að nota takmarkaða tekjustofna sína til að bjóða reykvískum ungmennum upp á almennilegt tónlistarnám. Í því felst ákvörðun um að skattgreiðslum foreldra reykvískra ungmenna sé betur varið til að styðja ungmenni úr öðrum sveitarfélögum en Reykjavík.

Að mínu mati, ég verð að segja það sem þingmaður Reykjavíkur, hæstv. forseti, þá gengur ekki upp að gera slíkar kröfur til Reykjavíkurborgar.