Tónlistarnám á framhaldsskólastigi

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 14:19:54 (776)

2003-10-17 14:19:54# 130. lþ. 14.95 fundur 95#B tónlistarnám á framhaldsskólastigi# (umræður utan dagskrár), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[14:19]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Sú ágæta umræða sem hér fer fram leiðir hugann að tónlistarfræðslu og mikilvægi hennar fyrir tónlistar- og menningarlíf í landinu. Hér á landi höfum við valið okkur að haga málum þannig að tónlistarskólarnir séu í höndum sveitarfélaga.

Ég þekki það mjög vel sjálf, sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður á Snæfellsnesi, hversu gríðarlega mikilvægar menningarmiðstöðvar tónlistarskólarnir eru. Það verður aldrei ofmetið. Það er vert að hafa í huga að þessi starfsemi skiptir máli þegar fólk velur sér búsetustað. Þetta eru mál sem skipta í raun máli fyrir búsetuþróun.

Í gegnum tíðina hafa nemendur utan af landi leitað til höfuðborgarsvæðisins, þá fyrst og fremst til Reykjavíkur, í framhaldsnám. Það er þá að vonum að það séu vonbrigði fyrir þetta unga fólk og fjölskyldur þeirra að Reykjavíkurborg hefur ákveðið að innheimta gjald af nemendum sem sækja tónlistarskóla í Reykjavík. Hvaða áhrif mun þetta hafa? Það er vert að velta því fyrir sér. Ég held að áhrifin geti m.a. orðið þau að þessir nemendur flytji lögheimili sitt til Reykjavíkur. Er það það sem við viljum? Er það það sem liggur að baki hjá Reykjavíkurborg, að toga til sín fleira ungt fólk til búsetu í Reykjavík með því að neyða nemendur og foreldra þeirra til að greiða gjöld fyrir framhaldsnám í tónlist? Mér finnst þetta ömurleg staða sem alls ekki hæfir höfuðborg landsins.

Hér hefur einnig verið komið inn á kennaranámið. (Forseti hringir.) Það er mjög mikilvægt mál. Ég hefði gjarnan viljað ræða það frekar en tíminn leyfir það ekki.